08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

206. mál, tónlistarskólar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki mikið þessar umr., en ég taldi þó rétt að segja hér örfá orð með hliðsjón af þeim till., sem hér hafa komið fram, vegna þess að í senn átti ég nokkra aðild að því, að þessu máli var hreyft í upphafi, og átti auk þess sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó frv.

Hv. síðasti ræðumaður sagði í lok síns máls, að hann teldi, að að því mundi koma, að ríkið yfirtæki þessa fræðslu. Þetta kann vel að vera. Ég skal engu um það spá. En þetta frv. er byggt á öðru sjónarmiði. Það er byggt á því grundvallarsjónarmiði, að hér sé um að ræða frjálst skólahald, sem stutt sé af ríkisvaldinu með hliðsjón af því, hversu hér sé um mikilvægt menningaratriði að ræða, og ákvæði frv. um fjárframlög til þessara skóla er beinlínis sniðið með hliðsjón af þessu grundvallarsjónarmiði, sem frv. hvílir á. Það er þess vegna ekki út í hött, sem þessi ákvæði eru sett í frv., og ég tel, að sú breyt., sem hér er lagt til að gera á frv., mundi algerlega kippa burt þessum grundvelli. Ég er ekki með því að segja, að þessi tilhögun út af fyrir sig gæti ekki komið til greina síðar meir. En ef ætti að lögfesta það, að hið opinbera greiddi raunverulega allan kostnað við þetta skólahald, yrði að sjálfsögðu að byggja þessa löggjöf upp með allt öðrum hætti, því að þá er sjálfsagt, að yfirstjórn þessara mála yrði færð yfir frá þessum frjálsu félagasamtökum og yfir til ríkisvaldsins eða sveitarstjórna og allt kerfið byggt upp á þann hátt.

Þess vegna tel ég, hvað sem annars má segja um þessa hugmynd, ef ríkið yfirtæki þessa fræðslu yfirleitt, að þá sé ekki hægt að samrýma þessar till. því kerfi, sem er gert ráð fyrir að byggja þessa löggjöf á, því að hlutfallsgreiðslurnar, sem hér er miðað við, 1/3 frá ríki, 1/3 frá sveitarfélagi og 1/3 af skólagjöldum og framlögum hlutaðeigandi áhugamannasamtaka, eru við það miðaðar, að hér verði eðlileg starfsskipting, og það væri auðvitað með öllu óeðlilegt að hafa þessa skóla í höndum frjálsra samtaka án nokkurrar aðildar ríkisins, ef þessi samtök gætu síðan sótt sína styrki til ríkis og sveitarfélags. Og ég álít, að það væri ekki til framdráttar þessari menningarstarfsemi að gera hana háðari ríkisvaldinu en hér er gert ráð fyrir.

Það hafa víðs vegar um landið myndazt merkileg samtök, einmitt til að hrinda þessari fræðslustarfsemi áleiðis, og ef það yrði hér breytt um, þá er mjög hætt við því, að sá mikilvægi áhugi, sem þar hefur verið beizlaður, mundi hverfa eða a.m.k. minnka mjög verulega, eins og alltaf vill verða, þegar menn hafa það á tilfinningunni, að þeir þurfi ekki annað en afhenda öðrum aðila reikningana til þess að fá kostnað greiddan. Það er því ákveðin sannfæring mín, að það beri að reyna að vinna að framgangi þessara mála og eflingu einmitt á þeim grundvelli, sem hér er lagður, og beizla þessa mikilvægu áhugamannastarfsemi, sem risið hefur upp víðs vegar um landið og ætla má að geti risið víðar upp, eftir að þessi grundvöllur er fenginn.

Eins og allir hv. þdm. vita, hefur stuðningur ríkisins við tónlistarskóla verið mjög handahófskenndur. Það eru einstakir styrkir veittir í fjárl., án þess að nokkurt raunverulegt mat fari fram á því, hvernig skóla sé um að ræða, og einmitt með hliðsjón af því átti ég á sínum tíma frumkvæði vegna reynslu minnar í fjvn, að því, að undirbúin væri sérstök löggjöf um þessi mál.

