15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

5. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eftir þær almennu umr., sem hér hafa farið fram, er það e.t.v. nokkuð hversdagslegt að ræða um sjálft dagskrármálið, og ég vildi, áður en ég vík að því, einungis geta þess út af þessum almennu umr., að þær sýna, að þörf er á því, að þingsköp verði endurskoðuð. Það er ekki sérstaklega þessi fsp. eða þessar umr., sem ættu að gefa tilefni til þess, þótt þær hljóti enn að vekja upp hugsun um það, heldur vitum við, að slíkar fsp. og slíkar umr. eru alltíðkaðar hér í þingsölunum. En það er ekki gert ráð fyrir þeim í þingsköpum, og það er t.d. ljóst, að ef þessi fsp., sem hv. þm. bar fram, hefði verið flutt samkv. þingsköpum, þá hefðu umr. orðið töluvert takmarkaðri og ræðutími hv. þm. sjálfs mun styttri. Til þessa er ætlazt eftir þingsköpum, jafnvel um þær fsp., sem þingið er búið að samþykkja að skuli svara og ráðh. hefur þó haft nokkurn tíma til þess að undirbúa svar sitt við fsp. Nú var fsp. hv. þm. að vísu nokkuð víðtæk strax í fyrstu, en varð þó enn víðtækari á seinna stigi málsins, þegar hann vildi láta ríkisstj. fara að svara fyrir og gefa skýringar á einstökum blaðagreinum í jafnmerku og ágætu blaði eins og Morgunblaðið er. En allt þetta sýnir, að hér er töluvert farið út fyrir þær reglur, sem þingsköp hafa sett og þm. komið sér saman um.

Ég er ekki sérstaklega að áfellast þennan hv. fyrirspyrjanda að þessu sinni. Ég játa, að þetta hefur verið tíðkað af öllum flokkum nokkurn veginn jafnt, geri ég ráð fyrir. Þó hygg ég raunar, að þegar þessi hv. þm. sat í forsetastól, hafi það komið fyrir, að hann hafði brugðið nokkuð skyndilega við til þess að koma í veg fyrir þá fsp. eða aths., sem hann taldi sér óhentuga og flytja átti utan dagskrár. En einnig þau viðbrögð sanna, að flokkarnir ættu að koma sér saman um endurskoðun á þingsköpunum, setja nefnd allra flokka til þess að færa þingsköpin í nokkuð sæmilegt horf.

Það er ekki einungis varðandi þetta atriði, heldur sitthvað fleira, t.d. varðandi útvarpsumr., þar sem, hvað sem útvarpsumr. annars almennt líður, er ljóst, að ákvæðin t.d. um vantraust og eldhúsumr. eru með öllu orðin úrelt og gefa tilefni til þess, að slík endurskoðun fari fram. Okkur hlýtur öllum án tillits til flokkaágreinings og án tillits til þess, hver flokkur er í ríkisstj. þessa stundina eða hina, að koma saman um, að sem bezt skipulag þurfi að vera á störfum þingsins og umr. þar séu í nokkurn veginn föstum formum. Vil ég því skjóta því hér fram að gefnu þessu tilefni til flokkanna, hvort þeir gætu fallizt á, að slík endurskoðun væri undirbúin, á fyrsta stigi með samráði þeirra allra. Að lokum hlýtur það svo, einkanlega ef ekki verður samkomulag, að koma í hlut forsrh. að undirbúa endanlega frv. um þessi efni, sem lagt verði fyrir þingið.

