26.11.1962
Neðri deild: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Akvæði þessa frv., sem ríkisstj. flytur, eru flest gamlir kunningjar. Í 1. gr. frv. er lagt til, að ríkissjóður fái heimild til að innheimta á árinu 1963 nokkur gjöld til ríkissjóðs með viðauka. Og í 3. gr. eru bein ákvæði um hækkun á bifreiðaskatti, innflutningsgjaldi af hjólbörðum og gúmmíslöngum. Þá er einnig í 4. gr. ákvæði um hækkun á tollum, bæði vörumagnstolli og verðtolli, á nokkrum vörum, og í þeirri grein er einnig ákvæði um undanþágu fyrir nokkrar vörur frá þessari tollhækkun, enn fremur ákvæði um að fella niður aðflutningsgjöld af fáeinum nauðsynjavörutegundum. Þessi ákvæði öll hafa verið sett í lög fyrir eitt ár í senn undanfarin ár, og ég mæli með því, að svo verði enn að þessu sinni fyrir næsta ár. Einnig er ég samþykkur því, að lækkun aðflutningsgjalda á ýmsum vörum, sem leidd var í lög á síðasta þingi og gilti fyrir árið 1962, skuli einnig gilda fyrir árið 1963, en um þetta er ákvæði í 5. gr. En í 5. gr. er sagt, að enn á næsta ári skuli innheimta af innfluttum vörum 8% viðbótarsöluskatt, sem er í raun og veru 8.8%, því að það er bætt 10%, við vöruverðið, áður en skatturinn er á lagður. Þessi viðbótarsöluskattur var fyrst í lög tekinn 1960 og talið, að það væri til bráðabirgða. Síðan hefur hann verið framlengdur samkv. till. hæstv. stjórnar fyrir eitt ár í senn, og er þetta í þriðja sinn, sem stjórnin óskar framlengingar á þessum skatti.

Viðbótarsöluskatturinn er einn þáttur í efnahagsráðstöfunum núv. hæstv. stjórnar. Ráðstafanir hennar í þeim málum hafa orðið til að spenna dýrtíðina hér á landi upp úr öllu valdi. Fyrst var það gert með gengislækkun úr hófi fram snemma árs 1960, og svo var bætt gráu á svart 1961 með óþarfri og skaðlegri krónulækkun. Afleiðingar af þessari stefnu hæstv. stjórnar hafa m.a. orðið stóraukin ríkisútgjöld og þar með fylgjandi mjög auknir tollar og skattar. Um þetta vitnar ríkisreikningurinn fyrir 1961, sem nú liggur fyrir þinginu, fjárlög 1962 og fjárlagafrv. fyrir 1963, sem hér er til meðferðar í sameinuðu þingi. Við framsóknarmenn höfum verið og erum á móti efnahagsmálastefnu ríkisstj. Þar af leiðandi höfum við verið og erum á móti þeim háa viðbótarsöluskatti, sem hæstv. stjórn vill enn fá framlengdan. Hann hefði verið óþarfur, ef heillavænlegri fjármálastefnu hefði verið fylgt að undanförnu. Ég hef því leyft mér að leggja fram brtt. við frv., og er hún í nál. mínu á þskj. 134. Ég legg þar til, að 5. gr. verði orðuð um og þannig, að í henni felist ekki framlenging á viðbótarsöluskattinum, heldur falli það ákvæði úr greininni.