15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að beita mér gegn þessu máli, mun greiða því atkv. Hins vegar efast ég um, að með þessu frv. sé tekið á þeirri hlið málsins, sem mesta þýðingu hefði fyrir aldrað fólk.

Það hefur komið hér fram í umr., að fyrir þeim mönnum, sem fluttu á sínum tíma þáltill. um þetta mál og komu því þannig af stað, vakti fyrst og fremst að koma upp með þjóðfélagslegri aðstoð vinnuaðstöðu fyrir aldrað fólk, svo að vinnuorka þess nýttist þjóðfélaginu. Það er að vísu rétt, að aðstaða fólks til þess að neyta vinnuorku sinnar batnar, ef séð er fyrir veigamiklum þætti í daglegu lifi fólks eins og íbúðarhúsnæðismálinu. En þó er það ekki aðalúrlausn málsins. Gömul hjón, sem hafa gert átak í hárri elli til þess að eignast íbúðina sína, geta eftir sem áður setið þar atvinnulaus og engin úrræði haft til þess að neyta sinnar vinnuorku, svo að það mál, sem ég tei þýðingarmest í sambandi við vandamál gamla fólksins, er þrátt fyrir þetta frv. óleyst.

Ég vil þó í sambandi við þetta mál spyrja um nokkur atriði:

Í fyrsta lagi: Hvað mikið fé er líklegt að fáist til að fullnægja tilgangi frv. með þessum 40% af happdrættiságóða dvalarheimilis aldraðra sjómanna, eða m.ö.o., hve miklar eru happdrættistekjurnar nú og hve mikið fé kæmi þarna til með að falla til íbúðabygginga fyrir aldrað fólk úti um landið? Ég held, að það hafi ekki verið upplýst í þessum umr.

Þá verður mér að spyrja um það, af því að mér sýnist ekki, að það séu skýr ákvæði um það í frv.: Hvernig hugsa menn sér að búa um það, að það verði aldrað fólk, sem framvegis njóti þeirra íbúða, sem byggðar verða á grundvelli þessa frv.? Við skulum segja, að í upphafi fái einungis 67 ára karlar og konur slíkar íbúðir til kaups og fái 50% lán. Þau eiga fyrir sér nokkur ár, kannske áratug eða svo, svo er íbúðin seld, e.t.v. með opinberri ráðstöfun, skiptaráðandi á að ráða þeirra dánarbúi, þetta er þeirra eign, — hvaða ráðstafanir eru hugsaðar til þess að tryggja, að þessar íbúðir verði áfram íbúðir fyrir aldrað fólk? Eða eiga þær þá að ganga kaupum og sölum og verða íbúðir fyrir hvern sem er?

Í þessu sambandi vil ég enn fremur spyrja um það, af því að það kemur ekki fram í frv.: Að hvaða leyti eiga þessar íbúðir að vera sérstaklega útbúnar fyrir aldrað fólk? Í hverju eiga þær að vera frábrugðnar öðrum íbúðum, þannig að þær henti betur öldruðu fólki? Verður það e.t.v. þannig, að vegna þess, hvernig þær verða tilbúnar, henti þær miður öðru fólki en gamalmennum? Ég hef yfirleitt ekki komizt í kynni við það, að sérstakar íbúðir væru útbúnar fyrir gamalt fólk, að öðru leyti en ég hef orðið þess var í Svíþjóð og Finnlandi, að stundum er neðsta hæð í verkamannabústöðum alveg sérstaklega útbúin fyrir öryrkja og þá að öðru leyti fyrir aldrað fólk, sem talið er að verr þoli stigagöngur og hafi verri aðstöðu með því að búa á efri hæðum slíkra bygginga. Það er einasta tegund íbúðarhúsnæðis fyrir öryrkja og gamalt fólk, sem ég hef komizt í kynni við, það er sem sé, að neðsta hæð verkamannabústaða hefur verið tekin frá og búin að nokkru leyti öðruvísi út, sérstaklega með notkun öryrkja fyrir augum. En sérbyggingar fyrir aldrað fólk hef ég ekki orðið var við nema í formi þessara alkunnu stofnana, gamalmennahælanna, elliheimilanna. En þeir, sem samið hafa frv., og þeir, sem bera það fram, hafa sjálfsagt hugmyndir um það, að hverju leyti þessar íbúðir eigi að vera sérstaklega útbúnar fyrir gamalt fólk.

Hins vegar held ég, að öllum verði ljóst, að þýðing þessa frv. hlýtur að verða tiltölulega takmörkuð. Það aldrað fólk, sem orðið er 67 ára gamalt eða eldra og hefur ekki eignazt íbúðir á sinni löngu ævi, mér þykir það vera anzi hugrakkt eða ekki illa á vegi statt, ef það þorir að ráðast í það að fara að kaupa íbúð 67 ára gamalt, þó að það eigi kost á að fá lán, sem nemur 50% af kaupverðinu. Þetta 67 ára gamla fólk getur ýmist verið illa á vegi statt eða vel statt. Og við skulum segja, að það fólk, sem svo er illa á vegi statt, að því hefur ekki tekizt að afla sér íbúðar fram að 67 ára aldri, ég hef ákaflega takmarkaða trú á því, að það verði margt af þessu fólki eftir 67 ára aldur, sem ræðst í það að kaupa sér íbúð. Hins vegar gæti vel eitthvað af þessu fólki verið svo vel á vegi statt, að það þyrði í þetta að ráðast, og þó finnst mér ólíklegt, að það yrði margt, ef það hefði ekki leyst sín íbúðarmál fram að þeim aldri. Ég er þess vegna afskaplega efins um það, að þetta frv., þó að það líti vel út á pappír, geti orðið neitt stórmál, sem leysi vandamál nokkurs verulegs fjölda af hinu aldraða fólki í landinu. Samt sem áður kynni það að verða svo, að það leysti úr vanda einhverra einstaklinga, og gæti þannig verið þess virði að gera það að lögum. En stórmál held ég að þetta sé ekki af þeirri ástæðu, að mér finnst svo afskaplega ólíklegt, að margt af fólki eldra en 67 ára gömlu ráðist í það að kaupa sér íbúð, þótt það eigi kost á 50% láni. Ég hefði talið miklu eðlilegra þjóðfélagslega og orðið miklu glaðari við, ef hér hefði komið fram á hv. Alþingi frv. til 1. um byggingasjóð ungs fólks, af því að ég er sannfærður um, að af slíku frv. væru meiri og almennari þjóðfélagsleg not og kæmi til hjálpar af þjóðfélagsins hendi á þeim hluta mannsævinnar, sem reglulega væri ástæða til að hjálpa fólki til þess að búa fjölskyldunni viðunandi heimill. Ég held, að það sé nærri því í ótíma gert að ætla sér að fara að hjálpa fólki til þess að leysa sín húsnæðismál, þegar það er komið nálægt sjötugu.