01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

206. mál, tónlistarskólar

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta er í raun og veru mjög einfalt í sniðum. Tónlistarskólar hafa verið settir á stofn víða á landinu og vinna nú þegar mikið og gagnlegt starf. Þeir eru flestir einkaskólar, og standa að þeim samtök áhugamanna í hinum ýmsu byggðum.

Með þessu frv, er tögfestur fjárhagslegur stuðningur ríkisins við þessa skóla, og er gert ráð fyrir, að þessi styrkur skuli nema allt að 1/3 hluta rekstrarkostnaðar, en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags til skólans. Er augljóst, að þetta þýðir, að ríkið muni greiða 1/3 og bæjarfélögin 1/3, þannig að skólarnir þurfa ekki að hafa í eigin tekjur, sem eru fyrst og fremst skólagjöld, nema 1/3 af kostnaði sínum. Hér eru ýmis nánari ákvæði, sem öll varða beint eða óbeint framkvæmd á þessu höfuðatriði. Er ekki ástæða til að fjalla um þetta nánar á þessu stigi, nema hvað menntmn. hefur rætt þetta mál, og eru þeir 4 nm., sem mættir voru, — einn var fjarverandi vegna veikinda, — sammála um að mæla með samþykkt frv., en nm. áskilja sér þó venjulegan rétt, ef brtt. koma fram.