04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú svo, að þegar hv. 1. þm. Vesturl. fullyrðir, að bændurnir borgi 2 kr. á móti hverri 1, sem kemur í stofnlánadeild landbúnaðarins, og er svo taugaveiklaður, að hann ber hér í ræðustólinn, þá er náttúrlega spurning, hvort á að halda áfram að ræða við hann um þessi mál. Og þegar sami hv. þm. fullyrðir það, að útflutningsuppbæturnar til landbúnaðarins hafi farið minnkandi síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, þá styður það einnig þá skoðun, að það eigi ekki að ræða við hann um þessi mál á þessu stigi. En það er nú svo margt, sem maður venst við, og ég ætla þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessar fullyrðingar, sem ekki styðjast við nein rök hjá hv. þm. og eru barnalegar fullyrðingar, samt að segja aðeins nokkur orð í tilefni af ræðu hans hér áðan.

Hvaðan skyldi þessi hv. þm. hafa það, að ég væri að telja eftir uppbætur til Mjólkurbús Flóamanna, 7 millj. kr. á útflutt mjólkurduft? Ég hygg, að enginn nema hann, sem hlustaði á mig áðan, geti talið, að ég hafi sagt það í þeim tón. Ég sagði frá þessu sem staðreyndum og að einmitt vegna þessa er fært að greiða bændum nú fullt grundvallarverð vegna útflutningsuppbótanna yfirleitt, sem ekki var áður, þegar bændur vantaði kannske 10% af mjólkurverðinu. Það hefur sennilega verið, þegar uppbæturnar voru sem mestar. En ég hef að vísu séð þetta áður einhvers staðar í blöðum, skrifað af einhverjum framsóknarmanni, að útflutningsuppbæturnar í því formi, sem þær eru nú, væru nú lítils virði og minna virði en þær áður voru. Hvernig voru útflutningsuppbæturnar á landbúnaðarafurðirnar, meðan útflutningssjóðurinn starfaði? Hefur hv. 1. þm. Vesturl. gert sér grein fyrir því? Ég held ekki. Hann hefði ekki talað eins og hann gerði hér áðan, ef hann hefði verið búinn að gera sér grein fyrir því. Þegar útflutningssjóður starfaði, komust útflutningsuppbæturnar hæst 94.5%. Og útflutningsuppbæturnar voru miðaðar við það, sem sjávarútvegurinn var talinn þurfa að fá til þess að fá framleiðslukostnað á fiskafurðum. Bændurnir fengu aldrei hærri prósentur á útfluttar landbúnaðarvörur en útvegurinn fékk, því að það var allt miðað við það, hvað útvegurinn þyrfti að fá. Þess vegna var það, að þegar landbúnaðurinn flutti út osta eða mjólkurduft fyrir kannske 3 kr. kg, þá fengust ekki nema 94.5% útflutningsuppbætur á þennan ost, sem hefði þurft að verðleggja, til þess að bóndinn fengi fullt verð, 12–15 kr. kg. Bóndinn fékk undir þessu kerfi aðeins brot af þeim uppbótum, sem hann þurfti til þess að fá fullt verð, og satt að segja hélt ég, að hv. 1. þm. Vesturl., sem hefur starfað í bændasamtökunum og Stéttarsambandinu, hafi gert sér grein fyrir því, hvaða ranglæti bændur voru látnir búa við á þessum tímum samanborið við aðra atvinnuvegi. Og hvernig stæðu þeir nú, ef þeir byggju enn við þetta kerfi, þegar þeir selja út mjólkurduft fyrir 4 kr., fengju í uppbætur 94.5%, tæpar 8 kr., en þetta mjólkurduft er skráð að heildsöluverði 16 kr., að mig minnir? M.ö.o.: þeir fengju þriðja partinn af því, sem þeir fá nú í uppbætur, ef það væri búið við óbreytt kerfi. Ég hygg, að bændur, aðrir en hv. 1. þm. Vesturl., óskuðu ekki eftir því, að þetta væri endurtekið, og ég verð að segja það hv. 1. þm. Vesturl. til vonkunnar, að hann hefur ekki gert tilraun til þess að breyta þessu gamla kerfi, hann hefur ekki gert sér grein fyrir því ranglæti, sem bændur bjuggu við, og varð það þó áþreifanleg, vegna þess að það vantaði á fullt verð, vegna þess að þeir bjuggu ekki við þá löggjöf, sem þeir búa við nú.

