04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég batt mitt mál í framsögu minni eingöngu við þann stutta þátt eða þau fáu atriði, sem við flytjum brtt. um, minni hl. n., og gaf ekki ástæðu til í þeirri ræðu, að jafnviðtækar umr. yrðu um þetta mái eins og hæstv. landbrh. hefur hér komið fram með. Og raunar þurfti hæstv. ráðh. ekkert að segja, vegna þess að hann hefur á hv. Alþ. frá því fyrsta, að ég kynntist honum, flutt tvær ræður. Önnur ræðan, sem ráðherrann flytur, hún er þegar hann er í hæstv. ríkisstj., hin er þegar hann er í stjórnarandstöðu, og hvorar tveggja ræðurnar kann ég, svo að það skiptir engu máli, hvort hæstv. ráðh. talar hér eða ekki. Og það væri hægt að minna hann á nokkrar ræður og nokkur atriði frá því, að hann var í stjórnarandstöðu, og var að tala þá sem hv. þm. Rangæinga, áður en hann lagði niður sitt kjördæmi og gekk í ráðherrastól, en ég ætla að takmarka mig hér við jarðræktina og við byggingarnar.

Eitt af því, sem hæstv. ráðh. sagði, var það, að það hefði verið hægt að hækka styrkinn til íbúðarhúsabygginga án þess að breyta l. að öðru leyti. Þetta er algerlega rangt, og hér stendur í 48. gr., með leyfi forseta:

„Til byggingar íbúðarhúsa á nýbýlum einstaklinga utan byggðahverfa og í byggðahverfum er heimilt að veita framlag allt að 40 þús. kr. á hvert býll.“

Sem sagt, það er hámark á upphæðinni. Og þess vegna var það útilokað, þó að heildarframlagið væri hækkað á fjárlögum, að það væri hægt að greiða meira til hverrar íbúðar, án þess að lagaákvæði skv. 48. gr. þessara l. breyttist. Þetta var því fjarstæða, eins og margt annað, sem hæstv. ráðh. sagði.

Út af því, sem ráðh. sagði varðandi jarðræktarlögin, að það væri undarlegt, að bændur skyldu ekki hafa beðið um endurskoðun á þessari löggjöf fyrr en 1962, eins og ráðh. orðaði það, þá er málið nú ekki algerlega rétt upplýst af hæstv. ráðh. Árið 1960 markar sérstök tímamót í sögu hér á landi — og ekki sízt fyrir það, að sú ríkisstjórn, sem þá sat að völdum, hafði lofað þjóðinni fyrir kosningar gulli og grænum skógum, batnandi lífskjörum án nokkurra nýrra álaga. Þessir háu herrar voru náttúrlega kosnir út á sín loforð til þess að efndirnar færu eitthvað í áttina þar eftir. Efndirnar urðu vitanlega í þessum efnum eins og öðrum þveröfugar við loforðin, og bændurnir hafa ekki sízt farið halloka fyrir þeirri stjórn, sem nú situr að völdum, svo að verulegur grundvöllur fyrir endurskoðun jarðræktarlaga skapaðist ekki fyrr en hæstv. ríkisstj. hafði gert sínar viðreisnarráðstafanir. Og það var árið 1960, þegar bændur halda sína búnaðarfélagsfundi og búnaðarsambandsfundi, sem þeir gerðu margvíslegar till. um breyt. á jarðræktarlögum. Þessar till. koma fram á búnaðarþingi árið 1961, og þá er kosin n. á því þingi til að endurskoða jarðræktarlögin. Og snemma á búnaðarþingi 1962 eru till. n. samþ. breytingalítið og málið af Búnaðarfélagi Íslands sent í landbrn.

Ekki hefur það komið fram í málinu, að neitt hafi verið gert í því, fyrr en í haust, þann 26. nóv., að ég ætla, að hæstv. landbrh. datt í hug, að hægt væri kannske um sinn að tefja málið með því að setja n. í það að nýju. Og þessi n. er búin að sitja á rökstólum í fjóra mánuði, og ekkert hefur frá henni komið. Þó hefur ráðh, bæði á Alþ. og búnaðarþingi, við setningu þess, gefið í skyn, að málið mundi verða lagt fyrir Alþ., og enn þá nú fyrir örfáum mínútum gaf hæstv. ráðh. í skyn, að málið yrði lagt fyrir Alþ. Nú skiptir það mig engu máli, hvað hæstv. ráðh. segir, vegna þess að ég legg ákaflega lítið yfirleitt upp úr því, sem hann segir, af því að það stenzt svo fátt af því, því höfum við bændur mjög mikla reynslu fyrir. En hinu finna bændur fyrir, að þeir eru stórkostlega féflettir í þessari löggjöf, miðað við þær dýrtíðaraðstæður, sem hæstv. landbrh. og núv. stjórn hafa skapað landbúnaðinum. Og upphæðin er hvorki meira né minna en hátt á annan milljónatug á ári, eða um 17 millj., eins og hæstv. landbrh. drap á. Og hvert árið sem liður er of dýrt fyrir félitla bændastétt að missa af þessum tekjum, enda hefur það sýnt sig í jarðræktinni, að hún hefur dregizt saman frá því, sem hún hafði þróazt upp í á þeim árum, sem voru áður en hæstv. núv. ríkisstj. kom til valda.

