02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

230. mál, lántaka fyrir raforkusjóð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir að fá heimild til lántöku fyrir rakorkusjóð, allt að 150 millj. kr., en eins og kunnugt er, þarf raforkusjóður á miklum fjármunum að halda og vantar nú í heimildum um 100 millj. kr. fyrir þeim lánum, sem er gert ráð fyrir að taka á þessu ári til raforkuframkvæmda. Þær heimildir, sem raforkusjóður hefur fyrir hendi, eru samtals 665 millj. 700 þús., en það, sem hefur verið notað af heimildum, er 641 millj. 571 þús., þannig að ónotaðar heimildir eru aðeins 24 millj. 129 þús.

Það þykir eðlilegt að hafa heimildina það rúma, að hún endist a.m.k. fram á næsta ár, og má búast við, ef framkvæmdir verða með sama hætti á næsta ári, að það þurfi þá einnig að bæta einhverju við heimildina.

Ég sé nú ekki ástæðu til að svo stöddu að fara fleiri orðum um málið, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. fjhn.