14.03.1963
Neðri deild: 53. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

177. mál, aðstoð við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umr., er ríkissjóði gert að leggja fram 2 millj. kr. árlega á næstu 10 árum í sérstakan sjóð, sem ætlað er það hlutverk að aðstoða kaupstaði og kauptún til þess að eignast lönd og lóðir innan takmarka sinna, ef það er talið nauðsynlegt vegna almennra þarfa.

Í l. nr. 64 frá 1941, um jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa, er ríkisstj. heimilað að kaupa landssvæði í kauptúnum og sjávarþorpum eða í grennd við þau og leigja þau síðan hlutaðeigandi sveitarfélagi.

Með þessu frv., ef að lögum verður, er horfið frá þessari stefnu og að hinni, að aðstoða sveitarfélögin til þess sjálf að verða eigendur að lóðum og löndum, sem eru innan takmarka þeirra. Er þessi stefna tvímælalaust til bóta til lausnar þeim vanda, sem ærið oft skapast við það, að slík lönd eru ekki í eign sveitarfélaganna. Reynslan hefur sýnt áþreifanlega, að kaupstaðir og kauptún, sem eru í örum vexti, komast oft í hinn mesta vanda, ef aðrir aðilar en sveitarfélögin sjálf eru eigendur að meginhluta þeirra lóða og þess lands, sem sveitarfélögunum er lífsnauðsyn að hafa fullan og óskertan yfirráðarétt yfir, svo sem allra landa og lóða undir götur, hafnarmannvirki, samgöngumiðstöðvar, opinberar byggingar, verkamannabústaði, leikvelli barna, opin svæði fyrir garða og margt fleira, sem tilheyrir nútímaskipulagi í fjölbýli. Og þessi vandi fer vaxandi í hlutfalli við þörfina, sem skapast vegna sívaxandi athafnalífs og aðstreymis fólks, sem því jafnan er samfara. Samfara slíkum vexti fylgir aukin eftirspurn eftir löndum og lóðum með síhækkandi verðlagi, sem óhjákvæmilega verkar neikvætt á lífskjör fólksins og hag sveitarfélagsins. Verðhækkun lands og lóða þeirra, sem hér um ræðir, er oftast beinlínis vegna fjárframlags hins opinbera samfara orku þess fólks, sem hana leggur fram til vaxtar og uppbyggingar staðanna, en langsjaldnast fyrir aðgerðir þeirra, sem eignuðust löndin á sínum tíma, — og þau voru þeim verðlítil, þar til eftirspurnin gerði þau verðmeiri af þeim ástæðum, sem ég þegar hef skýrt frá.

Sú spurning leitar því á með vaxandi þunga, hvaða ráð eru til þess að fyrirbyggja þessa þróun málanna í sambandi við lönd og lóðir í ört vaxandi kaupstöðum og kauptúnum í landinu. Að óbreyttum ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem mælt er svo fyrir, að engan má skylda til þess að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir, — og að óbreyttri 10. gr. l. nr. 61 frá 1917, um framkvæmd eignarnáms, sem mælir svo fyrir, að matsverð eignar skal miða við það gangverð, sem hún mundi hafa í kaupum og sölum, verður það eitt til bjargar, að forráðamenn sveitarfélaga séu nægilega framsýnir til þess að festa kaup á löndum og lóðum fyrir sveitarfélagið, áður en hið opinbera leggur í stórfelldar framkvæmdir á staðnum, sem óhjákvæmilega setja verðlag lóðanna upp úr öllu valdi.

Menn hafa að vísu eygt þann möguleika að setja verðhækkunarskatt á söluverð eigna, sem þannig hækka í verði fyrir opinberar aðgerðir, en það mál er ekki svo einfalt sem ætla mætti, einkum þar sem öruggt er talið, að slíkan verðhækkunarskatt yrði þá að setja á allar eignir, en takmarka hann ekki aðeins við þær eignir, sem um ræðir í þessu frv. Er því hér um að ræða miklu víðtækara mál en það, sem takmarkast af þessu frv. Þykir því ekki rétt að taka upp ákvæði um slíkt atriði í þetta frv., þar sem lausn þessa vanda eigi heima í öðrum lögum.

Rétt þykir að benda á, að svo virðist sem flestir þeir aðilar, sem fara með mat eigna, sem teknar eru eignarnámi samkv. l. nr. 61 frá 1917, um eignarnám, hafi mjög sterka tilhneigingu til þess að túlka þau lög í hag eiganda meira en í hag almenningsheilla. Sýnist því brýn þörf á því að endurskoða þau lög með það fyrir augum að tryggja betur hag almennings í sambandi við eignarnám, sem fram er látið fara vegna nauðsynlegs eignarréttar hins opinbera yfir ákveðnum eignum til tryggingar heilla almennings í landinu. En ákvæði um slíka endurskoðun á ekki heima í því frv., sem hér er til umr., þótt á þetta sé bent hér. Þar sem svo stæði á, að sveitarfélag hefði ekki bolmagn til þess að eignast nauðsynleg lönd eða lóðir með þeirri aðstoð, sem fyrir er mælt í þessu frv., og á því verði, sem upp er sett eða metið væri, mætti e.t.v. leysa vandann með leigunámi í stað eignarnáms, enda væri þá leigumatið miðað við eðlilega leigu á lóðum á staðnum. Hér þyrfti einnig ákveðið lagafyrirmæli, sem fremur ætti heima í öðrum l. en í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Í 1. gr. frv. á þskj. 331 kveður svo á, að ríkissjóður leggi fram 2 millj, kr. árlega á árunum 1963–1972, eða alls í næstu 10 ár um 20 millj. kr., sem heimilt er að lána kauptúnum og kaupstöðum til lóða- og landakaupa innan takmarka hlutaðeigandi sveitarfélags, og að fé þetta skuli geymt á sérreikningi í Seðlabankann, ef því er ekki ráðstafað að fullu árlega. Inn á þann reikning skal og greiða árlega vexti og afborganir. Hér er því beinlínis um sjóðssöfnun ríkissjóðs að ræða, en ekki eyðslufé.

