15.10.1962
Efri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Um margra ára skeið hafa ýmis lagaákvæði um gjaldaviðauka verið framlengd frá ári til árs. Að meginefni er þetta frv, samhljóða slíkum frumvörpum á undanförnum árum. Í 1. gr. þess er framlengd heimildin til að innheimta með viðauka stimpilgjald, leyfisbréfagjöld og gjald af innlendum tollvörutegundum. Í 3. gr. eru framlengd ákvæði um bifreiðaskatt, innflutningsgjald af hjólbörðum o.fl. Í 4. gr. er framlengt álag á vörumagnstoll og verðtoll, enn fremur 1% gjald til byggingar tollstöðva í landinu. í niðurlagi 4. gr. er einnig framlengd heimildin til að fella niður aðflutningsgjöld af nokkrum vörum. Í 5. gr. er svo gert ráð fyrir að framlengja fyrir árið 1963 ákvæðin um 8% viðbótarsöluskatt og enn fremur skuli gilda til ársloka 1963 lög nr. 60 frá 1961, um lækkun aðflutningsgjalda á ýmsum vörum. Í sambandi við þetta síðasttalda mál, sem eðlilega hefur ekki fyrr verið í þessum frumvörpum, vil ég taka það fram, að í nóvembermánuði síðastliðnum var ákveðið að lækka aðflutningsgjöld á allmörgum vörutegundum, sem háir tollar höfðu verið á áður. Var þá tekið fram, að þetta væri gert í tilraunaskyni. Tilgangurinn var sá að lækka í verði verulega ýmsar vörur og í annan stað að reyna að draga úr þeim mikla ólöglega innflutningi eða smygli, sem allir vissu að átti sér stað á ýmsum hátollavörum. Það var ákveðið, að lögin skyldu gilda til ársloka 1962. í 5. gr. þessa frv. er lagt til að framlengja þessi ákvæði um lækkun tollanna, þannig að þau gildi einnig fyrir árið 1963.

Í sambandi við þessa tilraun má geta þess, að hefði innflutningur haldizt óbreyttur áfram að magni til á þeim vörutegundum, sem tollar voru lækkaðir á, mátti búast við því, að ríkissjóður mundi tapa á þessum tollalækkunum 40–50 millj. kr. á ári. Eins og gert var ráð fyrir, þegar frv. var samið og flutt, hefur þetta reynzt á annan veg. Hagstofan hefur tekið saman, hverjar tekjur ríkissjóður hefur haft af þessum tilteknu vörum, sem tollar voru lækkaðir á, fyrstu 6 mánuði ársins 1961 og fyrstu 6 mánuði ársins 1962, eftir að tollalækkunin var komin til framkvæmda. Niðurstaðan var sú, að í stað þess, að ríkissjóður missti tekjur af þessari tollalækkun, urðu tekjur hans eftir tollalækkunina af þessum sömu vörum 171/2 millj. kr. meiri á þessu 6 mánaða tímabili.

Síðan núv. stjórn tók til starfa, hefur verið unnið að allsherjarendurskoðun tollskrárinnar með það fyrir augum að samræma og sameina þau mörgu aðflutningsgjöld, sem nú eru í gildi. Það er gífurlegt verk, sem þar hefur verið unnið, og því er ekki að fullu lokið. En ég vænti þess, að frv. til nýrrar tollskrár verði unnt að leggja fyrir þetta þing, er nú situr. Þegar nú tollskrá tekur gildi, hvort sem það getur orðið um næstu áramót eða síðar á árinu 1963, mundi það hafa þá þýðingu, að ýmis ákvæði í því frv., sem hér liggur fyrir, kæmu ekki til framkvæmda. En meðan ekki er vitað um afgreiðslu tollskrárinnar, hvenær unnt verður að ljúka meðferð hennar á þingi og láta hana taka gildi, þykir ekki annað fært en leggja til við Alþingi, að framlengd verði þau ákvæði sem ræðir um í þessu frv.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.