15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Halldór E. Sigurðsson; Herra forseti. Það er ekki meining mín að fara að mæla gegn þessu frv., sem hér er til umr., nema síður sé, heldur vil ég lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli vera fram komið, þó að ég hefði hins vegar kosið, að hér væri meira mál á ferðinni en raun ber vitni um. En að því mun ég víkja síðar.

Ég hef tekið eftir því, að í blöðunum hefur þetta mál verið nokkuð rætt, síðan það kom fram hér á hv. Alþingi, og hafa stjórnarblöðin gert sér mjög far um að merkja þetta hæstv. ríkisstj. og flokkum sínum, í Morgunblaðinu var frá því sagt, þegar skýrt var frá þessu máli, að það væri ánægjulegt, að viðreisnarstjórnin skyldi beita sér fyrir því. Í Vísi var frá því sagt, að það væri ánægjulegt, að Sjálfstfl. beitti sér fyrir þessu máll. Og í Alþýðublaðinu var frá því skýrt, að það væri mjög ánægjulegt, að hæstv, félmrh. legði á það mikla áherzlu, að þetta mál næði fram að ganga, og aðeins væri einn galli hér á, að framsóknarmenn vildu nú fara að eigna sér málið. Það var slæmur ljóður á ráði málsins frá sjónarmiði Alþýðublaðsins. En af þessari ástæðu þykir mér rétt að skýra nokkuð sögu þessa máls hér á hv. Alþingi, ef það mætti verða þeim að liði, sem um það hafa fjallað, og þeim öðrum, sem vilja vita hið sanna og rétta um þetta mál sem önnur.

Á Alþingi 1957 flutti ég ásamt hv. þáv. 1. þm. Arn., Ágúst Þorvaldssyni, till, til þál. um þetta efni. Till. dagaði uppi. En á Alþingi 1958 var till. endurflutt og þá í nokkuð fyllra formi en áður hafði verið. Flm. voru þá Halldór E. Sigurðsson, Ágúst Þorvaldsson, Karl Kristjánsson, Björgvin Jónsson, Páll Þorsteinsson og Sigurvin Einarsson. Þessi till. var 32. mál þingsins og var á þskj. 52. Hún var lögð fram á Alþingi, útbýtt 29. okt. og lögð fram á 6. fundi Sþ. Hún var til umr. á 9. fundi Sþ. þann 12. nóv. 1958. Í íramsöguræðu, sem ég flutti fyrir þessu máli þá, gerði ég grein fyrir málinu í meginatriðum. Í fyrsta lagi benti ég á það, að öldruðu fólki fjölgaði mjög í landinu og þess vegna þyrfti að taka þetta mál til meðferðar nú frekar en áður hefði verið. Fólk margt léti af störfum um sjötugt, en ætti þá eftir ónotaða starfsorku. Þetta þyrfti þjóðfélagið að horfa á, bæði til þess að gefa þessu fólki tækifæri á að skapa verðmæti, sem það gæti gert, og í öðru lagi til þess að ellin yrði ekki þessu fólki óbærileg, enn fremur, að þéttbýlið skapaði ýmis vandamál í sambandi við þetta. Heimilin gætu ekki sinnt þessu aldraða fólki, eins og áður hefði verið. Þess vegna þyrfti að taka málið til meðferðar nú, þó að það hefði ekki þurft áður fyrr. Í till. okkar var gert ráð fyrir því, að n., sem fengi málið til meðferðar á milli þinga, ætti að athuga um stofnun vinnuheimila fyrir aldrað fólk og fólk, sem hefði skerta starfsorku, í öðru lagi stofnun vist- og hjúkrunarheimila, í þriðja lagi aðild að greiðslu stofnkostnaðar og í fjórða lagi fyrirkomulag á rekstri þessara heimila. Þessi till. okkar fór til fjvn. eftir fyrri umr. og gekk þangað 19. nóv. 1958. Umr. um þetta mál er að finna í D-deild Alþingistíðindanna frá 1958, og tóku ekki þátt í þeim umr. hér á hv. Alþingi aðrir en ég sem 1. flm, og hv. þm. Alfreð Gíslason læknir. Fjvn., sem þá áttu sæti í 4 framsóknarmenn, 3 sjálfstæðismenn, 1 Alþfl.-maður og einn Alþb.-maður, afgreiddi nál. sitt á þskj. 295. N. varð á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Hún lagði til, að sú breyting ein yrði gerð á málinu, að í staðinn fyrir það, að ríkisstj. skipaði n. eftir tilnefningu ýmissa stofnana, þá yrði n. kosin af Alþingi. Þetta mál var tekið fyrir á fundi í Sþ., 31. fundi þingsins, hinn 4. marz 1959, og till. var afgreidd frá Alþingi alveg eins og n, gekk frá henni og að stofni til alveg eins og hún var upphaflega lögð fyrir þingið. Af hálfu fjvn. hafði ég framsögu um þetta mál hér á hv. Alþingi, og tóku ekki aðrir hv. alþm. þátt í þeim umr. Hinn 11. maí 1959 var svo n. kosin, sem til var ætlazt í till., og átti frú Sigríður Thorlacius sæti í henni af hálfu okkar framsóknarmanna.

