04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

89. mál, veitingasala, gististaðahald o.fl.

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Löggjöf sú, sem við höfum búið við varðandi veitingasölu og gistihúsahald, er að meginstofni til frá árinu 1926 og er því 37 ára gömul. Veitingastarfsemi og hótelrekstur hefur að sjálfsögðu tekið miklum breytingum hér á landi á þessu langa tímabili, og því er orðin brýn þörf nýrrar löggjafar um þetta efni, sem miðuð sé við nútímaaðstæður, og þá m.a. haft í huga, að Ísland er að verða ferðamannaland.

Á undanförnum árum hafa oft verið flutt á Alþ. frv. um veitingasölu og gististaðahald, en þau hafa ekki náð fram að ganga, vegna þess að um þau hefur ekki náðst samstaða með þeim aðilum, er mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þessa atvinnugrein. Það er fyrst með því frv., sem hér liggur fyrir, að nauðsynleg samstaða hefur skapazt, en frv. þetta er samið af sex manna nefnd, sem skipuð var af hæstv. samgmrh. seint á árinu 1961. í n. áttu m.a. sæti fulltrúar frá heilbrigðisyfirvöldum og vinnuveitendum og vinnuþegum í þessari atvinnugrein. Meginbreyt., sem í frv. felast, skulu raktar hér á eftir.

Gisti- og veitingastaðir eru flokkaðir niður. Skiptast þeir alls í níu flokka: gistiheimili, gistihús eða hótel, gistiskála, greiðasölu, skemmtistaði, söluskýli, tækifærisveitingar, veitingastofur og veitingahús. Eru nánari ákvæði um þessa skiptingu í 1. gr. frv. Í núgildandi lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins, 7. gr., segir m.a., að ferðaskrifstofan skuli hafa eftirlit með hreinlæti á gistihúsum og veitingahúsum, prúðmannlegri umgengni og aðbúnaði ferðamanna. Frv. gerir ráð fyrir, að ákvæði þetta verði afnumið. Skal samkv. ákvæði frv. ráða sérfróðan mann til að hafa eftirlit með starfsemi gisti- og veitingastaða, og starfar hann undir stjórn landlæknis, en getur leitað aðstoðar heilbrigðisnefnda og héraðsnefnda, ef þess telst þörf. Eru um þetta nánari ákvæði í VI. kafla frv. Breyt. þessi er m.a. reist á því, að Ferðaskrifstofa ríkisins er stór viðskiptaaðili við ýmsa veitinga- og gististaði og sé því ekki viðeigandi, að hún hafi á hendi eftirlit með þeim. Verður að telja eðlilegt, að eftirlit þetta heyri beint undir heilbrigðisyfirvöld, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Samkv. l. frá 1926 var leyfi til gistihúsaeða veitingastarfsemi bundið við nafn og leyfið heimilaði einungis atvinnurekstur í ákveðnum hrepp eða kaupstað. Eftir frv. er leyfið eins og áður bundið við nafn, en nú heimilast einungis atvinnurekstur í tilteknum húsakynnum, m.ö.o. það er bundið við ákveðið gistihús og ákveðið veitingastarf. Sá, sem t.d. ætlar sér að reka tvö gistihús í sama sveitarfélagi, verður að afla sér tveggja leyfa. Þá er leyfi einnig tímabundið samkv. frv. og þarf að endurnýjast á fjögurra ára fresti. Í frv. er það skilyrði sett fyrir veitingu gistihúsaleyfis, að gistihúsið hafi rúm fyrir eigi færri en 20 gesti og að við reksturinn starfi maður, er hafi sérþekkingu á matreiðslu, framreiðslu eða gistihúsastjórn. Enn fremur þurfa húsakynni eða búnaður að vera í samræmi við reglur, er ráðuneytið setur. Sé þessum skilyrðum ekki fullnægt, er gististaðnum óheimilt að nefnast hótel eða gistihús. Um þetta eru ákvæði í 11., 12. og 13. gr. frv.