Í 2. gr. frv. eru fyrirmæli um það, að fjmrn. annist allar framkvæmdir í sambandi við lánveitinguna og innheimtu á afborgunum og vöxtum, en getur þó falið það lánsstofnun, ef þörf krefur. Í 2. gr. er einnig svo ákveðið, að standi sveitarfélög eigi í skilum með afborganir og vexti af lánunum, megi halda eftir af framlögum, sem það á að fá úr jöfnunarsjóði, til jöfnunar vangreiddri fjárhæð.

Í 3. gr. frv. er kveðið svo á, að sjóðurinn megi lána 60% af kostnaðarverði hins keypta lands og ríkissjóður megi auk þess ábyrgjast 40%, en allt kaupverðið, ef það er greitt með skuldabréfum, enda sé landið sett að veði til tryggingar láni og ábyrgðum. N. leggur til, að aftan við 6. gr. lagafrv. bætist ný mgr., er orðist svo, sjá þskj. 388:

„Við 3. gr. Aftan við gr. bætist ný mgr., er orðist svo:

Eigi má sveitarfélag selja land, sem keypt hefur verið samkv. lögum þessum, nema samþykki ráðh. komi til, enda verði þá öll áhvílandi skuld við sjóðinn með veði í landinu greidd að fullu.“

Það var rætt um það í n., hvort rétt væri að setja inn, að aðeins skyldi söluverðið greitt inn til afborgana á láninu, en samkomulag varð um, að greinin skyldi orðast eins og hér segir, þ.e. að allt lánið skyldi að fullu greitt, ef selja ætti landið, þótt ekki væri nema um einhvern hluta þess að ræða. Þykir rétt að tryggja land eða lóðir, sem keypt eru þannig, gegn því, að þær lendi í kaupbraski síðar meir.

Í 4. gr. frv, er mælt svo fyrir, að lánstími megi vera allt að 25 árum og vextir 5%, enn fremur, að skilyrði fyrir aðstoð séu, að kjörin séu svo hagstæð að dómi ríkisstj., að sveitarfélagið fái risið undir vöxtum og afborgunum. Og í 5. gr. eru sett þau skilyrði fyrir aðstoð, að ríkisstj. telji sveitarfélagi nauðsyn að eignast landið vegna almennra þarfa og kaupverðið sé eigi óhæfilega hátt. — 6. gr. kveður svo á um eignarnámsheimild, ef ekki takist samningar um kaup, og hvernig þá skuli með fara, en í 7. gr. ákveður, að leita skuli umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, áður en aðstoð er veitt.

Verði frv. samþ. þannig, falla úr gildi l. nr. 64 frá 27. júní 1941, um jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa, þar sem þeirra er þá ekki lengur þörf. Nái frv. fram að ganga, og á því er mikil þörf, leysir það verulega þann vanda, sem ört vaxandi kauptún eiga við að glíma í sambandi við lóðakaup, en þó einkum á þeim stöðum, þar sem næg framsýni er höfð um kaup á löndum, áður en þau hækka vegna aðgerða hins opinbera. Hefur slík framsýni einkum verið rík á eftirfarandi stöðum: 1) Í Þorlákshöfn, en þar var höfninni afhent allt land jarðarinnar með mjög hagkvæmum kjörum, áður en hafizt var handa um byggingu mannvirkja þar. 2) Á Rifi. Þar keypti Rifshöfn alla jörðina fyrir um 38 þúsund krónur, áður en nokkrar framkvæmdir voru hafnar þar. Á báðum þessum stöðum koma þær ráðstafanir til þess að hafa geysiáhrif á afkomu hafnanna og alls almennings, er fram líða stundir. Er þess að vænta, að þessi fordæmi opni augu forráðamanna sveitarfélaganna fyrir þessu mjög svo þýðingarmikla atriði, að festa kaup á löndum, áður en þau hækka í verði fyrir aðgerðir þess, sem kaupa verður síðar, til þess að forðast margvíslega erfiðleika. Þessum aðilum er frv. þetta mikils virði, en það er einnig mikil hjálp þeim öllum öðrum, sem lönd og lóðir verða að kaupa, jafnvel hvaða verði sem þeir verða að sætta sig við.

N. leggur því einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem er lagt til á þskj. 388 að gerð verði á 3. gr. þess. Hefur verið rætt um þetta atriði við ráðh., sem telur breyt. til bóta. Einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að bera fram frekari brtt. við frv. eða fylgja öðrum, sem fram kunna að verða bornar. Einn nm., Guðlaugur Gíslason, hv. 3. þm. Sunnl., var fjarverandi vegna sjúkleika, e. endanlega var gengið frá málunum í n., en hann hafði v erið áður þátttakandi í meðferð málsins og lýsti sig sammála afgreiðslu þess í öllum atriðum.

Ég legg til, hæstv. forseti, fyrir hönd n., að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef hér lýst og fram eru bornar á þskj. 388.