15.10.1962
Efri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að minnast á eitt ákvæði í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er ákvæði 5. gr. um það, að gilda skuli til ársloka 1963 ákvæði um 8% viðbótarsöluskatt á innfluttum vörum í a-lið bráðabirgðaákvæða við lög nr. 10 1960, um söluskatt. Ég kemst ekki hjá því að rifja upp forsögu þessa ákvæðis í örfáum orðum.

Það er upphaf þeirrar sögu, að í grg. fyrir fjárlagafrv. árið 1960, sem lagt var fram í janúarlok 1960, var orðrétt sagt:

„Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti á innflutningi.“

Sá boðskapur var svo endurtekinn í viðreisnarbæklingnum viðkunna, sem út var gefinn og útbýtt var á ríkissjóðs kostnað, enda þótt hann væri í raun og veru ekkert annað en áróðursrit fyrir stjórnarstefnuna. En Adam var ekki lengi í Paradís. Í marzmánuði 1960 lagði hæstv. ríkisstj. fram frv. sitt um söluskatt. Þá var komið annað hljóð í strokkinn. Í því frv. var svo fyrir mælt, að á árinu 1960 skyldi innheimtur viðbótarsöluskattur af innflutningi, 8%, þ.e.a.s. til viðbótar hinum almenna 7% söluskatti af innflutningi, sem haldast skal áfram. Sú viðbótarskattlagning var þá fyrst og fremst eða sérstaklega rökstudd á þann hátt, að vegna þess að hinn almenni 3% síðasta sölustigs skattur kæmi ekki til framkvæmda, fyrr en fjórðungur ársins 1960 væri liðinn, þá hrykki sá almenni skattur ekki á því ári til að gefa þær tekjur, sem gert hafði verið ráð fyrir. Þess vegna hefði verið horfið að því til bráðabirgða að afla þess, er á vantaði, með viðbótarsöluskatti á innfluttar vörur og væri lagt til, að sú hækkun gilti til ársloka 1960. Í síðari umr. um þetta mál hefur hæstv. fjmrh. að vísu nefnt til fleiri ástæður, sem hafi valdið því, að horfið var að þessari viðbótarskattlagningu. En á þær ástæður, sem hæstv. fjmrh. hefur þannig viljað færa fram til réttlætingar þessari viðaukaskattlagningu, höfum við framsóknarmenn ekki getað fallizt. Hvað sem liður þessum öðrum ástæðum, sem síðar hafa nokkuð verið tíndar til sem rök fyrir þessum viðaukasöluskatti, þá hygg ég, að ekki verði deilt um, að í öndverðu var áherzlan lögð á það atriði, sem ég áðan nefndi.

Það má að vísu vel vera, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gefið um það berum orðum yfirlýsingu, að þessi viðbótarsöluskattur yrði alls ekki framlengdur. En forsaga málsins, sjálft heiti skattsins eða skipan hans í bráðabirgðaákvæðakafla laganna og rök þau, sem einkum voru færð fram til réttlætingar honum, hlutu að vekja þær vonir hjá mönnum, að um framlengingu hans yrði alls ekki að ræða. Og víst er um það, að ríkisstj. eða hennar starfsmenn hafa sagt þeim norska efnahagsmálaráðunaut, sem hingað var kvaddur á sínum tíma, Per Dragland, að þessi söluskattshækkun væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun, því að hann segir, þessi efnahagssérfræðingur, í sinni skýrslu, sem hann gaf eftir dvöl sína hér á landi og athugun á efnahagskerfinu, að þessi söluskattshækkun væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Hann segir það alveg beinlínis í sinni skýrslu. En þessi norski sérfræðingur var, eins og menn rekur minni til, sem séð hafa skýrsluna, ekkert sérstaklega hrifinn af þessum söluskatti. Segir í þessari skýrslu, að er hægt verði aftur að lækka skattinn, muni það eftir þeim upplýsingum, sem hann hafi fengið, hafa í för með sér 3% sparnað fyrir vísitölufjölskyldu.