Samgmn, hefur athugað frv. og er sammála um að mæla með samþykkt þess með tilteknum breyt., sem fram koma á þskj. 489. Fyrsta brtt. varðar 1. mgr. 3. gr. frv., en í 3. gr. segir, að enginn má gera sér gistihúsahald né veitingasölu að atvinnu, nema hann hafi til þess leyfi lögreglustjóra. Hér er hugtakið „gistihúsahald“ of þröngt. Þarna á að vera „gististaðahald”, því að þessi grein á við allar tegundir gististaða, þ.e.a.s. hún á auk gistihúsa að geta átt við gistiheimili og gistiskála. Þess vegna er efnisbreytingin sú, að í stað orðsins „gistihúsahald” kemur „gististaðahald“. Að öðru leyti er breytingin aðeins lagfæring á orðalagi.

2. brtt. frá n. er í sambandi við 11. gr. frv., en í þeirri gr. eru talin upp skilyrði fyrir því að fá gistihúsaleyfi. Í 4. tölul. þessarar gr. segir sem eitt af skilyrðunum, að í gistihúsinu starfi að staðaldri við daglega stjórn maður, er fullnægir skilyrðum 12. gr., en þau skilyrði 12. gr. eru, að maðurinn hafi lokið brottfararprófi í matreiðslu, framreiðslu eða gistahúsastjórn frá innlendum eða erlendum skóla, sem ráðuneytið viðurkennir. Nm. fannst fullstrangt að hafa þetta ákvæði alveg fortakslaust og án undantekninga, þarna væri þörf fyrir undanþáguheimild, og þess vegna hefur n. lagt til, að aftan við 11. gr. bætist ný mgr., sem hljóðar þannig:

„Heimilt er lögreglustjóra að veita undanþágu frá skilyrði 4. töluliðs, sé maður með sérþekkingu samkv. 12. gr. ekki fáanlegur til starfans eða líkur séu til þess, að gistihúsið beri ekki kostnað af að hafa slíkan mann í þjónustu sinni.“ — En þessi undantekning ætti auðvitað fyrst og fremst við um hin smærri gistihús eða hótel.

Þá er 3. brtt. n. við 15. gr. frv., 3. tölul., en í þeim tölul. segir: „Leyfi fyrir veitingastofu, er veitir rétt til sölu á heitum og köldum drykkjum, brauði og kökum, en ekki á heitum máltíðum,“ — þetta orð „heitum“ mun vera prentvilla, þarna átti að standa „heilum máltíðum,“ en vegna þess að það var ekki ljóst, að þarna var um villu að ræða, þetta gæti staðizt efnislega, þá þótti nauðsynlegt að leiðrétta þetta með brtt.

Einn nm., hv. 4. þm. Vestf., hefur áskilið sér rétt til að flytja brtt. við 4. gr. frv., og er sú till. fram komin á þskj. 478, en þá till. flytur hann ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. Meginbreyt., sem gerðar eru í 4. gr. frv. um skilyrði fyrir veitingu leyfis, eru þær, að lögreglustjóri skal nú leita álits heilbrigðisnefndar eða héraðslæknis, áður en hann veitir leyfi. Hann skal enn fremur leita álits bæjar- eða sveitarstjórnar, áður en leyfi er veitt, en samkv. gildandi l. frá 1926 þarf skilyrðislaus meðmæli bæjarstjórnar, og það er sú regla, sem hv. tillögumenn vilja taka upp á ný með brtt. sinni.

Í 4. gr. frv. er enn fremur það nýmæli, að synjun eða veitingu leyfis megi skjóta til ráðh. Það verður að telja, að réttur sveitarstjórna sé nægjanlega tryggður með því að mega láta í té umsögn um leyfisbeiðni og með því að geta skotið málinu til ráðh., ef lögreglustjóri tekur ekki tillit til sjónarmiða sveitarstjórnar. Einnig má benda á, að þar sem leyfi verður samkv. frv. bundið við rekstur í tilteknum húsakynnum, hefur sveitarstjórn sem byggingaryfirvald sterkan íhlutunarrétt um það, hvaða veitinga- eða gistihúsastarfsemi megi fara fram innan marka sveitarfélagsins. Það verður því ekki talið sanngjarnt, að sveitarstjórn hafi algert neitunarvald um það, hvort leyfi sé veitt eða ekki. Meiri hl. n. hefur því ekki aðhyllzt þá brtt., sem hv. tillögumenn hafa flutt.