02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég stóð ekki upp til þess að ræða efnislega það frv., sem hér liggur fyrir til umr. Ég er þakklátur hv. heilbr.- og félmn. fyrir að hafa sameiginlega lýst því yfir, að hún styðji frv.

Það er ekkert óeðlilegt, þótt fram komi ýmsar skoðanir á málinu, þegar um svo mikið vandamál er að ræða eins og hér er á ferðinni, og skal ég ekkert ræða þann ágreining, sem er á milli meiri hl. og minni hl. n. Læt ég hv. frsm. um að ræða það mál. En ég gat ekki látið þetta mál fara svo í gegnum þessa hv. d. að mótmæla ekki þeirri stefnu, sem sýnist hafa verið ráðandi í mþn., sem samdi þetta frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 9 á þskj. 325:

„Ekki vill n. mæla með því, að vistheimili séu reist í afskekktum og fámennum byggðarlögum, því að þangað mundi erfitt að fá nægjanlegt starfslið, lækniseftirlit og annað, sem nauðsynlegt er, til að aðbúð vistmanna verði ákjósanleg. Þróunin hefur orðið sú, að eðlilegt er, að vistheimili eru einkum reist á þeim stöðum, sem mannaferð liggur helzt að, eða á verzlunarstöðum viðkomandi héraða. Aldrað fólk saknar þess mjög, ef samband þess rofnar við ættingja og vini vegna fjarlægðar.“

Ég tel, að þessi ummæli séu byggð á frámunalega miklum misskilningi á þessum málum. Ég tel, að sú stefna, sem hér hefur verið uppi, að safna saman svo að segja öllu öldruðu fólki víðs vegar af landinu, eftir því sem hægt hefur verið að fá rúm fyrir það, í Reykjavík, sé algerlega röng. Það er einn þátturinn í því að láta fólkið flýja til borgarinnar og skilja byggðina eftir mannlausa. Margt af þessu fólki er flutt þangað mjög nauðugt, og síðasta ósk þess og skilyrði fyrir því, að það yfirleitt vilji taka rúm á þessum heimllum, er, að skrokkurinn verði fluttur í burtu í heimasveitina, þegar það hefur gefið upp öndina.

Ég tel, að það eigi að stefna að því að byggja upp sem mest af íbúðum aldraðs fólks, hvort heldur það yrðu séríbúðir eða það yrði í ákveðnum vistheimilum, þar sem ræturnar eru sterkastar, og flytja það ekki í burtu frá þeim stöðum. Og ég veit, að það eru fjöldamargir staðir á landinu, þar sem þetta fólk vildi heldur búa en vera safnað saman hér í Reykjavík, þar sem það er í hálfgerðum fangelsum. — Þetta vildi ég láta koma fram sem mína skoðun á málinu, áður en málið fer út úr þessari hv. deild.