15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 12. þm. Reykv. þarf ég litið að segja. Ég gleðst yfir því, sem þeir gera vel þarna á heimilinu, og því starfi, sem þeir hafa lagt þar fram. Það er ekkert óeðlilegt frá hans sjónarmiði, þó að honum finnist um of að þurfa að láta 40% af tekjunum af hendi. Hins vegar er það jafneðlilegt frá mínum bæjardyrum séð, að mér hefði fundizt eðlilegt, að þarna hefði orðið um helmingaskipti að ræða, en skal ekki um það deila.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að mestu máli skipti, að málið næði fram að ganga, en ekki, hver hefði flutt það, þá vil ég taka undir þetta með hæstv. ráðh. Það skiptir mestu máli, og þess vegna fagna ég því, eins og ég tók fram í minni ræðu hér, að þetta mál skuli vera fram komið og að það skuli ekki vera setzt á það af hæstv. ríkisstj., eins og við eigum oft að venjast, sem erum ekki hennar stuðningsmenn. En það er ekki eingöngu ég, sem tek það upp að skýra, hver var höfundur málsins upphaflega, og ég hefði ekki heldur farið að gera það hér á hv. Alþingi nema vegna þess, að stjórnarblöðin voru að reyna að fá sérstakan pólitískan stimpil á málið. Ég hafði hér fyrir framan mig á borðinu frv. til l. um loftferðir, sem nýbúið er að leggja hér fram á hv. Alþingi. Og hvernig haldið þið, hv. alþm., að byrji skýringin, þegar verið er að gera grein fyrir þessu máli? Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa ykkur upphafið að þeirri grg. Hún er svo hljóðandi:

„Frv, þetta er samið að boði Ingólfs Jónssonar flugmálaráðherra og í samræmi við þáltill., sem samþ. var 1956 skv. till. Gunnars Thoroddsens ráðh.“

Hér er ekki verið að draga af því, hverjir hafa verið flm. eða upphafsmenn málsins. Og það var ekki ég, sem var að byrja á því að fá flokksstimpil á þetta, heldur voru það blöð hæstv. ríkisstj., og þess vegna skýrði ég málið. Og mín reynsla er nú sú af sumum hv. stuðningsmönnum hæstv. ráðh., að það þurfi að skýra nokkuð nákvæmlega mál fyrir þeim, ef þeim á að vera fullkomlega ljóst, hvernig þau hafa til orðið.

Út af því, sem ég spurði hæstv. ráðh. um aðstoð við vistheimilin, þá vil ég bera fyrir mig hér neðst á bls. 8, í grg. með frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Um aðstoð við byggingar vistheimila vísast til grg. og frv. um byggingasjóð aldraðs fólks.“

Þess vegna lit ég svo á, að það sé skilningur n., að vistheimilin eigi að njóta sömu aðstoðar og einstaklingshúsin, þó að n. Leggi höfuðáherzlu á, að þau gangi fyrir, en bendir þó á þau vistheimili, sem hugsað er að byggja, og gerir ráð fyrir, að þau verði byggð, sem ekki er búið að byggja nú, þegar frv. kemur fram. Það er tekið fram í upphaflegu þáltill., að einmitt stofnanir fyrir aldrað fólk og fólk með skerta starfsorku fari saman. Þess vegna er það í samræmi við till., að n. leggi það til. Hitt tel ég að vanti, að það sé sett löggjöf um slíka starfsemi, og það bíður betri tíma.

Ég vil svo endurtaka það, að ég fagna því, að þetta frv. er fram komið. Það er spor í rétta átt, og jafnvel þó að það gangi of skammt, þá mun ég ekki flytja við það brtt., heldur styðja það óbreytt, til þess að það nái fram að ganga hér á hv. Alþingi.