02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. — Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég mótmæli því algerlega, að hæstv. fjmrh. geti leyft sér að halda því fram, að við séum að halda hér uppi einhverri vanskilastefnu, Framsóknarflokksmenn. Ég hef sjálfur tekið þátt i því fyrir hönd míns flokks að gera samninga eða gera till. um, hvernig með skyldi fara um ríkisábyrgðalán, og ég mótmæli því, að ég hafi nokkuð frekar en annar í þeirri nefnd viljað styðja að vanskilum. Ég vil einnig taka það fram, að það sveitarfélag, sem ég er forsvarsmaður fyrir, hefur aldrei þurft að láta greiða fyrir sig ríkisábyrgð. Þess vegna hefur hæstv. ráðh. ekki rétt til þess að segja slíkt. Ég vil enn fremur taka það fram, að ég sýndi fram á það hér með rökum í ræðu minni fyrir nokkrum dögum, að vanskilaskuldirnar eru mestar frá tímum þeirrar stjórnar, sem þessi hæstv. ráðh. hefur stutt.

Í öðru lagi vil ég segja það, að ég held því fram, að það skipti máli, hvort lögin, sem hæstv. ráðh. notar í þessu tilfelli í sambandi við greiðsluna 1961, eru samþ. fjórum mánuðum eftir að greiðslan átti að fara fram. Ég held því einnig fram, að ef hæstv. ráðh. hefur haft rétt til þess að fella niður greiðsluna, þó að fjárlög hafi veitt fé til þess arna 1961, þá bar honum einnig að greiða þetta umfram í fjárl. 1962 vegna ríkisábyrgða, ekki sízt þar sem hann hafði haft þennan afgang 1961. Þess vegna held ég, að öll digurmæli hæstv. ráðh. um vanskilastefnu og annað því um líkt, hann ætti að spara sér þau. En það, sem er staðreynd í þessu máli, var auglýsingin um áramótin 1961. Henni þurfti hæstv. ráðh, að koma á framfæri og þess vegna var þessi leið farin.