19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

5. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er rétt, að það komi hér fram, að það var í samráði við mig og raunar eftir ósk minni, að hv. allshn. afgreiddi málið ekki fyrr en nú. Það voru viss atriði, sem raunar hv. frsm. gat um, sem þurftu nánari athugunar við. Það má segja, að þau hefðu getað lokizt fyrr en raun ber vitni. Staðreyndin er, að sú athugun tók þennan tíma, og það var ekki fyrir seinagang n., heldur þá athugun, sem ráðuneytið óskaði eftir að gera á málinu, sem á hefur orðið þessi frestur. Það er rétt, að þetta liggi alveg ljóst fyrir.

Varðandi hina athugasemd hv. 1. þm. Vestf. vil ég einungis benda á það, sem hann raunar sjálfur gat um, að í þessu frv. er verulega stefnt í þá átt að létta kostnaði af sveitarfélögunum og taka hann yfir á ríkið. Á þessu stigi málsins þótti ekki fært að fara lengra í þeim efnum. En ef það að fenginni reynslu þykir ráðlegt að ganga lengra, þegar liðinn er sá frestur, sem miðað er við í bráðabirgðaákvæðum frv., þá er ekkert til fyrirstöðu, að Alþ. ákveði það á sinum tíma. Um hitt verður ekki deilt, að frv. er mjög veruleg réttarbót fyrir sveitarfélögin frá því, sem verið hefur.

Hitt finnst mér eðlilegt, að betur verði athuguð brtt. sú, sem fram er komin frá hv. minni hl. hv. n., og eins athugasemd hv. 3. þm. Norðurl. e., og þess vegna bar ég fram þá ósk áðan, að umr. yrði frestað og málið tekið fyrir á næsta fundi, þegar unnizt hefur tími til þess að skoða málið. Það er rétt, að þegar mál er búið að liggja jafnlengi fyrir eins og þetta, þá er að vissu leyti óviðkunnanlegt að afgreiða það með afbrigðum. Ég tek fyllilega undir þá athugasemd.