04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem frsm. meiri hl. n. hefur hér sagt, að því er varðar þetta frv., að það miði í rétta átt, en betur megi, ef duga skal, í framtíðinni. Það er að vissu leyti rétt hjá hv. þm., þó að það sé ekki að öllu leyti, að stækkandi bú bæti afkomu bænda. Því miður hefur bændastétt landsins ekki þá sögu að segja nú hin síðari ár, því að þrátt fyrir stækkandi bú hefur afkoman ekki batnað hjá íslenzkri bændastétt, og skal, ekki almennt farið út í þau mál hér við þetta tækifæri. En við höfum, minni hl. n., flutt hér nokkrar brtt., sem ég ætla mér að gera grein fyrir í örstuttu máli.

Við framsóknarmenn höfum að vísu áður lagt fram breyt. við stofnlánadeildarlögin og frv., þegar það var hér til umr. á hv. Alþ. fyrir ári. Það er líka annað mál í þessari deild, sem fjallar um vissa þætti þess, sem ég ætla mér ekki að ræða nú, vegna þess að ég geri ráð fyrir, að hæstv. forseti þessarar d. taki það mál á dagskrá og það komi hér síðar til umr.

Hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ) beitti sér fyrir því í n. í Nd. Alþingis, að hækka skyldi framlag þess opinbera til íbúðarhúsabygginga í sveit-, um. Og árangurinn varð sá, að þetta framlag,, var hækkað úr 40 þús. í 50 þús., en upphaflega gerði frv. ekki ráð fyrir neinni hækkun, og ber að sjálfsögðu að meta þetta, þótt þessi byggingarstyrkur nái ekki eins langt og hv. 2., þm. Sunnl. lagði fram till, um og við leggjum, hér fram till. um, sem skipun minni hl. landbn., í Ed.

Það er hvort tveggja, að byggingarkostnaður, hefur hækkað mjög mikið, og svo hitt, að lánin frá stofnlánadeildinni eru miklu óhagstæðari nú en áður var, og ber því brýna nauðsyn til að hækka framlag þess opinbera til íbúðarhúsa, svo að þeir, sem standa í þessum framkvæmdum, komist léttar frá þeim en ella. Vaxtahækkunin úr 31/2 %, eins og hún var, áður en núv. stjórn kom til valda, í 6% hækkar, ársgreiðslu af 42 ára lánum til íbúðarhúsabygginga úr 4.6% á ári í 6.6%, eða hvorki meira né minna en 44% hækkun, sem þessi ársgreiðsla veldur á ári hverju, og þetta eri, ekki svo litill peningur. Ofan á þetta kemur síðan 1% skattur á bændur til stofnlánadeildarinnar, og nemur hann rúml. 2000 kr. á hvern bónda í landinu, ef miðað er við verðlagsgrundvallarbúið, eins og það er ákveðið fyrir yfirstandandi ár, 1962-63. Bændur verða því að fá einhverjar tekjur á móti þessum sífelldu skatta- og vaxtabyrðum, og því höfum við lagt til að hækka framlag til íbúðarhúsabygginganna úr 40 þús. kr., eins og það er nú í l. í 60 þús. kr., og er þetta þó ekki nema örlítið brot af allri þeirri fjárhæð, sem bændur verða að greiða í 42 ár vegna þeirra hækkana, sem orðnar eru.

Önnur meginbreyting okkar á frv. er að auka styrkinn til aftur-úr-jarða og til nýbýlinga. Og við höfum miðað við þá túnstærð, sem við teljum nauðsynlega og eðlilega fyrir það bú, sem verðlag bænda miðast við, og það mun láta nærri, að það þurfi 20 hektara tún, svo að bóndinn sé allajafna nokkurn veginn heybirgur fyrir þann bústofn, er hann hefur. Og auk þessa má geta þess, að hin siðari ár hefur það færzt mjög í vöxt, að bændur beita búfé sínu og ekki sízt nautpeningi á ræktað land, og mun það verða allmiklu tíðara í framtíðinni en verið hefur til þessa. Þessi hækkun á hektarafjöldanum er líka þeim mun nauðsynlegri sem ríkisframlag samkv. jarðræktarlögum til bænda er orðið harla lítið, eða aðeins 1224 kr. á hektara, þegar kemur yfir 10 hektara ræktun. S.l. vor kostaði grasfræið um 90 kr. kg, svo að þetta framlag borgar vart þriðjung af því grasfræi, sem þarf í hektarann, hvað þá meira, svo að ljóst má öllum vera, hversu lítill þessi styrkur er orðinn samanborið við allar þær hækkanir, sem orðið hafa.

Þá leggjum við til, að þátttaka þess opinbera í heildarkostnaði við ræktun hækki úr 50% í 65% af kostnaði jarðræktar. En sem kunnugt er er jarðræktin sá grundvöllur, sem búskapurinn byggist á. Það mátti segja áður fyrr, að landrýmið réði meiru um bústærð og afkomu bænda, en nú er það ekki landrýmið, aftur á móti hið ræktaða land, sem afkoma bænda veltur allajafna mest á. Miðað við svipuð lífskjör og hlutfallslega fólksfjölgun hér á landi í framtíðinni og verið hefur undanfarandi ár, mun íbúum Íslands fjölga upp í 214 þús. til ársins 1970, eða sem næst um 37 þús. á árunum 1961 til og með 1970. Og eigi landbúnaðurinn í framtiðinni að verða sinu hlutverki þá jafnvel vaxinn og verið hefur, þarf framleiðsluaukning að verða mjög mikil og jöfn á næstu árum. Sá samdráttur í framræslu lands og ræktun þess, sem jarðræktarskýrslur bera með sér að verið hefur hin síðari ár, spáir ekki góðu um framtíðina í þessum efnum. Þess vegna ber okkur skylda til þess gagnvart landi og þjóð að búa svo vel að þessum framkvæmdum, að þær fari í framtíðinni vaxandi, í stað þess að þær hafa minnkað hin síðari ár.

Skortur á eigin fé og líka lánsfé háir mjög bændastétt landsins. Þess vegna leggjum við til, að ríkið taki nú meiri þátt í jarðræktarkostnaði en verið hefur, svo að geta bænda vaxi á ný til þessara nauðsynlegu framkvæmda.

Þá leggjum við að lokum til, að ríkið greiði hverju sinni þá fjárhæð, sem lagasetning þessi hefur í för með sér í framtíðinni. Yrði þá svipaður háttur á hafður í þessum efnum og við jarðræktarframkvæmdir samkv. jarðræktarlögum.

Ég vona, að hv. þm. skilji þýðingu þessara mikilvægu till. og samþykki þær. Ég ætla mér ekki að orðlengja þetta frekar, vegna þess að ég veit, að hér ríkir skilningur meðal hv. þm. deildarinnar um þessi efni.