09.04.1963
Neðri deild: 68. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til athugunar hjá fjhn. d. Þar hefur ekki orðið fullt samkomulag um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. mælir með frv., en ég er andvígur því og hef skilað minnihlutaáliti á þskj. 585.

Ríkisábyrgðir hafa aukizt síðustu árin miklu meira en nokkru sinni fyrr. Samkv. ríkisreikningi var heildarupphæð ríkisábyrgða í árslok 1958 1269 millj, kr., en í árslok 1961 voru ábyrgðirnar komnar upp í 2762 millj., höfðu þannig meira en tvöfaldazt á þremur stjórnarárum núv. stjórnarflokka. Enn er ekki búið að gera skrá um ábyrgðir, sem ríkið stóð í í árslok 1962, en fastlega má gera ráð fyrir, að drjúgum hafi bætzt við upphæðina á næstliðnu ári. Ríkið hefur þurft að borga töluvert á liðnum árum vegna ábyrgðanna, vegna þess að skuldunautar hafa ekki staðið í skilum.

Yfirlít um þær greiðslur undanfarin 7 ár er í nál. mínu. Þar sést, að þessar greiðslur hafa margfaldazt í tíð núv. stjórnar. Liggja til þess ýmsar orsakir. Ein af þeim og sú, sem mestu veldur, mun vera ábyrgðin, sem tekin var á lánum til kaupa á 5 nýjum togurum á árunum 1959–1960. Þetta voru útlend lán, sem tekin voru. Greiðslur vegna þeirra ábyrgða árið 1962 voru yfir 31 millj. kr., og alls er ríkið búið að borga á síðustu 3 árum 471/2 millj. kr. vegna ábyrgðanna á þessum 5 togaralánum. Upphaflega var ábyrgðarupphæðin fyrir þá samtals 17 millj. 674 þús. þýzk mörk. Um síðustu áramót voru eftirstöðvar lánanna 14 millj. 989 þús. mörk. Heildarupphæðin hafði ekki lækkað nema um 2 millj. og 685 þús. mörk, eða um tæplega 29 millj. ísl. kr. með núv. gengi, þrátt fyrir að ríkið var búið að borga 471/2 millj. af þessum lánum. Mismunurinn hefur farið í gengistap og vexti.

Því miður er það svo, að ekki blæs byrlega fyrir togaraútgerðinni, og hætt er við, að ríkið verði enn að borga af þessum lánum að einhverju leyti. Við samanburð á skýrslum kemur í ljós, að ríkið hefur síðustu árin þurft að borga margfalt meira af ábyrgðarkröfum vegna fyrirtækja, sem reka hraðfrystihús og aðrar fiskvinnslustöðvar, heldur en var fyrir daga núv. stjórnar. Þá var mjög lítið um, að slíkar ábyrgðir féllu á ríkissjóð. Þetta bendir til þess, að efnahagsráðstafanir núv. ríkisstj. hafi reynzt þeim atvinnufyrirtækjum þungar í skauti, þar sem þeim hefur gengið langt um verr en áður að standa í skilum. Kemur þar til vaxtahækkun o.fl. af því tagi. Það var þó sagt í upphafi stjórnartímabilsins, að ráðstafanir stjórnarinnar ættu að skapa atvinnufyrirtækjum viðunandi rekstrargrundvöll. Það hefur hér farið nokkuð á annan veg. Enn sem fyrr þarf ríkið að greiða af lánum til hafnarframkvæmda á mörgum stöðum. Þannig hefur það verið áður.

Í aths. með frv. þessu segir, að starfsemi ríkisábyrgðasjóðs sé nú að komast í fast form. Það form er ekki fastara en svo, að það er ekki búið að gera reikninga fyrir sjóðinn, ekki einu sinni fyrir árið 1961, hvað þá fyrir árið 1962. Fjhn. fékk þó upplýsingar hjá ríkisbókhaldinu um tekjur sjóðsins og greiðslur úr honum, og í nál. mínu er birt þetta yfirlit, sem við fengum hjá ríkisbókhaldinu. Þar kemur fram, að árið 1961 fékk sjóðurinn 75.4 millj. í tekjur vegna gengisbreytingarinnar. Það er sú upphæð, sem tekin var eignarnámi af útflytjendum, um leið og genginu var breytt. Þar að auki fékk sjóðurinn á því ári ríkisábyrgðargjaldið nýja, rúmlega millj., og vaxtatekjur 389 þús. Tekjur hans voru á því ári 76.8 millj. rúmlega, en greiddar ábyrgðarkröfur mínus innborganir 71.2, þannig að tekjuafgangur hjá sjóðnum árið 1961 hefur orðið rúmlega 5.6 millj. kr.

