05.03.1963
Neðri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

54. mál, lyfsölulög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf., formaður heilbr.- og félmn., hefur nú gert grein fyrir frv. því til lyfsölulaga, sem hér er til umr. Hann hefur greint frá störfum n., og er ekki ofsögum af því sagt, að n. lagði allmikinn tíma um a.m.k. þriggja vikna skeið í það að fara í gegnum þennan mikla frv.-bálk, sem er, eins og hv. þm. hafa séð, í 70 gr. og í 12 köflum, með allra umfangsmestu lagabálkum, sem fyrir þinginu liggja, enn fremur að fara vandlega í gegnum umsagnir þær, sem bárust frá hinum 10–11 aðilum, sem frv. hefur verið sent til umsagnar, og bera saman allar þær brtt., sem frá hinum ýmsu aðilum komu, en þar var sannarlega ekki samræmi á milli, þannig að einn lagði til það, sem annar lagðist gegn.

Okkur var í upphafi sagt, og það mun standa í grg. með þessu mikla lyfsölufrv., að nú væri svo komið, að þetta mál, sem hefur verið mikið deilumál milli ýmissa aðila, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við lyfjasölu, væri nú orðið samkomulagsmál. En það hefur síðar komið í ljós, að það er langt frá því enn, að sættir hafi verið allir þeir ólíku hagsmunir, sem hér eiga hlut að máli, og enn þá meira að segja eru að berast bréf til ráðh. fram hjá n., eins og hv. frsm. gat hér um áðan, út af því, að þeir telja enn deiluatriði og ágreiningsatriði vera uppi, sem n. hafði ekki fallizt á að leysa á þann hátt, að aðilar sættu sig við. En allt þetta rakti hv. frsm. rækilega og skal ég ekki annað en undirstrika það, að n. lagði mikla vinnu í þetta mikla mál, enda er það mín sannfæring, að þetta sé mjög þýðingarmikil og þörf löggjöf. Þess vegna var það, að þó að ég hefði kannske kunnað að vilja bera fram ýmiss konar brtt. við málið, þá vildi ég, þegar til kom, ekki bera fram brtt. um neitt annað en höfuðágreiningsefni mín. Ég vildi miklu fremur sneiða fram hjá ágreiningi um smærri atriði, því að mér er það kappsmál, að þessi löggjöf komist loks í höfn.

Á þeim tveimur árum rúmum, sem ég hafði stjórn heilbrigðismála á hendi, lét ég líka leggja fyrir frv. til lyfsölulaga, sem þáv. landlæknir hafði undirbúið, Vilmundur Jónsson, og vildi freista þess að koma löggjöfinni þá fram, og það var ekki í fyrsta sinn, sem hún var borin fram. En einnig þá og alltaf fyrr hafði málið strandað í meðferð þingsins á miklu hagsmunatogi þeirra, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við lyfjasölu. Því er ekki að neita, að síðan hafa ýmsir mætir og góðir menn unnið að því að reyna að sætta þessa ólíku hagsmuni og áreiðanlega skilað þar góðu verki. Á þar vafalaust ekki hvað sízt núv. landlæknir hlut að máll. En með sér hefur hann haft í þessu ýmsa ágæta menn, eftirlitsmann lyfjabúða, rektor háskólans og marga fleiri. Og málið hefur þó með þessu móti þokazt það langt fram, að nú virðast yfirstignir þeir örðugleikar, sem hingað til hafa orðið málinu að falli. Ég geri mér því fyllstu vonir um, að málið nái nú fram að ganga, enda held ég, að allir, sem að málinu hafa starfað til þessa, vilji leggja sig fram um það, að svo verði. Og ég lýsi því nú þegar yfir, að þó að ég voni, að mínar brtt. verði samþ., þá læt ég það ekki varða afstöðu mína til málsins í heild. Ég greiði atkv. með málinu, þó að engar aðrar breyt. fáist á því en meiri hl. hefur orðið sammála um í þeim 14 brtt., sem við leggjum fram sameiginlega á þskj. 263. Þær till. tel ég að séu allar óumdeilanlega til bóta og eru margar þannig gerðar, að landlæknir hefur gengið í það með n. að fá form á breytingar, sem samkomulag næðist frekast um milli þeirra, sem höfðu skiptar skoðanir um þessi atriði, sem brtt. fjalla um. Margar þessara brtt. eru því millileið, sáttavegur milli þeirra, sem höfðu ólíkar skoðanir um ýmis efnisatriði frv. Og þó, eins og ég áðan sagði, er samt ljóst, að ýmsir aðilar vilja ekki sætta sig við þessar millileiðir, sem þarna eru farnar með þessum brtt., og vilja enn freista þess að fá sínar skoðanir fram óbreyttar hver um sig.

