01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

206. mál, tónlistarskólar

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil ekki gera lítið úr þessu frv., en þó verð ég að lýsa yfir því, að frv. nær æðimiklu skemmra en ég hafði búizt við, úr því að á annað borð er verið að lögfesta reglur um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, sem auðvitað er sjálfsagður hlutur. Ég hafði vænzt þess, að sú löggjöf, sem hér er fyrirhuguð, yrði þannig úr garði gerð, að verulega munaði fyrir tónlistarskólana miðað við það, sem þegar hefur náðst með þeim fjárveitingum, sem nú eru í fjárlögunum, og hafði ég vænzt, að stefna frv. yrði sú að leitast við að koma á helmingaskiptum milli ríkis og sveitarfélaga um rekstur tónlistarskólanna.

Eins og frv. er úr garði gert, er ekki um neina nýja tekjustofna að ræða fyrir tónlistarskólana. Það eitt er nýtt að lögfesta skýringu á styrkhæfum skólum, sem ég fellst að sjálfsögðu á, og auk þess er það nýtt að lögákveða hámark styrkveitinga úr ríkissjóði, en skv. 2. gr. frv. skulu styrkhæfir skólar fá allt að 1/3 rekstrarkostnaðar síns greiddan úr ríkissjóði, en þó aldrei hærri upphæð en nemur framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags til skólans.

Tónlistarskólarnir hafa ávallt haft þrenns konar tekjustofna: 1) Skólagjöldin. 2) Styrk frá sveitarfélögum. 3) Styrk frá ríkinu. Í mörgum skólum hafa skólagjöldin orðið að vera svo há, að þau bæru uppí a.m.k. helming rekstrarkostnaðar, vegna þess, hve framlög hins opinbera voru lág. Í reyndinni hefur þetta fyrirkomulag þýtt það, að gjald fyrir nemanda hefur sums staðar orðið að vera yfir 2000 kr., er á Akureyri nú 2400 kr., sem er verulegur kostnaður fyrir þá foreldra, sem hafa átt og eiga börn í tónlistarskóla. Það fer því fjarri, að öllum foreldrum sé kleift að kosta börn sín til tónlistarnáms. Ég hygg, að það séu fyrst og fremst sérréttindi efnameiri manna að veita börnum sínum slíka fræðslu. Efnalitið fólk á þess lítinn kost að láta börn sin njóta tónlistarfræðslu við þær aðstæður, sem hér ríkja, og því miður mun þetta frv, ekki bæta svo úr þessu ranglæti sem margir höfðu vænzt.

Frv. gerir sem sagt ráð fyrir því, að ríkið leggi fram í mesta lagi 1/3 kostnaðar við rekstur tónlistarskólanna, þó gegn því, að 1/3 komi væntanlega frá bæjarfélögunum, að því er virðist, en alla vega verður að fá 2/3 hluta frá nemendum sjálfum og sveitarfélögum, því að ég held, að það sé varla að vænta annarra tekjustofna, svo að nokkru nemi. Það er auðvitað hugsanlegt, að sveitarfélögin tækju á sig að greiða allan þennan mismun, 2/3, en mér finnst það ekki líklegt. Ég mundi ekki vilja reikna með því, að sveitarfélögin tækju meira á sig en svarar 1/3, og ef svo væri, þá yrði að innheimta þann mismun, sem enn myndaðist, með skólagjöldunum, og það yrði þá um 1/3 af kostnaðinum.

Auk þess er sá hængur á ákvæðum þessa frv., að ríkisstyrkurinn eða þessi 1/3 hluti er hugsaður sem hámark, hins vegar er ekkert ákvæði um lágmarksstyrk. Það er því á valdi ríkisvaldsins að ákveða styrkinn undir hámarkinu, eins og orðalag 2. gr. bendir ótvírætt til, enda rækilega undirstrikað í aths. við frv., og þetta tel ég stórgalla. Og ég er ekki alveg viss um, að hv. frsm. menntmn. hafi farið rétt með áðan, þegar hann taldi, að þetta mundi í raun þýða, að það yrði veittur til tónlistarskólanna 1/3 af rekstrarkostnaði þeirra. Það er engan veginn öruggt.

Ég vil eindregið hvetja til þess, að 2. gr. verði breytt með það fyrir augum að tryggja betur fjárhagsstuðning hins opinbera við skólana. Þykir mér miður, að hv. menntmn, skyldi ekki sjá ástæðu til þess að lagfæra frv. í þá átt.

Ég hef leyft mér að flytja 2 brtt. við frv. Hin fyrri er við 2. gr. og miðar að því að auka fjárhagsstuðninginn, þannig að hámark fjárveitingar úr ríkissjóði verði helmingur rekstrarkostnaðar, en lágmark 1/3 kostnaðarins, en þó aldrei hærra en sem nemur framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags. Verði þessi brtt. samþ., þá er þó a.m.k. gerð tilraun til þess að koma á helmingaskiptum á milli ríkis og sveitarfélags um rekstur tónlistarskóla.

Mér er ljóst, að þetta er aðeins tilraun til þess að ná því marki, sem ég hafði óskað að stigið yrði í einum áfanga, en hins vegar get ég fallizt á þessa lausn nú að sinni. Og ég vænti þess, að hv. menntmn. geti við nánari íhugun orðið mér sammála um þetta. Og ég vænti þess satt að segja enn fremur, að hæstv. menntmrh., sem ég veit að vill þessu máli vel og skilur þarfir tónlistarskólanna manna bezt og gerir sér grein fyrir þeim erfiðleikum, sem steðja að alþýðu manna um að greiða há skólagjöld, — ég vænti þess, að hann verði mér líka sammála um þetta, enda er það höfuðatriðið fyrir mér, að skólagjöldin megi hverfa sem allra mest. Ég hef þá trú, að ef það væru frjálslegri ákvæði í þessu frv., þá yrði það hvatning fyrir sveitarfélögin um að leggja sitt af mörkum til þess að eyða skólagjöldunum í tónlistarskólunum, sem er sjálfsögð réttarbót fyrir efnalítið fólk.

Hin brtt., sem ég flyt, er ekki eins mikilvæg og raunar ekki. annað en orðalagsbreyting, en mér finnst rétt, að það komi skýrt fram, að menntmrn. skuli hafa samráð við skólastjóra tónlistarskólanna um tillögugerð varðandi ríkisstyrk til skólanna. Eins og 3. gr. frv. er orðuð nú, þá finnst mér tæplega nógu skýrt að orði kveðið um þetta atriði, og þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt. í þá átt.