01.11.1962
Efri deild: 10. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. eins og frsm. hv. minni hl. fjhn. hafa gert. Flest af þessu er þaulrætt áður, og sum þau atriði, sem fram komu, voru ýtarlega rædd og skýrð við 1. umr. þessa máls.

En báðir minni hl. hv. fjhn, flytja till. um það að fella niður þann 8% innflutningssöluskatt, sem nú er í gildi. Það er mál út af fyrir sig, hvernig sá þessara flokka, sem alltaf vill láta telja sig ábyrgan í fjármálum, Framsfl., hugsar sér að leysa fjárhagsmál þjóðarinnar, ef dæma skal eftir því, hvernig hann leggur málin fyrir hér á Alþingi. Það er ekki langt liðið á þetta þing, en þó hefur hann gert það allt í senn þegar: heimtað stóraukið fé frá ríkissjóði til verklegra framkvæmda í landinu, lagt til að fella niður 260 millj. kr. tekjustofn, auk þess sem hann vill afnema tolla og aðflutningsgjöld á öllum landbúnaðartækjum, lækka verulega aðflutningsgjöld á heimilistækjum o.fl., o.fl. Þetta er leikfimi, sem ég er ekki viss um að neinum takist, hvorki Framsfl. né öðrum. Það þarf engan að undra, þótt ýmislegt í þessa átt komi fram hjá Alþb. En hingað til hefur Framsfl. viljað láta taka sig alvarlega varðandi það, sem hann segir og leggur til mála um fjárhag þjóðarinnar. Eitthvað þarf hann að bæta ráð sitt, ef hann ætlast til þess, að hann verði tekinn alvarlega nú og framvegis í þessum efnum.

En ástæðan til þess, að ég stóð upp, er fyrst og fremst sú, að með þessum till. beggja hv. minni hl. er ekki aðeins verið að rýra stórum tekjur ríkissjóðs, heldur einnig svipta bæjar- og sveitarsjóði í landinu stórum tekjustofni. Af þessum 8% innflutningssöluskatti fá sveitarfélögin fimmtung, og eins og hann er áætlaður í fjárlögum fyrir 1963, mundi hluti sveitarfélaga nema hvorki meira né minna en 52 millj. kr. Ef öll útsvör í landinu, í öllum sveitarfélögum, nema nú í ár um 400 millj. kr., og ef þessar till. hv. minni hl, væru samþykktar, væru sveitarfélögin svipt þessum 52 millj. Og upphæðin yrði hærri, ef innflutningssöluskatturinn reyndist í framkvæmd hærri en fjárlög ráðgera. Það þýðir, að sveitarfélögin neyddust til að hækka útsvör sín sem því svarar. Ef við miðum við það, að útsvörin séu í kringum 400 millj. og tekinn er af þeim 52 millj. tekjustofn, þá mundi þurfa að hækka öll útsvör í landinu að meðaltali um ca. 13%. Það er rétt að gera sér grein fyrir þessu, vegna þess að hv. frsm. minntust ekki á þessa hlið málsins. Í rauninni mættu tillögur þeirra um að fella niður þennan tekjustofn ríkisins og sveitarfélaganna heita till. um að hækka öll útsvör í landinu um 13% o.fl.