14.03.1963
Efri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna fsp., sem hv. 1. þm. Vesturl. var með hér við 2. umr. um eignir sjómannadagsins og byggingarnar í Laugarási.

Eignir sjómannadagsins munu vera nú tæpar 38 millj. Þar af eru byggingarframkvæmdir 34.9 millj. Hagnaður af happdrættinu til 30. apríl 1962 nam 29.3 millj. Þar í eru að vísu taldar nokkrar tekjur, sem D.A.S. hefur haft af aðalumboðinu í Reykjavík. Greiddir vinningar happdrættisins voru fyrstu 8 árin 59.7 millj. Það var rétt, sem ég skýrði hér frá við 2. umr., að það hefur orðið núna s.l. ár nokkur hagnaður á biðrekstrinum, og bæði sá hagnaður og hagnaður, sem áður hefur orðið á þeim rekstri, hefur gengið til þessara framkvæmda og meðfram til þess að greiða þann halla, sem hefur verið á rekstri heimilisins, sem stafar aðallega, eins og ég sagði, af rekstri sjúkradeildarinnar. En auk þess eru nokkrar tekjur, sem sjómannadagsráð hefur haft, bæði af skemmtanahaldi á sjómannadaginn og auk þess hafa borizt verulegar upphæðir sem gjafir til sjómannadagsins eða stofnunarinnar, sem D.A.S. hefur í Laugarási.

Ég vona, að ég hafi svarað þeim fsp. á fullnægjandi hátt, sem hv. 1. þm. Vesturl. bar fram.