Hv. 5. þm. Austf. vitnaði hér í ýmis ákvæði í frv., sem hann taldi ekki í samræmi við það sjónarmíð, að þetta ætti að vera frjáls starfsemi, heldur væri gert ráð fyrir víðtækum ríkisafskiptum, og vitnaði þar í tvær greinar, 5. gr., þar sem getið er um, að menntmrn. eigi að kanna aðstæður til skólahalds, og 9. gr. um samþykkt námsskrár. Ég er ekki hv. ræðumanni alveg sammála um skilning á þessum gr. Hér er ekki um raunveruleg afskipti ríkisvaldsins að ræða af skólahaldinu sem slíku. Raunverulega geta skólarnir alveg starfað eins og þeim lystir, en þetta eftirlít er óumflýjanlegt að hafa til þess að komast að raun um það, hvort skólarnir fullnægja skilyrðum, sem talin eru v erða að vera fyrir hendi, til þess að um fullkominn tónlistarskóla sé að ræða. Skólunum er auðvitað alveg í sjálfsvald sett, að þeir hafi námsskrár sínar á annan veg, en eins og hv. ræðumanni mun kunnugt af athugun sinni á 1. gr. frv., er einmitt nauðsynlegt að fylgjast bæði með námsskrám og einnig hvaða skilyrði eru til skólahalds á staðnum til þess að kynna sér það til hlítar, hvort forsenda sé fyrir að veita skólanum viðurkenningu samkv. 1, gr. frv.

Það er rétt að skýra frá því hér, að áður en þetta frv. var samið, var sendur maður til þess að kynna sér skólahald allra tónlistarskóla í landinu, einmitt til þess að hafa til hliðsjónar um það, hvaða reglur eðlilegt væri að setja um skólana, til þess að þeir uppfylltu þær kröfur, sem gerðar eru til þess að kallast í þessu sambandi tónlistarskóli. Ég tel því, að hér sé aðeins um formsatriði að ræða, en ekki það, að það sé verið af hálfu ríkisvaldsins með þessum gr. að taka nokkurn þátt af yfirstjórn skólanna í hendur þess opinbera.

Varðandi svo skilning á því atriði, að gert er ráð fyrir, að styrkur megi nema allt að 1/3, þá er þetta ákvæði ekki orðað með það í huga, að skólarnir séu yfirleitt ekki styrktir að 1/3, yfirleitt ekki styrktir að þessu hámarki, heldur er orðalagið haft þetta rúmt vegna þess, að í 1. gr. frv. er auðvitað ekki hægt að setja ákvæði, sem tryggja það örugglega, að um fyrsta flokks skóla sé að ræða í hverju tilfelli. Jafnvel þó að þeir uppfylli það að hafa einn fastan kennara og svo og svo fullkomnar námsskrár, þá geta verið önnur atriði í kennslu og öðrum starfsháttum skólans, sem leiða til þess, að það verði metið svo, að skólinn sé ekki á sama hátt fyrsta flokks skóli eins og annar hliðstæður skóli annars staðar er. Og þess vegna er höfð þessi heimild til þess að víkja frá þessu marki. En að sjálfsögðu verður það alltaf meginreglan, að skólarnir fái þennan styrk. Og miðað við þann kostnað, sem verið hefur af skólahaldi tónlistarskólanna til þessa, held ég, að sé örugglega hægt að fullyrða það, að þessi styrktilhögun með 1/3, eða réttara sagt 2/3 hluta greidda af opinberu fé, sem skólarnir geta raunverulega gengið út frá að fá, ef þeir uppfylla skilyrði laganna, þá séu settar það styrkar stoðir undir þessa tónlistarskóla miðað við tilkostnað þeirra undanfarin ár, að það ætti ekki að vera neinum vanda bundið að starfrækja skólana með eðlilegum hætti.

Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram, herra forseti, sem skýringu á þessum atriðum, sem sérstaklega hefur verið rætt um í þessu frv., og hvaða hugsanir hafa legið að baki hjá þeim, sem frv. sömdu.