15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ríkisstj. fyrir þetta frv. og jafnframt þeirri mþn., sem fjallaði um þetta mál og vann að því, og þeim öðrum, sem hlut eiga hér að máli, og þá kannske ekki sízt 3. þm. Vesturl., eftir orðum hans að dæma, en það voru einmitt þau, sem gáfu mér tilefni til að standa upp, eða öllu frekar þær söguskýringar, sem hann gaf hér.

Mér finnst í sambandi við þær umr., sem orðið hafa um þetta frv., að gleymzt hafi ákaflega stór hlutur hjá mörgum hv. ræðumönnum, og það er sá hlutur, sem varðar fjármagnið, sem til byggingasjóðs aldraðra á að fara. En sú fjármagnsmyndun á sér auðvitað miklu lengri sögu en kom fram hjá 3. þm. Vesturl.

Happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna hefur nú starfað í nær 9 ár, en það tók til starfa á árinu 1954 skv. sérstakri löggjöf, sem sett var á hv. Alþingi. En það var ekki byrjunin á þeirri starfsemi, sem ágóði þess átti að renna til. Búin var að standa yfir í mörg ár söfnun sjómannasamtakanna til byggingar dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Á s.l. ári átti sjómannadagurinn 25 ára afmæli, en það má segja, að allt frá fyrstu tíð hafi starfsemi þessa dags, sem er byggður upp af stéttarfélögum sjómanna í Reykjavík og Hafnarfirði, bæði undirmanna og yfirmanna, miðað að því að safna fé til að byggja dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn. Og ég vil taka það fram nú þegar, að auðvitað hlaut að koma að því, eftir að svo stórkostlegum áfanga var náð, eins og raun ber vitni um að Laugarási hér í Reykjavík, þá var óhjákvæmilegt að færa þessa starfsemi út á þann veg, að þarna væri ekki eingöngu verið að ætla öldruðum sjómönnum vist, þó að hins vegar það skilyrði sé enn þá sett fyrir vistdvöl, að þeir eigi forgangsrétt til dvalar á heimilinu. Hins vegar eru þarna bæði konur og karlar, sem aldrei hafa komið á sjó, alls staðar að af landinu. Geri ég ráð fyrir, að það séu jafnvel fleiri í dag, sem eru vistmenn á þessu heimili, utan af landi heldur en hér af svæðinu í kringum Reykjavík og Hafnarfjörð.

Eins og ég sagði áðan, hafði söfnun staðið yfir í mörg ár í þessu augnamiði, þegar þetta happdrættisleyfi fékkst fyrir þessi samtök, og það höfðu safnazt margar millj. kr. Og mér finnst einmitt rétt í sambandi við 1. umr. þessa máls, að það komi fram, að í sambandi við þá söfnun var sýnt gífurlega mikið og óeigingjarnt starf af þeim áhugamönnum, sem að þessu máli unnu. Ríkisstj. kom á móti ósk þessara manna um að gefa þeim þennan tekjustofn, sem væri fólginn í happdrættinu, sem þeir sjálfir byggðu upp að öllu leyti, vegna þess að hinar stóru og miklu upphæðir, sem þeir höfðu þegar safnað, voru sífellt að rýrna vegna þeirrar verðrýrnunar, sem átti sér stað á þessum árum. Allt þetta fé, sem búið var að safna þá og hefur verið safnað auk þess síðan, hefur farið í þessa byggingu dvalarheimilis aldraðra á Laugarási í Reykjavík. Og í dag er höfuðstóll þessara eigna eða bygginganna að Laugarási kominn í tæpar 35 millj. kr.

Fyrstu 8 árin hefur happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna skilað í ágóða rúmum 29 millj. kr., og eru þá taldar með tekjurnar af aðalumboðinu hér í Reykjavik. Þegar happdrættið var farið að skila jafnöruggum og árvissum ágóða og raun bar vitni um eftir fyrstu starfsárin, komu strax óskir fram um það frá aðilum úti um land, að þeir fengju hluta af þessum ágóða til að styrkja elliheimili og dvalarheimili, sem þar væru í byggingu. Þessi ásókn var mjög þrálát á þá, sem fóru með stjórn þessara mála hér í Reykjavík. Og hún var svo þrálát og byggð á það sterkum rökum, að strax árið 1960 var samþ. á aðalfundi samtakanna að leita til ríkisstj. um framlengingu happdrættisleyfisins næstu 10 ár og bjóða um leið bæði huga og hönd til samstarfs til að leysa þann vanda, sem skortur bygginga yfir aldraða væri og yrði enn meiri á komandi árum, í því formi, að af þeim happdrættiságóða, sem áfram mundi renna til sjómannadagsins, yrði veittur styrkur til slíkra heimila úti um land. Þetta var ítrekað aftur 1961. Hvort hæstv. ríkisstj. hefur tjáð mþn. þetta eða hvernig það er til orðið, þá er sú staðreynd kunn, að formaður mþn. og fleiri aðilar úr henni leituðu til forustumanna þessara sjómannasamtaka og fóru þess á leit, að reynt yrði að ná samkomulagi um þessi tvö mál. Og ég mundi nú segja, að þau frv., sem hér liggja fyrir, séu einmitt byggð á þeim viðræðum og góða vilja, sem lýsti sér hjá báðum aðilum að vinna að þessum málum.