Á árinu 1962 fékk sjóðurinn enn af þessum verðhækkunartekjum, sem svo eru nefndar, vegna gengisbreytingar 23.6 millj. Þá fékk hann líka 38 millj. úr ríkissjóði, sem áætlað var á fjárl. til að standa straum af ábyrgðagreiðslunum, og svo fékk hann ríkisábyrgðagjald 1.7 millj. En þá vantar hann enn 44.6 millj. til þess að geta borgað allar ábyrgðarkröfurnar að frádregnum innborgunum, því að á því ári urðu þær 108 millj. rúmlega. Hér kemur það þannig fram, að síðustu tvö árin, sem hafa verið fyrstu starfsár þessa ríkisábyrgðasjóðs, sem svo er nefndur, hefur orðið halli hjá sjóðnum að upphæð 39 millj. rúmlega., og þessa fjárhæð þarf ríkissjóður að greiða af tekjum ársins 1962 umfram áætlaða fjárveitingu til greiðslu á ríkisábyrgðum á fjárlögum fyrir það ár. Í aths. með frv. segir, að það sé augljóst, að verulegar fjárhæðir hljóti að falla á ríkisábyrgðasjóð á næstunni. Þetta er sjálfsagt rétt, það má gera ráð fyrir þessu. En síðan segir, að telja megi víst, að vanskil af ábyrgðalánum fari fljótlega minnkandi. Um þetta verður ekkert sagt, og ég tel miklu varlegra að gera ráð fyrir, að þau verði veruleg framvegis, vanskilin, og þar af leiðandi greiðslur ríkisins. — Er nú hæstv. ráðh. farinn? Það þykir mér stórum miður.

Já, um þetta verður ekkert fullyrt, en ég tel varlegra að gera ráð fyrir, að vanskilin verði töluverð framvegis og ríkissjóður þurfi því að borga háar fjárhæðir á næstu árum vegna ríkisábyrgðanna. Og ég tel það ákaflega óeðlilegt að taka nú lán til greiðslu á ábyrgðarkröfunum. Ég vil ekki ætla, að hagur ríkissjóðs sé svo slæmur, að þörf sé fyrir þetta lán. Hitt þykir mér líklegra, að þetta sé tilraun til að sýna betri útkomu á ríkisreikningi en hún raunverulega er. En það er lítil stoð í slíkum aðferðum. Við skulum hugsa okkur eitthvert fyrirtæki, sem hefði mikinn rekstur og mikil viðskipti, þ. á m. við banka, og vildi gjarnan sýna sem fallegasta ársreikninga. Og við skulum segja, að þetta fyrirtæki tæki upp á því að stofna útibú og láta útibúið taka lán, sem það notaði til að borga hluta af rekstrarkostnaði fyrirtækisins, en lánið yrði ekki fært á efnahagsreikning fyrirtækisins sjálfs og ekki gjöldin, sem það fór til að greiða. Hvað ætli menn segðu um slíkt bókhald hjá fyrirtækinu? En það er í raun og veru þetta, sem hæstv. ráðh. er að gera. Hann hefur stofnað þetta útibú frá ríkissjóði, sem nefnt er ríkisábyrgðasjóður, ætlast til, að hann taki lán til að borga hluta af ríkisútgjöldunum, svo að þau komi ekki á ríkisreikninginn og hann sýni þar af leiðandi hagstæðari útkomu en rétt er. Það er þetta, sem er að gerast, og þetta tel ég mjög óeðlilegt.

Hæstv. ráðh. sagði um þetta mál, þegar það var til 1. umr.: Ef ríkissjóður greiðir hallann frá 1962 á ríkisábyrgðunum, þá er það óafturkræft framlag. Þessu botnaði ég satt að segja ekkert í, þessu tali hæstv. ráðh. um óafturkræft framlag til ríkisábyrgðasjóðs. Er ekki ríkisábyrgðasjóður eign ríkisins? Og er það ríkinu glatað fé, ef einhvern tíma eftir mörg ár kynni að myndast einhver eign hjá sjóðnum? Ég held ekki. Þetta er í raun og veru allt ríkissjóðurinn, honum hefur verið skipt þarna niður og þetta útibú stofnað, og það er ekki hægt að tala um óafturkræft framlag í þessu sambandi.

