01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar þetta mái var til 1. umr. hér í hv. d., gerði ég við það nokkrar aths. Ég fagnaði að vísu framkomu frv. og lýsti yfir, að ég mundi greiða atkv. með því, en gerði aths. við ýmis efnisatriði þess. Ég lét í ljós, að íbúðir fyrir aldrað fólk, sem væru í eigu annarra aðila en sveitarfélaga, mundu að minni hyggju ekki verða til þess að greiða fram úr húsnæðismálum margra gamalmenna. Ég taldi, að það væri hjálp, sem kæmi nokkuð seint, þegar ætti að fara að aðstoða einstaklinga við að kaupa sér íbúð um og yfir sjötugt, og taldi, að mjög fáir þeirra einstaklinga, sem nokkra getu hefðu, mundu lúta að slíku, einkanlega þegar svo þær íbúðir ættu að vera með kvöð, sem gerði íbúðirnar lítt seljanlegar.

Ég lét einnig í ljós óánægju með það, að í frv. er talað um aðra aðila, sem sveitarstjórnir kynnu að mæla með og tækjust þá í hendur að reisa íbúðir handa öldruðu fólki, en ættu þó að njóta réttinda til lána og styrkja samkv. þessum lögum. Ég spurðist þá fyrir um, hvaða aðilar þetta væru, sem þarna væri hugsað til, og fékk frá hæstv. ráðh. engin svör um það. Nú vita menn það, að hér í Reykjavík hefur einn slíkur aðili komið á fót elliheimili og rekið það um langa hríð. Þegar þetta gerist, þá er það að vísu gert til þess að leysa þjóðfélagslegt vandamál, sem hinu opinbera ber fyrst og fremst skylda til að leysa. En það er þó sennilega alltaf í og með hugsað sem gróðafyrirtæki, og ég er andvígur því, að þessi þjóðfélagsvandi sé gerður að gróðavegi fyrir einn eða neinn. Að þessu atriði barst talið í hv. heilbr.- og félmn., og menn skiptust á skoðunum um það, hvað mundi verða um elliheimilisbyggingar, sem slíkir aðilar hefðu komið á fót, þegar þeir féllu frá. Þá kom mönnum saman um, að annaðhvort hyrfu svona mannvirki úr þessari notkun ellegar þá að sveitarfélagið yrði að koma til og yfirtaka allt saman.

Það ber sem sé yfirleitt að þeim brunninum, að þessi mál verða varla leyst á þann hátt, að tryggt sé, að það fé, sem til þess er varið að leysa vandann, komi áframhaldandi að gagni, nema því aðeins að það sé gert af sveitarfélögunum. Þá gengur það frá einni aldraðri kynslóð til annarrar, og fjármagnið, sem veitt er til þess að leysa húsnæðismál aldraðs fólks, er í höndum þess aðila, sem skylduna ber til að sjá þessu fólki farborða um húsnæði og margt annað, og það virðist mér því vera eina eðlilega leiðin.

Þegar við fórum að athuga frv., kom ýmislegt fleira í ljós, sem allir nm. viðurkenndu að þyrfti að breyta. T.d. 5. gr., sem er þannig orðuð hjá þeirri mþn., sem samdi frv., að styrki og lán úr sjóðnum megi veita gegn öruggum tryggingum sveitarfélögum og öðrum aðilum o.s.frv. Allir nm. voru á einu máli um það, að þarna væri meinloka á ferðinni og þyrfti að breyta þessari grein þegar af þeirri ástæðu, að meiningarlaust væri að veita styrki gegn öruggum tryggingum, en styrkir og lán voru þarna sett sem hliðstæður, og átti að heimta öruggar tryggingar fyrir hvoru tveggja.

Eins og sjá má af þskj. 480, fór svo, að öll n. taldi, að rétt væri að breyta frv. í verulegum atriðum. Á þskj. 480 eru 6 brtt. frá meiri hl. n. Ég tel þessar brtt. yfirleitt vera til bóta á frv., og málsins vegna mundi ég að lokum samþykkja frv., þó að engar brtt. næðu fram að ganga við það, en ég mundi þó öllu fremur með nokkurri ánægju samþykkja það að samþykktum brtt. meiri hl. n., eins og þær liggja fyrir á þskj. 480, því að ég tel þær til bóta. Sumum þeirra er ég í raun og veru alveg fyllilega samþykkur.

Ein meginbrtt., sem gerð er á þessu þskj., er sú, að horfið sé frá því að veita nokkra styrki til þessara mála, en gera það eingöngu í lánsformi og hækka lánin aftur þannig, að sameiginlega megi hvíla sem veð á þeim húsum, sem byggð eru samkv. þessum lögum handa öldruðu fólki, allt að 85% af kostnaðarverðinu: 50% lán úr sjóðnum og enn fremur megi lán á samhliða veðrétti eða 1. veðrétti nema allt að 35%, þannig að sameiginleg lán með veði í byggingunum mættu vera allt að 85%. Ég held, að það sé réttara að fella styrkina niður, og er þeim brtt. samþykkur, einkanlega þegar lánveitingarnar eru þá rýmkaðar að sama skapi og hér er gert.

