12.03.1963
Efri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

173. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal taka það strax fram, að ég er samþykkur þessu frv. Hér er um mikla fjáröflun að ræða, sem hefur leyst stórkostlegan vanda hjá þeim, sem kannske eru hvað bágast staddir í þjóðfélaginu.

1954, þegar þessi lög munu hafa verið samþ., var gert ráð fyrir, að fjáröflun sú, sem hér um ræðir, væri til 10 ára, en nú er gert ráð fyrir, að hún sé framlengd um önnur 10 ár. Við þessu er að sjálfsögðu ekkert nema gott eitt að segja. En það má vel vera, að það sé mín fáfræði, en mig langar til að fá það upplýst hér, annaðhvort nú við þessa umr., ef það væri mögulegt, eða þá fyrir 3. umr., í fyrsta lagi, hvað tekjur þessa happdrættis eru orðnar miklar frá upphafi, og í öðru lagi, hvað hefur kostað bygging dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Og þá ætla ég, að komi í ljós, hvað bygging þessi með þeim útbúnaði öllum, sem að sjálfsögðu er tilheyrandi, hvílir á fjárhagslega sterkum grunni. Og í þriðja lagi langar mig til að vita það, hvort nokkrum hluta af því fé, sem hefur safnazt á þennan hátt, hefur verið varið til rekstrar dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Ég veit ekki, hvort það er rétt skilið, en eftir því sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan í sambandi við 1. dagskrármálið, þá reiknaðist honum svo til, að það v æri möguleiki að fá með þessum 40%, sem heimilt yrði að taka af fjáröfluninni árlega til að byggja sérstök heimili yfir gamalt fólk, upphæð, sem mundi kannske nægja fyrir 10 íbúðum. Ég veit ekki, á hvaða verði hver íbúð er reiknuð, en ef til vill nálægt 1/2 millj. kr. eða kannske meira. Þá skilst mér, að hér sé reiknað með, að tekjur dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sem til umráða komi árlega, geti orðið eitthvað í kringum 12–13 millj. kr. En þetta er náttúrlega ekki hægt að segja neitt um.

Ég vil enn fremur segja, að ég tel þetta rétta stefnu, að breyta hér nokkuð um með tilliti til þess, að það er fólk misjafnlega á vegi statt, misjafnlega sjálfbjarga, sem þarf á aðstoð að halda í þessum efnum. Það er alveg rétt, eins og hv. 3. þm. Vestf. gat um, að það er sjálfsagt, að hver og einn bjargi sér eins lengi og mögulegt er og þjóðfélagið stuðli að því, og ég tel, að með þessum frv., sem hér liggja fyrir og fjalla um þessi efni, sé að öllu leyti stefnt í rétta átt að því er þessi mál áhrærir.