04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

89. mál, veitingasala, gististaðahald o.fl.

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það eru örfá atriði, sem ég hefði gjarnan viljað fara um nokkrum orðum, í frv. og í brtt., sem fram hafa komið frá samgmn. þessarar hv, þd.

Það er þá fyrst varðandi tvö atriði í 15. gr. frv. Við 3. tölul. liggur fyrir brtt, frá samgmn. um, að í stað „heitum máltíðum“ komi „heilum máltíðum“. Ég veit ekki, hvort ég hef skilið frsm. n. rétt, en mér skildist jafnvel á honum, að n. hefði getið sér þess til, að þarna hefði verið um prentvillu að ræða, en eftir því sem orð hans féllu, skildi ég það svo, að það mundi ekki hafa verið leitað álits þeirra, sem frv. sömdu, um, hvort svo væri. Ég efa það nefnilega mjög, að þarna sé um neina prentvillu að ræða. Ég held einmitt, að þessi skilgreining „heitar máltíðir“ hafi sína miklu þýðingu í þessu sambandi, vegna þess að þegar gerðar eru kröfur um allan útbúnað á einhverjum veitingastað, þá skiptir það meginmáli, hvort þar á að vera aðstaða til eldamennsku önnur en eingöngu til þess að selja heita drykki, svo sem kaffi, kókó, te og slíkt. Ég vildi því beina því til hv. samgmn., að hún tæki aftur til 3. umr. þessa 3. brtt., sem er á þskj. 489, og athugaði þetta atriði betur.

Þá er það 4. tölul. í þessari sömu frvgr., sem er um það, að leyfi fyrir söluskýli, sem veitir rétt til sölu á gosdrykkjum, öli, sælgæti og tóbaksvörum, skuli falla undir veitingaleyfi, veitingaleyfi skuli einnig ná til þess. Þetta tel ég að sé mjög varhugavert. Ef maður hugleiðir, hvernig hugsazt gæti, að framkvæmdin yrði á þessu, þá liggur næst að halda, að einnig þetta ætti að teljast eðlilegur liður í veitingastarfsemi, það væri söluskýli, ef sala á þessum vörum færi fram inni í veitingastofunni sjálfri. Það kannast allir Reykvíkingar og sjálfsagt allir þm. við það, að eitt af þeim vandamálum, sem myndast í þéttbýlinu, er hangs unglinga á veitingastofum og sælgætissölum, og ég býst við, að við getum öll verið sammála um, að allt það, sem geti ýtt undir þá þróun, sé mjög óæskilegt. Ef hugsað væri, að þessi starfsemi yrði í framkvæmdinni þannig, eins og ég nú nefndi, sýnist þarna sem verið sé að löggilda leið til þess, að þessi óæskilega þróun geti haldið áfram og þetta færzt í aukana, í stað þess að nú er reynt að draga úr þessu svo sem verða má. Ef hins vegar yrði litið svo á, að þetta leyfi fyrir söluskýli væri bundið við það, að þetta væri alveg aðskilinn rekstur, þetta væri húsnæði, sem væri alveg aðskilið frá veitingastofum, þá er þarna bara orðið um hreina verzlun að ræða, og sé ég ekki satt að segja, hvers vegna veitingaleyfi ætti þá að ná til þessarar sérgreinar af verzlunarrekstri.

Mér er kunnugt um það, að kaupmannasamtökin munu hafa þetta til athugunar, og ég ætla, að það hafi þegar komið fram ósk um, að fulltrúar þeirra fengju að setja fram sín sjónarmið við n., áður en málið kemur hér til 3. umr.

Þá er það svo að síðustu varðandi 17. gr. frv., sem er um matstofur á vinnustöðum, sem ætlaðar eru til matseidar að staðaldri fyrir 30 menn eða fleiri. Í þessari gr. er gert ráð fyrir því, að til þessara matstofa skuli gera um hreinlæti og vinnuaðstöðu sömu kröfur og gerðar eru til veitingahúsa af svipaðri stærð. Það hefur, eins og öllum er kunnugt, færzt mjög í vöxt á síðari árum, að fólk mataðist á vinnustöðum, þar væri komið upp matstofum, og þetta færist stöðugt í aukana og er vinsælt. Það er enginn vafi á því, að bæði atvinnurekendur og starfsmenn telja sér hag í þessu fyrirkomulagi, enda má segja, að það verði í ýmsum tilfellum bráðnauðsynlegt, þar sem starfsfólk þarf um svo langan vel að sækja til vinnustaðar, að það er gersamlega útilokað, að það komist heim til sín í máltíðir á þeim venjulega tíma, sem veitt er leyfi frá vinnu til að matast.

Nú er auðvitað alveg sjálfsagt, enda er það svo nú, að slíkar matstofur séu háðar eftirliti og það séu gerðar til þeirra fyllstu hreinlætiskröfur. En fljótt á litið sýnist manni, að það muni vera nokkuð langt gengið að gera til þeirra sömu kröfur um alla vinnuaðstöðu og gerðar eru til veitingahúsa af svipaðri stærð - eða sem ætluð eru u.þ.b. 30 gestum. Slík veitingahúsastarfsemi fer fram allan daginn, og að jafnaði má búast við, að það sé meiri fjölbreytni varðandi það, sem á boðstólum er, heldur en í matstofu á vinnustað. Einnig býst ég við, að undir vinnuaðstöðu mundu falla geymslur og slíkt, sem er ólíkt meiri ástæða til þess að gera strangar kröfur til í sambandi við veitingastaði eða veitingahús heldur en í sambandi við slíka matstofu, sem venjulega framleiðir aðeins eina heita máltíð á dag fyrir starfsfólk og síðdegiskaffi. Sú starfsemi er að mínu viti hreint ekki fyllilega sambærileg við veitingastarfsemi á veitingahúsi, sem ætlað er álíka mörgum gestum.

Ég vek nú aðallega máls á þessu vegna þess, að mér sýnist, að verði svona strangar kröfur gerðar til matstofanna, — að vísu verður auðvitað að gera til þeirra kröfur og sjá um, að þær séu sómasamlega úr garði gerðar miðað við sína starfsemi og þá einnig hvað aðstöðu starfsfólksins snertir, þess sem við eldamennsku og framreiðslu fæst, — en mér sýnist, að með því að gerðar séu þetta strangar kröfur til matstofanna, geti það e.t.v. leitt til þess, að dragi úr því, að matstofum sé komið upp á vinnustöðum, sem er, eins og ég áður sagði, þó talið yfirleitt, þar sem það hefur verið gert, til mikils hagræðis, bæði fyrir starfsfólk og vinnuveitendur. Því vildi ég nú beina því til hv. samgmn., hvort hún vildi ekki taka þetta atriði einnig til athugunar á milli umræðnanna.