En þau atriði, sem ég er ósammála í brtt. meiri hl., eru þau, sem ég gerði aths. við strax við 1. umr., nefnilega að ég tel, að til lítils muni koma að ætla einstaklingum eftir 67 ára aldur að standa í þessum byggingarframkvæmdum og koma þannig upp íbúðarhúsnæði fyrir sjálfa sig. Ég tel, að bezt fari á því, að þarna séu allir aðrir aðilar en sveitarfélögin leystir af hólmi og löggjöfin verði eingöngu um það að greiða sem bezt götu sveitarfélaganna til að koma upp húsnæði fyrir aldrað fólk og þetta húsnæði gangi svo til framhaldandi nota, alltaf á hendi sveitarfélagsins, en hinu aldraða fólki sé leigt þetta húsnæði með mjög vægum kjörum, sem sjálfsagt er, þar sem sveitarfélagið mundi aldrei geta látið sér detta í hug að gera þetta að gróðavegi, og það hefði fengið hagkvæm lán til alllangs tíma til þess að koma byggingunum upp og gæti þannig veitt sérstaklega hagkvæm kjör. Að vísu fékkst ekki. samkomulag um það í hv. n. að ákveða vaxtakjör og lánstíma í frv. sjálfu, og í upphaflega frv. er það ekki heldur, og finnst mér það einn af ókostum frv. En hv. frsm. tók það fram áðan í sinni ræðu, að það væri ætlun meiri hl. n., sem að þessum till. stendur, að lánskjör yrðu veitt til langs tíma og með lágum vöxtum, þannig að lánin yrðu með þeim hagkvæmustu lánum, sem veitt væru til íbúðarhúsnæðis. Ég álit þó alveg sjálfsagt, að í löggjöf sem þessari sé ákveðið, til hve langs tíma lánin skuli veitt sveitarfélögunum og hver vaxtafóturinn skuli vera. Þannig er það í l. um verkamannabústaði og yfirleitt tekið fram í lögum. Ég man ekki til þess, að þetta sé reglugerðarákvæði í neinni þeirri löggjöf, er snertir lánsfjárútvegun til byggingarmála.

Þó að ég að ýmsu leyti geti fallizt á, að till. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn, séu til bóta a frv., þá er þó í þeim till. haldið þeim þáttum frv., sem ég er andvigur, svo að ég felli mig ekki við till. í heild. En hef tekið fram, að ég tel þó frv. vera mér skapfelldara að breytingunum samþykktum. En ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 481 allvíðtækar brtt. við frv. Brtt. eru eiginlega við allar greinar þess og einnig við fyrirsögnina.

Ég legg til, að verksvið frv. eða l. verði rýmkað þannig, að frv, heiti „Frumvarp til laga um byggingasjóð aldraðs fólks og öryrkja.“ Þessa till. mína byggi ég á því, að þær íbúðir, sem á annað borð eru byggðar með tilliti til þess, að vanburða fólk að einhverju leyti eigi að búa við þessar íbúðir og hagnýta þær, þá henti þær jafnt öryrkjum sem öldruðu fólki, og sveitarfélag, sem komið hefur upp slíku húsnæði, sé jafnvel að því komið að notfæra það hvort sem væri fyrir aldrað fólk eða öryrkja, og það teldist ekki notkun, sem færi út fyrir ramma laganna, þó að öryrkjar væru látnir búa í slíkum íbúðum, sem sveitarfélag ætti. Mér finnst því, að þessi brtt., sem rýmkar nokkuð verksvið 1., sé eðlileg.

Þá er 2. brtt. mín um það, að hlutverk þessara laga skuli eingöngu vera það að koma upp íbúðarhúsnæði fyrir aldrað fólk og öryrkja utan Reykjavíkur. Þetta er vegna þess, að hér er um það að ræða, að Reykjavík hefur haft allt það fé, sem komið hefur inn fyrir happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna, það hefur farið til að byggja elliheimilísstofnun mikla í Reykjavík. Á samkv. frv. að halda áfram að verja 60% af tekjum happdrættis dvalarheimilis aldraðra sjómanna til þess að ljúka byggingu þessarar miklu stofnunar. Reykjavík hefur notið alls þess fjár, sem komið hefur inn fyrir happdrættið, og á að njóta áfram 60% af því. Með því að gera skiptingu eins og fyrirhugað er hér á þessu fé tel ég eðlilegt, að Reykjavík haldi 60%, en það verði landsbyggðin, kauptún, bæir og sveitir utan Reykjavíkur, sem fái hin 40% til þess að byggja íbúðarhúsnæði fyrir aldrað fólk og öryrkja. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni, vegna þess að venjulegur fundartími er nú liðinn.) Ég gæti hugsað, að það yrðu allt að 10—12 mínútur að gera grein fyrir brtt. Að öðru leyti ætlaði ég ekki að fjölyrða um málið, svo að ég legg það alveg á vald hæstv. forseta, hvort ég á að hætta mínu máli nú eða ljúka því. (Forseti: Ég vil þá biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni) — [Frh.]