Þegar minnzt er á þessa löggjöf, er rétt að drepa á það, að við lagasetninguna 1957 urðu nokkrar umr. um þetta mál, og þar ætla ég, að hæstv. núv. ráðh. hafi gefið þjóðinni nokkur fyrirheit. Ég hygg, að nokkrir bændur hafi búizt við meira af honum sem valdamiklum manni í þessum efnum en raun hefur borið vitni um. En þar segir hæstv. ráðh., með leyfi forseta:

„Æskan hefur ekki farið úr sveitum þessa lands af því, að hún hafi ekki viljað vera í átthögunum og helga þeim sína starfskrafta, heldur eingöngu vegna þess, að hana hefur skort fé til þess að stofna bú í sveit, til þess að byggja hús, til þess að kaupa jörð, til þess að kaupa vélar og öll tæki, sem búskapurinn þarfnast. Það hefur verið hægara fyrir æskufólkið að gifta sig og taka á leigu íbúð hér í Reykjavík, til þess hefur þurft minna stofnfé. Það er þess vegna, sem margt af okkar efnilega æskufólki hefur farið gegn vilja sinum úr sveitinni að sjávarströndinni. Þetta er hin raunverulega staðreynd, og þessu fáum við aldrei breytt, nema við viðurkennum þessa staðreynd, nema við hættum að blekkja okkur sjálf. Það er verkefni næstu tíma að finna lausn á því, hvernig við eigum að sporna við hinum stöðuga flutningi æskufólks úr sveitum landsins og gera þessu efnilega æskufólki, sem vill vera kyrrt í sveitunum, mögulegt að vera þar.“

Þetta segir hæstv. ráðh., þegar hann er í stjórnarandstöðu, og margur skyldi ætla, að hann hefði búið þessu æskufólki annað hlutskipti. Það er ekki nóg að hrópa á götum og gatnamótum og fundum Sjálfstfl., að batnandi hagur bænda og viðreisnin fari saman, því að slíkt er endileysa ein. En ég held, að þegar verið er að ræða um þessa löggjöf, sem hér er til umr. nú, og þá þætti hennar, sem snúa að æskulýð landsins, farist hæstv. ráðh, ekki að segja mikið, það væri betra fyrir hann að gera meira, en segja minna.

Hver hefur brugðið fæti og fellt æskufólkið frá sínum draumum og vonum til sveitalifsins frekar en hæstv. núv. ráðh.? Það hefur enginn gert. Svo hastarlega og illa er búið að landbúnaðinum nú, að þeir einir treystast til að búa og geta búið, sem eru orðnir grónir, sem kallað er, og eru lengi búnir að byggja upp sín bú og sinn búskap. Hinir, sem eru að byrja, hafa ekki í neitt hús að venda, og jafnvel þó að þeir gætu byrjað, þá eygja þeir ekki möguleikana á því að komast frá þeirri skuldasúpu, sem til yrði að stofna undir slíkum kringumstæðum. Og það er ekki vel fyrir þjóðinni séð og fólkinu séð, þegar eingöngu þeir geta hafið búskap, sem verða að treysta á efnahag sinna forfeðra til þess að komast klakklaust áfram í sínum búskap.

Ég held, að það væri gott fyrir hæstv. ráðh. að hugleiða sumt af því, sem hann hefur sagt, meðan hann var í stjórnarandstöðu, nú, á meðan hann situr í valdastólnum. Það er ekki víst, að hann eigi eftir að vera þar svo lengi, og hann hefði sannarlega gott af því og það mundi verða virt við hann, ef hann væri það framsýnn, að hann beitti sér fyrir því, að brtt. okkar í minni hl. yrðu samþ. hér á Alþingi.