En í árslok 1960 urðu þeir menn, sem treyst höfðu fyrirheitum hæstv. ríkisstj. að þessu leyti, fyrir sárum vonbrigðum. Þá var lagt fram frv. um framlengingu á viðbótarsöluskattinum fyrir árið 1961, og það samþykktu stjórnarflokkarnir, eins og vænta mátti. Haustið 1961 var svo ákvæði um framlengingu skattsins fyrir árið 1962 skotið inn í þetta hið árlega framlengingarfrv., — framlengingarfrv. um nokkra tekjustofna, — sem hér liggur nú fyrir. Þannig átti eiginlega, að því er virðist, að smygla þessum viðbótarsöluskatti inn á landsfólkið. Það átti með þeim hætti að reyna, ef hægt væri, að færa eins konar gleymskuhjúp yfir forsögu málsins og fyrri fyrirheit. Og vitaskuld samþykkti þinglið hæstv. ríkisstj. þennan hátt á og framlengdi skattinn með þessum hætti s.l. haust, en þar með var í raun og veru undirstrikað og staðfest, að skattur þessi skyldi gilda til frambúðar, þótt þetta form væri valið, að framlengja hann frá ári til árs. Á það bentum við stjórnarandstæðingar á þingi í fyrra við umr. um málið þá. Og við höfum reynzt sannspáir um það atriði eins og fleira.

Ég hef talið rétt og óhjákvæmilegt að rifja þessa forsögu aðeins upp með þessum örfáu orðum við 1. umr. þessa máls. Þessi saga, sem ég hef hér sagt í fáeinum orðum, er vissulega sorgarsaga. Og það má segja, að það sé allt annað en skemmilegt að vera að rifja upp annarra yfirsjónir. En hjá því verður nú ekki komizt, m.a. vegna þess þjóðardóms, sem fram undan er í kosningum næsta vor, enda er þetta mál í raun og veru, þegar betur er að gætt, aðeins eitt dæmi þeirra mörgu mistaka, sem ferill núv. hæstv. ríkisstj. er varðaður.

Hér er vissulega ekki um lítilfjörlega skattheimtu að ræða. Samkv. framlögðu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að þessi skattur nemi um 259 millj. og 400 þús., ef ég hef tekið rétt eftir. Það liggur í augum uppi, að þessi skattur er því mjög þungbær á öllu landsfólkinu. Og því verður vitaskuld ekki á móti mælt, að það væri mjög mikill léttir, ef hægt væri að létta þessum skatti af. En ég vil samt sem áður ekkert fullyrða um það á þessu stigi, hvort það er í raun og veru fært nú, eins og allt er í pottinn búið, að hverfa frá þessum skatti. Það verður að athugast í nefnd þeirri, sem fær málið til meðferðar, og það verður vitaskuld að athugast með hliðsjón af allri fjárlagaafgreiðslunni. Það mun sannast hér að það er hægara að innleiða skatta en að létta þeim af.

Þó að ég hafi rakið þessa miður skemmtilegu forsögu málsins í örfáum orðum og þó að þessi skattur sé vissulega þungbær, þá er það þó kannske ekki í sjálfu sér aðalatriðið í þessu máli, heldur er höfuðatriðið að mínum dómi það, að þessi skattlagning í öndverðu og framlenging hennar síðan frá ári til árs er afleiðing stjórnarstefnu, sem reynzt hefur röng í grundvallaratriðum og líklega mundi vera algerlega strönduð, ef ytri aðstæður hefðu ekki verið sérlega hagstæðar á því tímabili, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur setið að völdum.

En í sambandi við þetta mál verður heldur ekki komizt hjá því að benda aðeins á þá gífurlegu blekkingu, sem sífellt er endurtekin í málgögnum hæstv. ríkisstj. varðandi skattamál. Það verður sem sé ekki komizt hjá því að benda á hina gífurlegu aukningu óbeinrra skatta, sem átt hefur sér stað í tíð núv. hæstv. ríkisstj., og þegar litið er á þá gífurlegu tolla og skattahækkun, þá er það augljós blekking, þegar málgögn stjórnarinnar hæla henni fyrir skattalækkanir, þó að beinir skattar hafi að vísu verið nokkuð lækkaðir. En það má öllum vera ljóst, að með því er ekki nema hálfsögð sagan. Þar á móti koma miklu meiri hækkanir óbeinna skatta.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er sem sagt einn vottur um algert skipbrot viðreisnarstefnunnar, sem frá upphafi var fullkomið glæfraspil lítils þingmeirihluta og enn tæpari þjóðarmeirihluta í raun og veru. Sannleikurinn er sá, að reynslan hefur sýnt, og það munu æ fleiri skilja, að efnahagsmálum hér á landi verður ekki sæmilega stjórnað nema með víðtæku samstarfi meðal þjóðarinnar og meðal stjórnmálaflokkanna.

Af því, sem ég hef hér sagt, leiðir að sjálfsögðu það, að við framsóknarmenn munum telja eðlilegt, að mál þetta sé athugað gaumgæfilega í nefnd, og munum greiða atkv. með því, að því sé vísað til 2, umr. og nefndar.