Hv. 3. þm. Vesturl. minntist nokkuð á skiptinguna. Skiptingin er sú, að dvalarheimili aldraðra sjómanna mun áfram fá á næstu 10 árum 60% af tekjum happdrættisins og skal því þá varið til áframhaldandi uppbyggingar á Hrafnistu hér í Reykjavik, en 40% ganga til hins fyrirhugaða byggingarsjóðs. Þegar þess er gætt, að rúm 70% af tekjum happdrættisins koma héðan úr Reykjavík og úr Hafnarfirði, auk þess sem þetta heimili, Hrafnista að Laugarási, hefur ekki bundið sig við íbúa á þessu svæði, heldur hafa þar átt forgangsrétt sjómenn hvaðanæva af landinu, þá er ekki ósanngjarnt, að þessi skipting sé höfð í huga, miðað við það líka, að þeirri áætlun, sem verður að nást á Hrafnistu í sambandi

við byggingarnar þar, verður ekki náð fyrr en að þessum 10 árum liðnum með þeirri fjárhæð, sem ætlað er að happdrættið gefi. Þar eru nú þegar byggingar, sem rúma tæplega 200 vistmenn. Þar af eru um 40 vistmenn, sem geta dvalizt á sjúkradeild, sem er mjög fullkomin, en segja má, að allt það, sem til sameiginlegra nota sé, sé þegar byggt, aðeins eigi eftir að byggja yfir vistfólkið sjálft í viðbót. Og það er mjög nauðsynlegt fyrir rekstur Hrafnistu að fá þessa viðbót, og fyrr en því er lokið, næst ekki hagkvæmur rekstur. En það er fyrirhuguð og þegar hafin bygging á 2 álmum til viðbótar, sem munu rúma 130 vistmenn, og þar fyrir utan var í hinni upphaflegu áætlun, sem gerð var um byggingarnar í Laugarási, gert ráð fyrir litlum íbúðum fyrir aldraða sjómenn, sem þarna kæmu til sinnar síðustu dvalar, og hefur ekki enn verið hafizt handa um þær. Það er líka eftir að ganga frá lóð og ýmsu öðru, þannig að til þess að ljúka þeim áætlunum, sem þarna eru fyrirhugaðar, veitir sízt af þessum peningum. Og auðvitað verða aðrar tekjur, sem þessum samtökum hlotnast, látnar ganga til þessara bygginga og þess starfs, sem þarna er unnið, eins og hingað til.

Í dag er, eins og ég sagði, rúm fyrir tæpa 200 vistmenn. En að Hrafnistu er gert ýmislegt fleira. Þar hefur verið útbúið mikið og gott vinnupláss fyrir þá, sem það geta nýtt af vistmönnum heimilisins. Og á s.l. ári urðu tekjur vistmanna af þeirri vinnu, sem unnin er á heimilinu og heimilisstjórnin sér um að sé unnin, tæp 1/2 millj. kr. Að vísu eru þetta mjög litlar upphæðir, sem koma á hvern og einn, en eru hins vegar mikill og góður styrkur fyrir þetta aldraða fólk. Auk þess að hafa þessa starfsemi fram yfir önnur elliheimili hér á landi, sem mér er kunnugt um, þá er fyrirhugað í þeirri álmu, sem nú er hafin bygging á, að auka þetta vinnupláss um helming, þannig að ég mundi nú segja, að einmitt á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna væri komið að miklu leyti til móts við þær upphaflegu hugsanir, sem fram komu hjá hv. 3. þm. Vesturl. hér á Alþingi fyrir nokkrum árum.

Ég varð þess var í einu dagblaðanna í morgun, að sá misskilningur hafði komið fram hjá einum þm. í hv. Ed., að vistgjöld á Hrafnistu væru jafnvel hærri en annars staðar. Þetta er hinn mesti misskilningur. Meðalvistgjöld á Hrafnistu eru 15 kr. lægri á dag en lægsta gjald á Elliheimilinu Grund. Og auk þeirrar þjónustu, sem ég hef þegar minnzt á í sambandi við vinnupláss og annað slíkt, þá eru þarna allflestir í eins manns herbergjum, mjög rúmgóðum, og má segja, að hver maður hafi um 30 kúbikmetra til umráða til sinnar eigin íbúðar, fyrir utan ganga og setustofur, sem eru fjölmargar á heimilinu.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, og eins er rétt að láta það koma fram líka, vegna þess að þess er ekki getið í grg. með frv., sem hér hafa verið lögð fram, en ég gaf hins vegar hv. n. í Ed. upplýsingar um það eða frsm., hverjar eru þær tekjur, sem verið hafa af þessu happdrætti síðustu árin. En 7. árið, sem það starfaði, urðu tekjur happdrættisins 5.4 millj. kr. nettó, 8. árið 4.5 millj. og 9. happdrættisárið, sem enn þá stendur yfir, hefur verið gerð áætlun um, að tekjurnar yrðu 5.5 millj. kr.