Þetta er sagan um tildrög þessa máls, og þarf engan að undra, þótt Framsóknarflokksmenn telji sig hafa komið þar við.

Síðan þetta gerðist á vorinu 1959, að n. var kosin í þetta mál, hefur málið verið í meðferð n. Hún hefur að eðlilegum hætti unnið að málinu, eins og hún var kosin til. Og nú fyrst á þessu hv. Alþingi skilar n. áliti til þingsins, svo sem ráð var fyrir gert í till., að gert yrði. Það, sem ég vil segja um störf n., er það, að ég hafði í upphafi gert ráð fyrir því, að hún mundi taka málið víðtækara til meðferðar en gert hefur verið. í till. okkar var gert ráð fyrir því, að heildarlöggjöf yrði sett um vinnu- og vistheimili fyrir aldrað fólk. Við bentum á það í grg. og einnig í framsögu, að nauðsyn bæri til að setja upp slíka löggjöf. Það, sem n. hefur hins vegar gert, er að leysa einn þáttinn, um íbúðir fyrir aldrað fólk. Hins vegar lít ég svo á, að aðrir þættir málsins séu enn óleystir.

Í sambandi við frv. n., það sem hæstv. ríkisstj. leggur hér fyrir, vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort það er ekki svo, að sú aðstoð, sem veitt er með frv., nái einnig til vistheimila, þó að það séu ekki einstaklingshús, eins og þarna er gert ráð fyrir, þ.e. að 50% lán og styrkur nái einnig til þess hluta vistheimilis, sem eru íbúðir fyrir þetta aldraða fólk. Mér finnst það ekki koma greinilega fram í frv., en tel, að það megi lesa þetta út úr grg. frv.

Ég verð að segja það, að þó að ég hefði viljað, að meira hefði verið að gert, þá fagna ég þessu frv. En ég hefði líka talið eðlilegt, að tekjur af happdrættinu skiptust a.m.k. jafnt. Dvalarheimili aldraðra sjómanna er stofnun, sem er búin að njóta þessa tekjustofns lögverndað nú um nokkurra ára skeið, er búið að reisa miklar byggingar og hefur þess vegna ekki eins brýna þörf og mörg héruð munu hafa fyrir slíkar stofnanir. Af þeirri ástæðu hefði ég talið eðlilegt, að hér hefði verið um 50% skipti að ræða á milli þessara tveggja stofnana. Hins vegar er heimild fyrir dvalarheimilisstjórnina í lögum um happdrættið að lána til íbúðarhúsa fyrir aldrað fólk, og getur það þá notið einhvers af hinum hlutanum, en það hefði verið hin mesta nauðsyn, að þessi fjárhæð hefði verið meiri. Enn fremur finnst mér skorta í þessa afgreiðslu n., að það skyldi ekki vera sett löggjöf um vinnuheimili fyrir þetta fólk og fólk með skerta starfsorku. Það er mikil nauðsyn á því að setja heildarlöggjöf um þá starfsemi. Hún hefur að verulegu leyti byggzt á störfum áhugamanna, og er ekki nema gott um það að segja. En hér þarf að koma til, þótt síðar verði, heildarlöggjöf, og ég er n. sammála um, að eðlilegt er, að það sé löggjöf, sem nái bæði til þess fólks, sem er með skerta starfsorku vegna sjúkleika, og þeirra, sem hafa hana skerta fyrir aldurs sakir. Til þess var einnig ætlazt í till. okkar framsóknarmanna 1958. Mér finnst, að það hefði verið líka nauðsynlegt að hafa fyllri ákvæði um dvalarheimllin fyrir aldraða fólkið en hér er, en geri ráð fyrir því, að þau eigi að njóta sömu hlunninda um lán og styrki og gert er ráð fyrir með þessu frv., nema annað upplýsist.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál öllu meira að þessu sinni, en ég vil vegna þess, sem ég tók fram hér í upphafi, og vegna blaðaskrifa, sem um þetta hafa orðið, leggja áherzlu á, að það var af hendi okkar framsóknarmanna, sem þetta mál var flutt hér á Alþingi og borið uppi gegnum þingið, þar til afgreiðslu þess lauk 4. marz 1959. N. hefur svo af eðlilegum ástæðum skilað sínum störfum eftir 4 ár að nokkru leyti, en þó ekki að því leyti, sem till. raunverulega ætlaðist til. Og ég get um leið látið í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki lagzt á þetta mál, eins og við verðum oft að sætta okkur við, sem erum ekki hennar stuðningsmenn, heldur ber það fram hér á þessu þingi, og ég treysti því, að það nái fram að ganga, og ber að meta þann þátt hennar sem annarra, er málinu hafa lagt lið.