01.04.1963
Neðri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

206. mál, tónlistarskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þakklæti mitt við hv. menntmn. þessarar d. fyrir skjóta og góða afgreiðslu hennar á þessu frv. og meðmæli hennar með samþykkt þess.

Að því er snertir þær brtt., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. (IG) var nú að lýsa, vil ég aðeins láta þessa getið: Hann kvaðst hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með það, að fjárhagslegur stuðningur hins opinbera við tónlistarskóla væri ekki aukinn meir en gert væri ráð fyrir í þessu frv. En meginreglan er þar, að ríkið skuli greiða 1/3 kostnaðar við rekstur skólanna á móti 1/3 frá hlutaðeigandi sveitarfélögum, en síðasta þriðjunginn er ætlazt til að tónlistarskólarnir fái annaðhvort með skólagjöldum eða öðrum styrkjum en frá ríki og sveitarfélögum.

Ég vil láta þess getið, að í fyrra, árið 1962, nam ríkisstyrkur til tónlistarskóla 550 þús. kr. Eftir samþykkt þessa frv. mun ríkisstyrkurinn á árinu 1964 verða 1.4 millj. kr., þannig að það lætur nærri, að i kjölfar þess, sem gert var við samþykkt fjárlaga fyrir þetta ár, og þessa frv. þrefaldist styrkur ríkisins til tónlistarskólanna, það munar ekki miklu, að hann þrefaldist. Um þessa staðreynd hygg ég að ekki sé hægt að fara þeim orðum, að ekki sé um að ræða gagngera breytingu á starfsaðstöðu tónlistarskólanna, ef frv. nær fram að ganga. i sambandi við þetta má ekki gleyma því, að þessi stórfellda endurbót á fjárhagsaðstöðu tónlistarskólanna kemur í tvennu lagi. Í fyrsta lagi var styrkur á gildandi fjárlögum aukinn mjög verulega, þó að lagasetningu væri þá ekki lokið. Þá var um að ræða aukningu úr 550 þús. kr. í fyrra upp í 0.9 millj. kr., sem gert er ráð fyrir í fjárlögum nú, en sú fjárlagaupphæð var einmitt sett vegna þess, að þetta frv. var í undirbúningi. Það varð hins vegar niðurstaðan, að frv. var gert þannig úr garði, að styrkurinn mun enn aukast frá því, sem gert var ráð fyrir, þegar fjárlögin voru samin, þannig að nú getur hann orðíð 1.2 millj. kr. að viðbættum 200 þús. kr. til hljóðfærakaupa, eða samtals 1.4 millj. kr., og það er sú upphæð, sem ég vitnaði til áðan.

Ég held í raun og veru, að það væri of stórt spor að stiga í einu lagi að gera ráð fyrir því, að ríki og sveitarfélög eigi að skipta á milli sín öllum rekstrarkostnaði skólanna, ekki vegna þess að ríkinu væri ofgert með því að ætla því að greiða allt að helmingi rekstrarkostnaðarins, heldur óttast ég, að sveitarfélögunum, ýmsum þeirra a.m.k., mundi finnast sér ofgert með því.

Ég hygg, að í kjölfar frv. muni fylgja ekki mjög aukin greiðsluskylda af hálfu sveitarfélaganna, heldur mun til þess ætlazt, að þau auki framlög sin mjög verulega, eins og ríkið er þegar reiðubúið til að auka sín framlög. Og hygg ég, að ýmsum sveitarfélögum muni þykja nóg um þá breyt., sem hér er lagt til að gera, jafnvel þó að ekki yrði gengið enn lengra. En það skal ég taka fram, að ríkisstj. mun bjóða fram sem styrk til skólanna 1/3 af rekstrarkostnaði þeirra, eins og samþykkt fjárhagsáætlana skólanna mun gera ráð fyrir, og menntmrn. mun þá beinlínis ætlast til þess af hlutaðeigandi sveitarfélögum, að þau leggi líka .fram 1/3 af rekstrarkostnaðinum. En í framhaldi af þeim skólastjórafundi tónlistarskóla, sem haldinn var á s.l. hausti, hefur verið gert ráð fyrir því, að starfsemi tónlistarskólanna muni verða aukin mjög verulega á næsta starfsári og rekstrarkostnaður þeirra þannig aukast mjög verulega.

Ég tel líka rétt að láta þess getið, að sérstaklega einn tónlistarskólinn hefur mjög verulegar tekjur frá þriðja aðila, þ.e.a.s. ekki frá ríkissjóði og ekki frá sveitarsjóði, heldur frá styrktarfélagi, sem að skólanum stendur, og á ég hér við tónlistarskólann í Reykjavík, sem er rekinn af Tónlistarfélaginu, sem jafnframt rekur kvikmyndahús hér í bænum og nýtur skattfrelsis, nýtur undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts, vegna þess að allar tekjur kvikmyndahússins skulu ganga til rekstrar tónlistarskólans. Hér er raunverulega líka um ríkisstyrk að ræða, þó að hann sé í því óbeina formi, að kvikmyndahúsið eða tónlistarskólinn er undanþeginn greiðslu skemmtanaskatts. Ef það væri lögákveðið, að ríki og sveitarfélög skyldu, hvor aðili um sig, greiða helming rekstrarkostnaðar, þá vaknar sú spurning, hvernig fara ætti að í þessu tilviki. Það er vandamál, sem þarf alveg sérstakrar athugunar við.

Ég er sammála hv. þm. um það, að það er æskileg framtíðarstefna, að skólagjöld geti lækkað mjög mikið eða jafnvel orðið engin í þessum skólum, eins og þau eru engin í almennum ríkisskálum. Ég tel þó ekki tímabært að gera slíkar ráðstafanir nú, enda ekki eftir því óskað af forvígismönnum tónlistarskólanna, sem á fundi sínum á s.l. hausti lýstu mikilli ánægju með það, ef sú skipan, sem hér er gert ráð fyrir, gæti náð fram að ganga, enda mun hún hafa í för með sér næstum þreföldun ríkisstyrks til skólanna, og þá mun líka vera ætlazt til þess, að styrkur sveitarfélaganna til skólanna aukist í sama hlutfalli eða næstum því þrefaldist og geri þar með skólunum kleift að auka starfsemi sína mjög verulega, eins og ráðgert hefur verið.

Varðandi seinni brtt. hv. þm. get ég lýst því yfir, að menntmrn. hefur alltaf haft í hyggju að ákveða rekstrarstyrki til einstakra skóla í samráði við skólastjóra og stjórn hvers tónlistarskóla um sig.