Hv. þm. fullyrti það hér áðan og er í samræmi við annað, sem hann sagði í sinni ræðu, að það ætti ekki að þakka núv. ríkisstj. þessa löggjöf, heldur Stéttarsambandinu, — það var Stéttarsambandið, sem setti 1., en ekki ríkisstj. En mér er kunnugt um það, að aðrir bændur en þessi hv. þm. þakka það núv. ríkisstj,, að hún hafi beitt sér fyrir því, að þetta var gert, og er alveg ástæðulaust að vera um það að metast. En það vita allir, að það er útilokað að tryggja bændum fullt verð, nema þeir hafi sölutryggingu á allri framleiðslunni. Þess vegna er það, að hlutur bænda hefur verið stórum bættur frá því, sem áður var.

Hv. þm. gerði mér nú svo hátt undir höfði að lesa hér ræðukafla, sem ég hafði flutt 1957, og hann telur, að ég mundi ekki geta flutt svipaða ræðu nú, talað um unga fólkið og uppbyggingu sveitanna á sama hátt nú og þá. Ég er dálítið undrandi, að hann skyldi lesa þessa ræðu, vegna þess að hún er enn töluð út úr mínu hjarta og algerlega í samræmi við þá vinnu, sem nú er lögð í það að byggja upp sveitirnar. En hv. þm. er blindur í sinni sök, og þess vegna er svo erfitt við hann að ræða. Hann gerir sér ekki grein fyrir því, við hverju núv. ríkisstj. tók. En hann ætti samt að muna, hvaða augum hann leit á framtíðina, þessi hv. þm., um það leyti sem björgunarstarfið hófst, því að hv. þm. gerði sér þá fulla grein fyrir því, að við værum illa á vegi staddir. Og ef engin viðreisn hefði komið og ráðstafanir til þess að bjarga út úr öngþveitinu hvernig væri æskumaðurinn á Íslandi þá staddur í dag? Nú eru ekki nema þrjú ár liðin, síðan björgunarstarfið hófst, og við getum verið sammála um það, stjórnarandstaðan ætti að geta verið sammála um það, að þetta björgunarstarf hefur tekizt mun betur en ástæða var til að vona. Það hefur tekizt mun betur, þó að við getum viðurkennt, að enn er ýmislegt eftir að laga. En 3 ár eru ekki langur tími.

Hv. þm. sagði, að hann byggist ekki við, að ég yrði lengi í valdastól úr þessu, þar sem kosningar eru fram undan. Ég hef aldrei spáð fyrir kosningum og ætla ekki að gera það núna heldur, ég ætla engu að spá um það, hvort ég verði í valdastól eftir næstu kosningar eða ekki. En ég hygg, að hv. 1. þm. Vesturl. geti ekki heldur spáð um það. Ég hygg, að ef við ættum að segja alveg eins og er, þá viti hvorugur okkar nokkuð um það, hvernig næstu kosningar fara. Og við skulum bara láta bíða allar fullyrðingar um það. Hitt veit ég, að það væri ekki gott, ef þjóðin kysi yfir sig einhverja glundroðastjórn eins og hún bjó við á árunum 1956–1958. Ég held, að það væri farsælast fyrir þjóðina, hvaða menn sem sitja í valdastólunum, að það væri hægt að halda áfram á þessu spori, sem nú hefur verið markað, að byggja upp atvinnuvegina og fá festu í fjármálin. Og það er enginn vafi á því, að ef við getum búið við meðalárferði á þessu ári, þá er aðstaða bænda miklu betri á þessu ári en hún var á árunum 1960 og 1961, og það er vottur þess, að það er rétt stefnt. Bændur búa við hækkað afurðaverð allt þetta ár, en hækkun á rekstrarvörum er sáralítil, og þess vegna er það, að það mun vera betra ár hjá bændum í ár, ef árferðið er í meðallagi, heldur en hefur verið, og það sannar, að það er rétt stefnt eins og nú er.