Málið liggur þá þannig fyrir hv. d., að heilbr-.og félmn. hefur skilað sameiginlegu nál. og stendur þannig öll að því að mæla með samþykkt frv. og stendur að sameiginlegum flutningi brtt. í 14 töluliðum á þskj. 263, og um sérstök 2—3 atriði flyt ég svo brtt. á þskj. 338, sem eru þess eðlis, að afstaða mín til málsins í heild er óbreytt, þó að þær næðu ekki fram að ganga.

Það er rétt, sem hv. frsm. gat hér um í ræðu sinni á næstsíðasta þingfundi, að það hefur engin ýtarleg löggjöf verið til á Íslandi um þessi viðkvæmu og víðtæku mál, lyfjasöluna, sem snertir nærri því hvert mannsbarn i landinu, nema tilskipun um lækna og lyfsala frá 1672, frá 17. öld, en hefur fram til þessa verið talin sá lagagrundvöllur, sem þessi starfsemi hefur byggzt á í aðalatriðum. Þetta er eins konar kúríositet, og vil ég vona, að hæstv. forseti taki það ekki illa upp fyrir mér, þó að ég verji einni eða tveimur minútum, meira verður það ekki, til þess að lesa upp 2–3 atriði úr þessari þýðingarmiklu tilskipun, konunglegu tilskipun frá 17. öld, sem er enn þá prentuð í lagasafninu og á þeirrar tíðar máli. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, fyrst:

„Enginn má halda nokkra lyfjabúð, nema hann hafi þar til allranáðugast leyfisbréf Vort (og vort er skrifað með stórum staf, af því að þar er átt við konunginn sjálfan) og hafi unnið Oss eið (og oss er með stórum staf líka í lagasafninu) .“

Þar segir enn fremur, að lyfsalar skuli „jafnan hafa á boðstólum í lyfjabúðum sínum góð, ný, ósvikin og óskemmd simplicia og materalia, svo og alls konar præparata og composita, sem til eiga að vera í velbirgri lyfjabúð.” Þarna er slett latínu, og skal ég ekki ábyrgjast, að rétt sé fram borin hjá mér latínan, því að enginn latínumaður er ég.

Þá segir, að lyfsalar skulu „eigi láta neina töf verða á tilbúningi lyfjanna, heldur afgreiða sjúklingana svo fljótt sem þess er kostur og hafa lyfjabúðir sinar opnar virka daga og helga, nótt og dag“ — engin miskunn með það.

Svo kemur hér atriði, sem oft hefur orðið að taka til í framkvæmd, og það er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ef nokkurri lyfjabúð verður bersýnilega ábótavatn fyrir vanhirðu og fyrirhyggjuskort, þá skal lyfsali hafa fyrirgert leyfi sínu og lyfjabúð hans lögð niður og önnur sett á staðinn.“

Þá er hér um eftirlít með lyfjabúðunum. Þar er gert ráð fyrir í tilskipuninni, að árlegt eftirlít fari fram, og segir þar. „Skal honum (þ.e. eftirlitsmanninum) fyrirstöðulaust sýnt, annaðhvort af lyfsölum sjálfum eða sveinum þeirra,“ — allt, sem eftirlitsmaðurinn biður um að fá að skoða, það skal honum fyrirstöðulaust leyft að skoða og honum sýnt það. Þetta dettur mér í hug að dvelja við, vegna þess að ein till. eftirlitsmanns lyfjabúða vék að því, að honum gæti verið bagi að því í rannsókn gagnvart lyfjabúð að þurfa að leita sérstaks umboðs ráðh., og taldi, að árangur gæti í vissum tilfellum aðeins fengizt af rannsókninni um, hvort um misferli hefði verið að ræða, með því að geta strax heimtað að skoða allt bókhald og hvað eina hjá lyfjabúðareigandanum. En á það hefur ekki verið fallizt að breyta frv. að þessu leyti eftir till. eftírlitsmanns lyfjabúða, þykir ganga of nærri lyfjabúðareiganda, og menn telja, að leyfi ráðh. mundi í þessum tilfellum fást svo fljótt, að ekki kæmi til baga. En mér sýnist tilskipunin þó eiginlega vera afdráttarlausari um þetta en till., sem nú er uppi um að leysa þetta mál.

