26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

217. mál, happdrætti háskólans

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Happdrætti Háskóla Íslands var stofnað samkv. i. frá 1933 og hefur því starfað nú um nær 3 áratugi. Tilgangur þess var fyrst og fremst sá að afla fjár til að reisa byggingu fyrir Háskóla Íslands sjálfan og siðan önnur hús, sem háskólinn og starfsemi hans þyrfti á að halda. Starfsemi happdrættisins hefur síðar verið færð út, og samkv. l. frá 1959 er gert ráð fyrir, að megintilgangurinn sé þessi: að reisa byggingar í þágu skólans, en enn fremur er gert ráð fyrir, að háskólinn taki að sér viðhald bygginga háskólans og happdrættisfé sé einnig varið til að koma á fót og efla rannsóknarstofnanir við hinar ýmsu deildir háskólans og greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja, sem háskólinn telur sér nauðsyn að eignast. Hér kemur einnig til, að háskólinn þarf að verja allmiklu fé í umönnun lóða og garðrækt, en það er allmikið svæði, sem hann nú þegar hefur fengið til umráða, og stækkaði mjög við gjöf Reykjavíkurborgar á 50 ára afmæli háskólans. Þótt háskólinn hafi eignazt myndarlegt hús, eru mörg verkefni fram undan um húsbyggingar. Er nauðsyn til að reisa hús fyrir læknadeild og styðja með fjárframlögum byggingu raunvísindastofnunar. Það þarf að bæta aðstöðu kennara til rannsókna og vinnu. Það þarf að skapa stúdentum stórum bætta aðstöðu, bæði til margvíslegrar félagsstarfsemi, félagslegra iðkana og lestrar og náms. Þannig mætti lengi telja upp hin mikilvægu og kostnaðarsömu verkefni, sem fram undan eru á vegum háskólans og að verulegu leyti er ætlað að fjár sé aflað til með starfsemi happdrættisins.

Háskólaráð hefur nú farið fram á heimild til þess að gefa út nýjan flokk hlutamiða, B-flokk, og er meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir, að verða við þessari ósk háskólaráðs. Þessi nýi flokkur happdrættismiða verður hliðstæður núv. aðalflokki og númer þá eða miðatala 60 000 — 65 000. Þetta fyrirkomulag er tekið að nokkru eftir erlendri fyrirmynd, sparar til muna vinnu og er aðgengilegt fyrir viðskiptamenn happdrættisins.

Í annan stað er gert ráð fyrir því, að happdrættið megi taka í sínar hendur útsölu hlutamiða. Slíka heimild hefur það ekki haft, en hins vegar tvö happdrættin stóru, sem svo eru kölluð, önnur, sem hér starfa, þ.e. S.Í.B.S. og Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, hafa slíka heimild.

Þetta er meginefni frv., sem hér liggur fyrir, og vænti ég þess, að það fái góðar undirtektir hjá Alþ. Ég legg til, að því sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.