19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

5. mál, lögreglumenn

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. allshn. á þskj. 408, er ég í öllum aðalatriðum samþykkur frv. til l. um lögreglumenn. Hins vegar áskildi ég mér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við frv. Í samræmi við þennan fyrirvara hef ég leyft mér að flytja brtt. við 1. gr. frv. Brtt. eru á þskj. 410 og eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

1. Við 1. gr. Í stað orðsins „fyrirskipa” í 1. málsgr. komi: „ákveða“.

2. Á eftir orðunum „á hverja 500 íbúa“ í sömu málsgrein komi: „Þó skal aldrei ákveða fleiri lögregluþjóna en sveitar- eða sýslufélag hefur samþykkt, enda hafi við ákvörðun sveitarstjórnar m.a. verið tekið tillit til umferðar og fjölda skemmtistaða í viðkomandi byggðarlagi.

Nú ákveður hreppsnefnd eða sýslunefnd í sveitar- eða sýslufélagi, sem hefur færri en 500 íbúa, að hafa lögreglu, og skal ríkissjóður þá greiða helming kostnaðar skv. 1. málsgr. 2. gr.”

Þessar breyt. skýra sig að mestu leyti sjálfar. Aðalbreytingin er, að það skuli vera á valdi viðkomandi sveitar- eða sýslufélags, hvað vera skuli margir lögregluþjónar á hverjum stað, enda hafi þá við ákvörðun sveitarstjórnar verið tekið tillit til umferðar á vegum og fjölda skemmtistaða í viðkomandi nágrenni og viðkomandi byggðarlagi. Það virðist flest mæla með því, að viðkomandi sveitar- og sýslufélög fái hér nokkru um að ráða, enda er þessi breyt. flutt í samræmi við skoðanir fjölda þeirra manna, sem fást við stjórn sveitarstjórnarmála.

Í frv., eins og það nú er, er tala íbúa þeirra sveitar- eða sýslufélaga, sem falla undir lögin, miðuð við 500 manns. Nú er það vitað, að víða um land eru staðir, sem hafa færri íbúa, en þar sem er þó hin mesta nauðsyn, a.m.k. vissa hluta árs, að hafa til staðar lögreglu. Væri hægt að tilfæra mörg dæmi þar um, þó að það verði ekki gert hér. Því hef ég talið rétt, að þar sem hreppsnefnd eða sýslunefnd í sveitar- eða sýslufélagi, sem hefur færri íbúa en 500 manns, hefur ákveðið að hafa lögreglu, skuli ríkissjóður greiða helming þess kostnaðar, sem af slíkri ráðstöfun leiðir skv. 1. málsgr. 2. gr. Finnst mér margt mæla með því, að þessi breyt. verði samþ. Það er vitað, að hvorki eitt né annað sveitarfélag fer að leggja á sig aukakostnað með því að ráða lögreglu, nema til þess sé alveg sérstök ástæða. En ef sú ástæða er fyrir hendi, virðist mér allt mæla með því, að viðkomandi stað verði þá greidd sama upphæð eða sami kostnaður og öðrum sveitarfélögum, sem hafa fleiri íbúa, er greiddur. Útgjöld fyrir ríkissjóð mundu af þessu ekki nema nema mjög lítilli upphæð.

Breyt. við 1. gr. er aðeins orðalagsbreyting til samræmis við brtt. mínar, sem síðar koma. Ég hafði ákveðið að flytja brtt. við 5. gr.

En á fundi í allshn. náðist samkomulag um orðalag um, að núv. tollvörðum verði ekki skipað að vinna lögreglustörf gegn vilja sínum. Taldi ég ekki þörf á frekari breytingu, enda mun þessi breyt. að einhverju leyti hafa verið gerð í samráði við tollverðina.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en ég vildi óska þess við hæstv. forseta, að hann bæri upp síðustu málsgr. í brtt. mínum sérstaklega. Óska ég, að um hana fari fram nafnakall.