02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að leiðrétta aðeins misskilning hv. síðasta ræðumanns. Hann taldi, að þau sjónarmið, sem kæmu fram í áliti mþn., sem þetta frv. samdi, væru á misskilningi byggð, og þeim sjónarmiðum vildi hann mótmæla. En ég vil hins vegar benda á, að mótmæli hv, þm. eru á misskilningi byggð.

Hann vitnaði hér til þeirra ummæla n., að hún teldi ekki ráðlegt, að vistheimili fyrir aldrað fólk yrðu byggð á fámennum og afskekktum stöðum. Nefndin taldi, að hið aldraða fólk vildi fremur vist á þeim stöðum, þar sem mannaferð lægi helzt að og það ætti hægast með að eiga skipti við sína ættingja og kunningja, fremur en vera staðsett einhvers staðar fjarri allri mannabyggð. Í þessi ummæli vildi hv. þm. leggja þann skilning, að mþn. teldi æskilegast, að allt aldrað fólk á landinu yrði flutt til Reykjavíkur, er það hefði náð tilteknu aldursmarki og önnur skilyrði leyfðu því ekki að eiga heppilega vist á þeim stað, þar sem það áður hefði dvalizt. En að sjálfsögðu liggur hér til grundvallar það, sem raunverulega stendur í þessu nál., sem sé, að við teljum, að hið aldraða fólk vilji helzt dveljast á þeim stöðum, er, eins og við orðum það, mannaferð liggi helzt að. Það eru fleiri staðir á landinu, sem telja má þannig ástatt um, heldur en Reykjavík. Við eigum, sem betur fer, ýmsa fleiri staði, þar sem þéttbýli má teljast eða margbýli, heldur en höfuðstað landsins. Og það er það, sem við er átt að sjálfsögðu. Við teljum ekki, að það eigi að reisa vistheimili einhvers staðar uppi í afdal, sem enginn á leið um, nema kannske til að flytja matvæli eða einhverja nauðsyn á hið tiltekna vistheimili. Hins vegar teljum við, sem sæti áttum í þessari mþn., að hið aldraða fólk sé betur komið í þorpum, kauptúnum eða kaupstöðum, frekar en á afskekktum stöðum á landinu. Það var aðeins þetta, sem ég vildi benda á. Það er ekki átt við, að hér sé um Reykjavík eina að ræða.