Þess er líka skemmst að minnast, að það var haft viðtal við hæstv. landbrh. í útvarpinu fyrir ekki alllöngu. Og þar segir hæstv. ráðh. m.a., að það þurfi og það sé nauðsynlegt að styrkja jarðrækt mikið, allt upp í 20 hektara. Hvers vegna vill þá ekki hæstv. ráðh. nú, þegar fram kemur till. samhljóða hans orðum og að ég ætla vilja, beita sér fyrir samþykkt hennar? Tarðræktarlagabreyting síðar skiptir engu um þessi atriði málsins, ekki neinu. Þess vegna held ég, að það væri framsýni ráðh., ef hún væri einhver til, sem ætti að ráða mestu um það, að þessar till. yrðu samþ. En því verður nú sennilega ekki fyrir að fara, því að ráðh. er í ráðherrastólnum, og þá er annað sjónarmið uppi en þegar hann er þar ekki.

Ég ætla mér ekki að fara að fjölyrða hér um þessi mál og allra sízt á jafnviðum grunni og hæstv. ráðh. gerði. En eitt er víst, hvernig sem í því liggur, um bændastétt landsins, að þrátt fyrir allar verðhækkanir á landbúnaðarafurðum, og að einhverju leyti hækkandi lán versnar hagur hennar með ári hverju sem líður. Dýrtíðin er orðin svo gífurleg í landinu og hún sleikir svo margar krónur, að það er útilokað mál, að bændur geti lengi haldið í horfinu undir þessum kringumstæðum. Það er líka sannast sagna, þegar sjálfstæðismenn tala um, að þeir hafi byggt upp stofnlánadeild landbúnaðarins, — hver er þá uppbyggingin og hvaðan koma peningarnir? 2 kr. á móti hverri 1 koma frá bændastéttinni sjálfri. Þetta er uppbyggingin. Það er seilzt í vasa bændanna og þeim talin trú um, að það sé búið að byggja upp sjóði landbúnaðarins fyrir framtíðina af þeirra eigin fé. Þetta eru peningar, sem fara í ríkisbanka og bændurnir fá þaðan aldrei aftur sér til eignar. Og það er ómögulegt að segja, hvernig þessum málum verður ráðið fyrir þeirra hönd við þá stofnun í framtíðinni, og allra sízt ef hæstv. núv. stjórn situr að völdum. Þetta er öll uppbyggingin, það eru teknar 2 kr. úr vasa bændanna ofan á vaxtahækkunina og alla aðra dýrtíð til þess að byggja upp sjóði landbúnaðarins. Ef maður tekur lán, eins og veitt eru nú úr stofnlánadeild landbúnaðarins, 150 þús. á íbúðarhús, þá hefur bóndi, sem hefði fengið slíkt lán, áður en núv. stjórn kom til valda, þurft að greiða í árgjald 6900 kr. Hvað þarf hann að greiða nú? Hefur hæstv. ráðh. gert sér grein fyrir því? Hann þarf að greiða 9900 kr. Þarna eru 3000 kr., sem hæstv. ráðh. hefur skyldað bændur til að greiða til stofnlánadeildarinnar, og þar á ofan á ári hverju 2000 kr., eða 2% af sínum tekjum í skatt í stofnlánadeildina.

Þetta er uppbygging stofnlánadeildarinnar. Hún er byggð upp af fé bændanna sjálfra á móti 1 kr. frá ríki og neytendum í landinu. Áður .fyrr þóttu það engin tíðindi, þó að sjóðir Búnaðarbankans væru byggðir upp með hinu almenna sparifé í landinu og af ríkisfé. Og ef einhver svipuð hlutföll ríktu í þessum málum nú og voru kringum 1930, þá ætti ríkið að leggja fram, miðað við fjárlög yfirstandandi árs, sem næst 60 millj. kr. á ári hverju. Það væri hægt að segja, að sjóðirnir væru byggðir upp, ef þessi háttur væri á hafður, en ekki á kostnað bændanna sjálfra.

Það er ekki heldur að undra, þótt bændastéttin sé sáróánægð með þau kjör, sem hæstv. ríkisstj. býr henni að öllu leyti, sem hún getur við ráðið. Það er ekki hæstv. ríkisstj. að þakka, þótt bændur fái meira útborgunarverð nú en áður, það er ekki henni að þakka. Það er forustu Stéttarsambands bænda að þakka fyrst og fremst. Og ég kann alls ekki við þann tón, þegar hæstv. ráðh. er að tala um það að ríkið greiði svo og svo mikið í afurðaverðinu, eins og áðan, og telur það eftir til Mjólkurbús Flóamanna, að ríkið hafi orðið að greiða því nokkuð yfir 7 millj, í útflutningsuppbætur. Og það er sannast sagna, að útflutningsuppbæturnar hafa farið minnkandi ár frá ári, frá því að hæstv, núv. ríkisstj. kom til valda, og því sízt ástæða fyrir þá stjórn, sem þegar hefur margskattlagt bændurna æ ofan í æ, að vera að telja eftir nokkrar krónur, sem renna einstaka bændum í landinu til góða.