Í ræðu hæstv. fjmrh. um þetta frv. hér í deildinni 26. marz benti hann á, að fjárveitingin á fjárl. til greiðslu á ríkisábyrgðum væri áætlunarupphæð. Ef ábyrgðarkröfurnar eitthvert árið væru minni en þessi áætlunarupphæð á fjárl., þyrfti ekki að nota hana alla. Og í framhaldi af þessu sagði hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef hins vegar áfallnar ríkisábyrgðir eða þörf ríkisábyrgðasjóðs verður eitthvert árið óhjákvæmilega meiri en 38 millj., verður að greiða umfram úr ríkissjóði til þess að ná endunum saman.“

Þarna er ég sammála hæstv. ráðh., og þetta á hann að gera. Hann á að greiða þessar 39 millj. umfram áætlunarupphæð fjárl.

Við óskuðum í fjhn. eftir að fá upplýsingar um útkomuna hjá ríkissjóði 1962, en við fengum það svar við þeirri ósk, að ríkisbókhaldið hefði ekki lokið ríkisreikningi fyrir 1962. Aðrar upplýsingar fengum við ekki. En ég vil ógjarnan trúa því, að ríkissjóður sé svo tæpt staddur, að hann geti ekki greitt þessar 39 millj. af tekjum ársins 1962, og þetta er enn ólíklegra fyrir það, að árið áður, 1961, sparaði ríkissjóður sér 38 millj., sem voru ætlaðar á fjárl. þess árs til að greiða ábyrgðarkröfur. Það þurfti ekki á þeim að halda, af því að þessi upptæki gengishagnaður hjá útflytjendum var tekinn inn í ríkisábyrgðasjóðinn og nægði vel til að borga kröfurnar það ár. Eg held því, að það hljóti að vera, að ríkissjóður geti borgað þetta. Það er mjög ótrúlegt, að hann geti ekki greitt þær ábyrgðakröfur, sem áfallnar eru, án lántöku.

Í niðurlagi aths. með frv. segir, að lánið eigi að nota til að greiða kröfur, sem fallið hafa eða falla munu á ríkisábyrgðasjóð. Mér finnst hæstv. ráðh. ærið svartsýnn, ef hann gerir ráð fyrir greiðsluhalla hjá ríkissjóði 1963, svo að ekki verði hægt að greiða það, sem á hann kann að falla af ábyrgðum, án lántöku. Ég tel ekkert liggja á að veita heimild til slíkrar lántöku. Þegar liður að lokum ársins 1963, má taka málið til yfirvegunar. Ef þá skyldi koma í ljós fjárskortur hjá ríkissjóði, má athuga um lántöku á næsta þingi, t.d. rétt fyrir áramótin, þegar betur verður séð um afkomu ársins. Þessu liggur ekkert á núna.

Ég varð satt að segja hissa, þegar ég sá þetta frv. frá hæstv. ráðh. hér á þingi. Mér kom í hug gamla máltækið: Nú er Bleik brugðið. Ég hafði ekki búizt við, að hann færi fram á slíka heimild til lántöku til að borga hluta af útgjöldum ríkissjóðs s.l. ár. Hitt hefði mér þótt trúlegra, að hann bæri sig dálítið mannalega, eins og hann var vanur, ekki sízt þar sem kosningar eru á næsta leiti, segðist hafa nóga peninga í ríkissjóðnum til þess að borga þetta. Hann hefði þá minnt okkur á karlinn, sem missti krónuna á pallinn, lét hana liggja og sagði: „Það er nóg af þessu í Hákoti.“ Þetta hefði verið í betra samræmi við venjulegan framgangsmáta hæstv. ráðh.

Ég vildi nú gefa honum það holla ráð að hætta við þetta mál, taka frv. aftur og borga þessar 39 millj. af tekjum ársins 1962. Grunur minn er sá, að hv. meðnm. mínir í hv. fjhn., stjórnarflokkamennirnir, séu ekkert hrifnir af þessu frv. Ég hygg, að þeir telji það litla búmennsku að fara að stofna til ríkisskuldar til að borga þessar kröfur. En gera verða þeir fleira en gott þykir fyrir sinn hæstv. ráðh. Og það hefur hlaupið á snærið hjá þeim. Þeir hafa fengið fjórða manninn í skiprúm hjá sér, hv. 4. þm. Austf. Hann getur vel gert það fyrir hæstv. fjmrh. að styðja hann í þessu máli. Hv. 4. þm. Austf. tekur það ekki svo hátíðlega, þó að ríkissjóður auki sínar skuldir.

Ég er á mótí þessari lántökuheimild og lántöku til að borga ábyrgðakröfurnar. Ég tel það ranga stefnu að stofna til skulda til að greiða þessar kröfur og velta þeirri byrði þannig yfir á framtíðina. Ég á bágt með að trúa því, að afkoma ríkissjóðs hafi verið svo bágborin árið sem leið, að hann geti ekki borgað þessar kröfur. Það er því till. mín, herra forseti, að frv. þetta verði fellt.