Ég er ekki sérstaklega hrifinn af snöggum breyt. á þingstörfum og held, að það sé bezt að halda þar í það, sem vel hefur reynzt, en mér er þó ljóst, að t.d. slíkar umr. eins og þessar eru sízt heppilegar. Þær gera litið til í upphafi þings, þegar menn hafa enn fá mál um að fjalla, en þegar liður á þingtíma, þá er ljóst, að þær geta verkað stórlega truflandi á þingstörf, og raunar hlýtur að því að koma, að störf þingsins verði svipuð hér og annars staðar, betur skipulögð og séð fyrir því, að hægt sé að ljúka þeim á nokkurn veginn fyrir fram áætluðum tíma. Það krefst þess að vísu, að ríkisstj. hafi verulega íhlutun um störfin. Það bitnar á stjórnarandstöðu hverju sinni. Enginn veit, hver er í stjórnarandstöðu hér að nokkrum árum liðnum, og ætti því að vera hægt að líta á það mál hlutlaust og án flokkaágreinings. En eftir því sem störf þingsins verða umfangsmeiri og menn með eðlilegum hætti verða ófúsir til þess að sitja langtímum saman yfir starfi, sem litið miðar áfram, þá er nauðsyn á því, að þetta verði tekið til endurskoðunar og við kynnum okkur rækilega, hvernig er háttað störfum á öðrum þjóðþingum, sem helzt eru sambærileg. Ég hef leyft mér að gera þennan fyrirvara eða hafa þessar almennu umr., áður en ég vík að sjálfu umræðuefninu, frv. til laga um lögreglumenn, en geri það að mjög gefnu tilefni, eins og ég hef gert grein fyrir.

Löggjöfin um lögreglumenn er nú orðin nokkuð gömul. Segja má, að hún að meginstefnu til sé nær 30 ára, með lítils háttar breytingum, sem gerðar hafa verið 1940 og 1961. Alþ. óskaði þess vegna eftir því 1960, að löggjöfin í heild yrði endurskoðuð, og aukin hvatning til þess kom fram í sambandi við þál. frá 1961 varðandi fyrirkomulag tollgæzlunnar. Þessi endurskoðun á lögreglumannalögunum hefur nú farið fram af hálfu dómsmrn., og hafa hana annazt menn, sem það hefur kvatt sér til ráðuneytis.

Í því frv., sem hér er lagt fram, eru engar stórvægilegar breyt., en þó nokkrar, sem töluverða þýðingu hafa, og vonast ég til þess, að menn verði sammála um, að allar horfi þær til bóta, svo langt sem þær ná. Rétt er að geta þess sérstaklega, að athugað var, hvort unnt væri að sameina að öllu löggæzlu og tollgæzlu þannig, að sömu menn önnuðust hvor tveggja störfin og hvarvetna, einnig hér í Reykjavík. Hafði ég látið mér til hugar koma, að bæði geti orðið einhver sparnaður af þvílíkri sameiningu og eins gæti það vel hentað, að sömu mennirnir væru ekki ætíð við sömu störfin, heldur gætu þeir fengið tilbreytingu, sem þeim og starfinu væri holl, með því að taka þvílíka sameiningu upp. Að athuguðu máli reyndist þetta þó ekki gerlegt, fyrst og fremst vegna þess, að fróðir menn telja, að tollgæzlumenn þurfi slíka sérhæfingu í sínu starfi og margháttaðan kunnugleika, sem ekki væri hægt að afla, ef þeir ættu einungis að vera deild úr almennu löggæzluliði og gegna löggæzlumannsstörfum öðru hvoru. Þess vegna var horfið frá bollaleggingum um þvílíka allsherjar sameiningu, en látið við það sitja, að á einstöku stöðum, þar sem það þætti henta og héraðsstjórnir teldu það horfa til bóta, þá væri hægt að sameina lögreglustarfið og tollgæzlustarfið.

Annars eru aðalbreytingarnar, sem í þessu frv. felast, þær, að rýmkaðar eru reglur um heimild til lögreglumannahalds með tilstyrk ríkissjóðs. Nú er ætlazt til þess, að ríkisvaldið hafi ekki afskipti af þessu, nema þar sem 1000 íbúar eða fleiri eru í bæjarfélagi eða þorpi, og er þá gert ráð fyrir því, að hægt sé að skipa tvo lögregluþjóna, þannig að 500 íbúar komi á hvorn lögregluþjón. Samkv. frv. er ráðgert; að atbeini ríkisins geti komið til í sveitar- eða sýslufélagi, þar sem eru 500 íbúar eða fleiri, og komi þá 1 lögregluþjónn á hverja 500 íbúa, og er það eins og áður var. Og ætlazt er til þess, að það sé ekki einungis hægt að skipa lögregluþjón í þorpum og bæjarfélögum, heldur einnig í sýslufélögum, og mundi þá framlag það, sem hingað til hefur verið greitt úr sveitarsjóðum, verða greitt úr sýslusjóði. Þetta er mun sveigjanlegra og eðlilegra fyrirkomulag en það, sem nú er, enda hefur það komið í ljós, að á fjárlögum hafa verið veittir styrkir til þess að halda uppi löggæzlu í einstökum byggðarlögum, þar sem ekki var til þess almenn heimild samkv. þessum gömlu lögreglumannalögum.

