02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

212. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Björn Jónsson:

Ég hafði hugsað mér að beina ofur lítilli fsp. til hæstv. viðskmrh. í sambandi við þetta mál, ef hann væri hér viðstaddur, og þar sem hv. form. fjhn. hefur gengizt inn á að bera honum fsp., þannig að svör við þeim geti borizt fyrir 3. umr., þá vil ég, þótt hæstv. ráðh. sé ekki viðstaddur, koma þessari fsp. á framfæri.

Mér er kunnugt um það, að mjög lengi hafa öryrkjasamtökin í landinu haft mikinn áhuga á því, að þessar tollaeftirgjafir af bifreiðum yrðu afskrifaðar á vissum árafjölda, og ég hygg, að það hafi verið rætt um, að það mætti helzt ekki vera um lengri tíma að ræða í því sambandi en 5—8 ár. Ég hygg, að það sé öllum ljóst, hversu mikla þýðingu það hefur fyrir marga öryrkja að geta haft sæmileg farartæki til að bera sig yfir og hvaða þýðingu það getur haft fyrir þá, svo að þeir geti stundað sína atvinnu. En þá er það líka auðsætt, að eftirgjöf einu sinni yfir langa ævi dugir skammt til. Þegar það er svo, að við endurnýjun á bílakosti öryrkjanna þurfa þeir að greiða upp þá eftirgjöf, sem þeir hafa áður fengið, þá nær þessi aðstoð vitanlega mjög skammt í þeim tilfellum. Nú er það svo, að það er að ýmsu leyti óhagstæðara fyrir öryrkja en aðra að vera með gamla bíla, og þeir þurfa helzt, ef vel á að vera, að geta endurnýjað þá oftar en aðrir. Manni sýnist því, að sé á annað borð rík ástæða til þess, að öryrkjarnir fái eftirgjöf á tolli af sínum bifreiðum, þá sé þeim málum þannig komið fyrir, að þeir fái einnig eftirgjöf, þegar um endurnýjun á bilakostinum er að ræða.

Mér er kunnugt um það, að öryrkjasamtökin hafa gert um þetta fjölda ályktana á sínum þingum, og það mun ekki hafa verið látið ólíklega um það, að til móts við þessar óskir yrði gengið að einhverju leyti. En mér vitanlega hefur enn þá ekki orðið neitt af framkvæmdum í þessum efnum.

Ég geri mér ekki alveg ljóst, hvort þörf er nokkurrar lagabreyt. í sambandi við þetta. Ég hygg, að það væri hægt að koma þarna til móts við óskir öryrkjanna með reglugerðarákvæðum frá ráðuneytinu. En sem sagt, ég hygg, að það sé fyllilega kominn tími til þess, að þessi mál séu athuguð og einhverjar ákvarðanir teknar í þeim, því að eins og þessum eftirgjöfum er háttað núna, koma þær að tiltölulega mjög takmörkuðu gagni, meðan ekki er um það að ræða, að eftirgjöfin sé afskrifuð á eðlilegum árafjölda.