01.11.1962
Efri deild: 10. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm, meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. Ed. hefur haft þetta frv. til athugunar, en ekki getað náð fullri samstöðu um afgreiðslu málsins. Eins og fyrirvari hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir meirihlutaálitinu á þskj. 70 ber með sér, svo og nál. hv. 1. þm. Norðurl. e. og brtt., sem þeir báðir hafa borið fram, þá er það þó aðeins eitt atriði í frv., sem ágreiningur hefur orðið um, en það eru ákvæði 5. gr. frv. um framlengingu viðbótarsöluskatts á innfluttum vörum. Með tilliti til þessa sé ég ekki ástæðu til að ræða frv. að öðru leyti en því að gera með örfáum orðum grein fyrir því, að við fulltrúar stjórnarflokkanna í fjhn. treystumst ekki til að styðja það, að viðbótarsöluskatturinn verði að svo stöddu felldur niður. Að vísu er það ekki neitt álitamál, að það væri æskilegt að geta framkvæmt svo verulega lækkun á tollum, sem í því væri fólgin að leggja þennan skatt niður.

Ég sé, að hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur í sínu nál. vitnað í hinn ágæta norska hagræðing, Dragland, sem fyrr hefur borið á góma í þessari hv. d., en þessi norski hagfræðingur hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri hægt að lækka útgjöld vísitölufjölskyldu um 3%, ef þessi skattur væri felldur niður. Ég dreg ekki í efa, að þessar niðurstöður hafi verið réttar á þeim tíma, og sjálfsagt mundi niðurstaðan verða svipuð, ef samskonar athugun væri gerð hér nú. Það er enginn ágreiningur um það, að með tilliti til þess, að verðhækkanir hafa að undanförnu verið meiri en góðu hófi gegnir, gæti það út af fyrir sig verið spor í þá átt að leysa ýmiss konar vanda í sambandi við efnahagsmálin, ef hægt væri að framkvæma slíka lækkun á verðlaginu.

En málið hefur bara aðra hlið, sem ekki væri raunhæft að loka sugunum fyrir. Það er hér alls ekki um óverulegan lið í tekjuöflun hins opinbera að ræða. En eins og fjárlagafrv. það, sem lagt hefur verið fyrir, ber með sér, er gert ráð fyrir því, að tekjur af þessum viðbótarsöluskatti nemi um 260 millj. kr. Að vísu rennur hluti af því til bæjar- og sveitarfélaga, en tæpast mun það vera undir 200 millj. kr., sem þessi liður nemur í tekjuöflun hins opinbera. Af þessu leiðir auðvitað, að ef fella ætti viðbótarsöluskattinn niður, mundi verða að horfast í augu við eitt af þrennu: Í fyrsta lagi, að það yrði þá að öllu öðru óbreyttu að hækka aðra skatta sem þessu nemur. Í öðru lagi væri auðvitað hægt að hugsa sér að skera niður ríkisútgjöldin um 200 millj. kr. eða því sem næst. Og þriðji möguleikinn, sem fyrir hendi væri, væri sá að hafa tekjuhalla eða greiðsluhalla á fjárlögum, sem þessu næmi. Ég býst ekki við, að nokkur muni mæla með síðast töldu leiðinni, eins og ástatt er í efnahagsmálunum hér á landi nú, eða þeirri að afgreiða fjárlög með mjög verulegum greiðsluhalla. Hitt væri auðvitað hugsanlegt, að hækka einhverja aðra skatta eða tolla til þess að vega upp á móti þeim tekjumissi, sem ríkissjóður yrði fyrir, ef viðbótarsöluskatturinn yrði felldur niður, eða þá að skera niður önnur ríkisútgjöld. En í því efni liggja ekki fyrir neinar tillögur frá hv. stjórnarandstæðingum, sem mæla með því, að þessi viðbótarsöluskattur verði felldur niður. Og meðan ekki liggur fyrir nein grg. um það, hversu leysa skuli þann vanda, sem óhjákvæmilega hlyti að skapast, ef þessi leið væri farin, þá mundi það ekki vera ábyrg málefnaaðstaða að styðja það, að viðbótarsöluskatturinn sé felldur niður, og er þetta ástæðan fyrir því, að við stuðningsmenn stjórnarflokkanna, sem sæti eigum í fjhn., höfum ekki treyst okkur til þess að taka undir þessa kröfu.

Það snertir hins vegar að mínu áliti alls ekki kjarna þessa máls, þegar verið er að hamra á því, að samkv. fjárlagafrv., sem lagt var fram um áramót 1959–60, hafi ekki verið gert ráð fyrir því, að söluskattur á innfluttum vörum þyrfti að hækka. Það, sem máli skiptir, er það, hvort ríkissjóður, miðað við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi, má við því að missa þennan tekjustofn, — ekki, hvað áætlað kann að hafa verið fyrir þremur árum. En annars hefur hæstv. fjmrh. oftar en einu sinni gert svo ýtarlega grein fyrir þessari hlið málsins hér í hv. d. og nú síðast við 1. umr. málsins, að ég tel, að þetta ætti að vera svo upplýst, að óþarfi ætti að vera að ræða það frekar.

Það ber einnig að hafa í huga við afgreiðslu þessa frv., að eins og hæstv. fjmrh. upplýsti við 1. umr., er fyrirhugað, að samin verði ný tollskrárlög á þessu þingi, og auðvitað mundu þau ákvæði þessa frv., sem tollskrána snerta, breytast eða falla niður í samræmi við hana. En á þessu stigi málsins er ekki nein trygging fyrir því, að það frv. verði afgreitt fyrir áramót, og er því óhjákvæmilegt að samþykkja þetta frv.