Önnur höfuðbreyting frv. er sú, að nú á ríkissjóður almennt að greiða helming lögreglukostnaðar í stað 1/6 hluta áður. Þetta er þó að Reykjavík undantekinni, því að þar á ríkissjóður aðeins að greiða 1/3 hluta af hinum almenna löggæzlukostnaði. Og er þó sá munur á, sem jafnar þessi met aftur, að í Reykjavík skal vera staðsett ríkislögreglumannadeild, og er miðað við það sem almenna reglu, að hún sé 1/3 hluti af hinu venjulega lögregluliði, svo að þegar allt kemur til alls, verður þarna á ekki verulegur munur. Þess er svo að gæta, að samkv. bráðabirgðaákvæði í frv. er ráðgert, að þessi breyt. á kostnaðarhlutföllum, sem á að verða sveitarfélögunum mjög til hags frá því, sem verið hefur, komist í framkvæmd í þremur áföngum, þannig að kostnaðaraukinn lendi ekki allur í einu á ríkissjóði, heldur aukist við frá ári til árs um greiðslu ríkissjóðshlutans, þangað til því marki er náð, sem ég áður gerði grein fyrir. Þetta ætti að verða til þess að gera ríkissjóði þetta nýja fyrirkomulag síður tilfinnanlegt, og þó ekki að koma illa við sveitarfélögin, bæði vegna þess, að þau fá þegar í stað nokkra leiðréttingu á því, sem verið hefur, og eins verður að ætla, að sú fjölgun lögregluliðs, sem mundi leiða af þessum lögum, muni ekki öll verða þegar í upphafi, heldur koma á nokkurra ára bili.

Þá eru settar nýjar reglur um störf héraðslögreglumanna, sem hafi fasta þóknun, en fá auk þess greiðslur fyrir unnin störf, Í núgildandi lögreglumannalögum er gert ráð fyrir slíkri héraðslögreglu, en nánast byggt á því, að þar sé um sjálfboðastarf að ræða. Það er ljóst, að þetta starf er nú orðið svo umfangsmikið, að ekki er hægt að ætlast til þess, að menn vinni það í sjálfboðavinnu. Það verður að vera nokkur hluti af eiginlegu starfi þess, sem það tekur að sér, einnig til þess að hægt sé að búast við því, að hann leggi á sig nauðsynlega þjálfun og fái þá þekkingu, sem eðlilega útheimtist í þessu skyni. Og er þá ætlazt til þess, að héraðslögreglumenn hafi nokkur fleiri störf með höndum en einungis að halda uppi löggæzlu á samkomum og fái fyrir þau störf fasta þóknun. Hins vegar yrði greitt sérstaklega fyrir þær samkomur, sem þeir halda löggæzlu uppi á, og þá einnig heimilað að leggja sérstakt gjald á þær samkomur, þar sem á löggæzlu þarf að halda, sem gæti að verulegu leyti eða öllu runnið til löggæzlumannanna, sem þar starfa.

Loks er boðið, að við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði starfræktur lögregluskóli, og er þar með löggjöf staðfestur sá háttur, sem á hefur komizt. Áður var ráðgert, að lögreglunámskeið gæti átt sér stað. Nú er þetta allt orðið umfangsmeira og leitað til Reykjavíkurlögreglunnar frá fleiri aðilum, og því eðlilegra, að fastari skipun verði á komið en hingað til hefur gilt.

Þetta eru meginatriði þeirra breytinga, sem lagðar eru til. Smávægilegar breyt. eru fleiri, eins og sú, að ef lögreglumaður starfar í sveitarfélagi og greitt er framlag til hans frá ríkissjóði, þá sé hann skyldur til þess eftir boði lögreglustjóra, sem ræður yfir því sveitarfélagi, að gegna kalli út um allt lögsagnarumdæmi þess lögreglustjóra, ef sérstaklega er ástæða til þess.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið, vonast til þess, að það fái greiðan framgang, legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.