Svo er gert ráð fyrir því, að brot kunni að verða á þessari tilskipun og þá skuli sektirnar vera 100 ríkisdalir og 1/3 falli „til Vor“, þ.e.a.s. til konungs, annar „til borgmeistara og ráðs“ og þriðji til lyfsalans í viðkomandi bæ, þar sem brotið hefur átt sér stað. Þannig áttu hinir 100 ríkisdalir að skiptast. Sektarákvæðið er mjög hátt að þeirra tíma peningagildi.

Svo liður rúm öld, en 1797 er gefið út kansellíbréf til stiftamtmanns um lyfjasölu. Og það er út af því, að landlæknir, sem þá hafði ekki setið lengi í landi voru, hefur kært yfir því, að kaupmenn norðanlands séu farnir að verzla með ýmiss konar lyf, og vill ekki þola það og leitar til hins konunglega heilbrigðisráðs. Og þetta bréf er tekið fyrir í Danmörku af hinu konunglega heilbrigðisráði og fallizt á skoðun landlæknis um það, að slík verzlun með lyf af hinum og þessum kaupmönnum megi ekki eiga sér stað og sé brot á tilskipuninni frá 1672. Þetta er í raun og veru aðallagagrundvöllurinn undir lyfjasölunni um aldir á Íslandi, og er þar fátt um lagasetningu aðra, þegar sleppir konunglegu tilskipuninni og kansellíbréfinu.

Næstu lög um tilbúning og verzlun með lyf eru lögin um tilbúning og verzlun með ópíum 1923. Og svo koma 1935 lög um heimild fyrir rannsóknastofu ríkisins til lyfjasölu í sambandi við rannsóknir sínar. En þá held ég líka, að allt sé tæmt, sem til lagagrundvallar má teljast fyrir lyfjasölu í landinu. Efni l. frá 1935 fellur nú inn í þennan lagabálk, sem hér er til umr., og var þá skoðanamunur um það, hvort rannsóknastofur ríkisins ættu að halda þeim rétti, sem þeim er heimilaður í l. frá 1935. En ofan á verður það, að þær skuli mega verzla með þau lyf, sem rannsóknir þeirra miðast við, bæði rannsóknastofa háskólans og aðrar rannsóknastofur ríkisins.

Ég skal ekki dveljast lengur við þetta, en þetta sýnir tvímælalaust, að þessi löggjöf, sem til hefur verið fram að þessu um lyfjasölu, er allsendis ófullnægjandi um svo þýðingarmikil og viðkvæm mál.

Á grundvellí þessarar tilskipunar og kansellíbréfsins hafa svo verið byggðar ýmiss konar reglugerðir, og telja lögfræðingar vafasamt, hvort þær mundu hafa lagagildi, ef á það reyndi.

Efni lagabálksins skal ég ekki fara út í. Það hefur nú verið rakið, aðallega að því er snertir ágreiningsatriðin, en mjög er löggjöfin í heild sniðin eftir hinni dönsku lyfsölulöggjöf og þó alls staðar kannað vandlega, hvað henti íslenzkum staðháttum, og hafa þar margir um fjallað, eins og margupplýst er.