Hv. þm. var að tala um það, og var það eitt af merkilegum fullyrðingum hans, að sjóðir Búnaðarbankans hafi áður verið byggðir upp með sparifé landsmanna og væri þar munur en núna. Ég held nú, að a.m.k. flestir þm. ættu að vita það, að sjóðir Búnaðarbankans störfuðu að ákaflega miklu leyti með erlendu lánsfé, og það var óhamingjan, að það skyldi vera. En af þeirri braut var horfið um áramótin 1959–1960, og hafa sjóðirnir starfað með innlendu lánsfé síðan, og er þess vegna ástæða til þess að ætla, að sú uppbygging, sem nú er hafin á stofnlánadeildinni, verði varanleg og ekki undan henni grafið.

Fullyrðingar hv. þm. um jarðræktarlögin eru harla merkilegar, þar sem hann segir, að það hafi ekki verið aðstaða til að hefja endurskoðun jarðræktarlaganna fyrr en á árinu 1961. Ég ætla nú ekki að rökræða þetta atriði, vegna þess að mér finnst þessi fullyrðing svo út í bláinn. Vitanlega hefði verið hægt að hefja endurskoðun jarðræktarlaganna strax á árinu 1958 eða jafnvel fyrr. Það, sem vantaði í jarðræktarlögin, er það ákvæði, að það skuli vera veittur styrkur hverju sinni í samræmi við aukinn ræktunarkostnað. Ef það hefði verið síðasta áratuginn, hefði vitanlega verið allt öðru máli að gegna. En ég tel það gott, að sú n., sem fékk frv. til athugunar, frv. búnaðarþingsnefndarinnar, er nú við það að ljúka störfum. Það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að ég hafi næstum lofað því, að þetta frv. yrði lagt fram nú á þessu þingi. Ég sagði, að ég hefði viljað það, og ef ég fengi frv. nógu fljótt, þá teldi ég betra, að það væri hægt að sýna það nú, þótt það gæfist ekki tími til að lögfesta það. En ég segi, að ég get ekkert fullyrt um það, meðan frv. er ekki komið í mínar hendur.

Hv. þm. ætti nú að hafa hægan aðgang að þessari n., þar sem flokksbróðir hans er starfandi í henni, og ég tel, að n. sé vel skipuð með þeim Pétri Gunnarssyni og Kristjáni Karlssyni, sem vissulega hafa góða þekkingu á ræktunarmálum. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að till., sem frá þeim koma, verða til bóta, en ekki til hins verra.

Þá vil ég segja það einnig, að ég sagði ekki, að bændur hefðu verið skaðaðir um 17 millj. kr. með því, að jarðræktarlögin hafi ekki komið fyrr í gildi. Ég sagði, að það mætti ætla, að till, búnaðarþingsnefndarinnar hefðu numið allt að 17 millj. kr. hækkun á jarðræktarl. frá því, sem er. Það segir ekki það, að það hafi verið í samræmi við aukinn ræktunarkostnað, þær hækkanir, sem búnaðarfélagsnefndin lagði til að yrðu, og því síður það, að hækkanirnar hjá búnaðarþingsnefndinni hafi verið helzt á þeim liðum, sem mest nauðsyn er á að yrðu hækkaðir. Og það hygg ég, að sú n., sem nú starfar, hafi sannfærzt um, að það var brýn ástæða til þess að breyta ýmsu af því, sem búnaðarþingið hafði lagt til, einungis til þess að samræma l. við breytta búskaparhætti.

Ég get staðið við það, sem ég sagði hér, þegar ég fór í pontuna, að orðlengja þetta ekki öllu meira, því að þegar hv. þm., frsm, minni hl., fullyrðir hér, að bændur leggi 2 kr. á móti hverri 1, sem í stofnlánadeildina kemur, og enn fremur, að útflutningsuppbæturnar séu bændum sízt hagstæðari nú en þær voru áður, meðan útflutningssjóður starfaði, þá er vitanlega ekki ástæða til þess að tala langt mál við þennan hv. þm.