04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

234. mál, tannlækningar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram að ósk Tannlæknafélags Íslands, og hefur málið einnig verið borið undir landlækni og læknadeild háskólans, sem fallast á efni frv., en það er, að settar verði reglur um það, með hvaða hætti menn geti fengið viðurkenningu sem sérfræðingar í vissum greinum tannlækninga. Þótti nokkurt álitamál, hvort þörf væri á slíkri löggjöf, og þá með hverjum hætti kveðið skyldi á um kunnáttu hinna væntanlegu sérfræðinga, en að athuguðu máli urðu allir sammála um þá leið, sem hér er stungið upp á, sem sagt, að ráðherra veiti leyfið, en fari þar bæði eftir reglum og till. n., sem sé þannig ekipuð, að prófessor í tannlækningum við læknadeild háskólans sé formaður, en 2 nefndarmenn tilnefndir af Tannlæknafélagi Íslands, auk 2 sérfróðra tannlækna, sem tækju þátt í meðferð hvers einstaks máls.

Ég vonast til þess, að þetta litla mál, sem hefur þó þýðingu fyrir þá stétt, sem á hér hlut að máli, valdi ekki ágreiningi, og ég mun því leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.