Allt frá tilskipuninni hefur verið miðað við það, að lyfjasalan væri einstaklingsbundin, og er enn þá gert ráð fyrir því í þessu frv. Frá þessu hafði þó verið vikið allsnemma, þ.e.a.s. þegar Reykjavíkur Apótek var stofnað, en það mun vera á 18. öld, sem það hefur sína starfsemi. Og þar hefur það gilt, að lyfjabúð sú, án tillits til þess, hver væri eigandi hennar á hverjum tíma, hefði lyfsöluréttindi. Að öðru leyti hafði allt lyfsöluleyfi alltaf verið bundið við ákveðið nafn einstaklings. Svo kom það til, með því að það þótti ekki bannað með tilskipuninni frá 1672, að samvinnufélagi var heimilað að setja upp lyfjabúð. Það var Kaupfélag Eyfirðinga, sem setti upp slíka lyfjabúð, og nokkru síðar fékk Kaupfélag Árnesinga einnig sams konar leyfi, og hafa þá verið hér um nokkurt skeið þrjár lyfjahúðir, sem ekki hafa verið með persónubundið leyfi.

Í þessu frv. er ætlazt til, að hið óhlutbundna leyfi Reykjavíkur Apóteks haldist og við því sé ekki hróflað. En að því er snertir leyfin, sem tvö samvinnufélög hafa þegar haft, er lagt til í þessu frv., að þeirra leyfi verði framlengd í 25 ár og megi síðan framlengja þau áfram á 25 ára fresti, en ekki gert ráð fyrir því, að nein önnur samvinnufélög en þau tvö, sem nú hafa slíkt lyfsöluleyfi, fái þau. Þetta tel ég ástæðu til þess að taka skýrt fram, því að að þessum atriðum lúta tvær af brtt. þeim, sem ég flyt. Nú er sem sé komin löng reynsla á rekstur Reykjavíkur Apóteks, og það hefur verið talið ein af höfuðlyfjabúðum landsins og ekki þótt koma að neinni sök. þó að hinn hátturinn almenni væri ekki á hafður að binda leyfi til rekstrar þeirrar lyfjabúðar við nafn. Allir eru og sammála um, að það fyrirkomulag megi haldast, þó að þessi löggjöf verði sett. Allir, sem um hafa verið spurðir, hvernig rekstur lyfjabúðanna hjá Kaupfélagi Árnesinga og Kaupfélagi Eyfirðinga hafi farið úr hendi, hafa og vottað það, að þær lyfjabúðir séu reknar af myndarskap og ekkert upp á rekstur þeirra að klaga, og komi ekki til mála að takmarka eða svipta þau félagasamtök leyfi af þeim sökum.

Það hafa aðeins verið færð fram ein rök frammi fyrir heilbr.- og félmn., og þau rök flutti hv. formaður n. í sinni ræðu. Það voru þau rök, að það væri auðveldast að koma fram ábyrgð gegn einstakri persónu, ef misferli yrði með lyfjasöluna, og skal því ekki neitað, að það er e.t.v. eitthvað til í þessu. En þó er samkv. þeim ákvæðum, sem í frv. eru og eiga að gilda í þau 25 ár, sem þau samvinnufélög, sem lyfsöluleyfi hafa nú, eiga að búa við, gert ráð fyrir því, að sérfræðingurinn, sem þau eru skyldug til að hafa, sé að öllu leyti ábyrgur á sama hátt og forstöðumenn hinna einstaklingsbundnu lyfjabúða. Fæ ég því ekki séð annað en þannig sé um búið, að lögum verði fyllilega fram komið við hinar félagsreknu lyfjabúðir, á sama hátt og gagnvart hinum, svo að mikið virðist ekki leggjandi upp úr þessum einustu rökum, sem ég hef um þetta heyrt.

Í. brtt. mín á þskj. 338 er við 7. gr. frv. Í 7. gr. frv. segir, að lyfsöluleyfi verði aðeins veitt einstaklingum. En ég legg til, að þessi hluti greinarinnar hljóði svo:

„Leyfi til að reka lyfjabúð (lyfsöluleyfi) má veita einstaklingum, sveitarfélögum, sjúkrasamlögum, samvinnufélögum, svo og Háskóla Íslands. Leyfishafa er skylt að hlíta ákvæðum laga og stjórnarvaldsreglna, svo sem þau eru á hverjum tíma, um réttarstöðu hans og starfshætti, þ. á m. um búnað, fyrirkomulag og rekstur lyfjabúða.“

Sem sagt, þessar félagsreknu lyfjabúðir, sem hérna er lagt til að verði heimilaðar, búi að öllu leyti við sömu lagaskyldur og einstaklingsreknu búðirnar. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki óeðlilegt, að sveitarfélag hafi heimild til þess að geta fengið lyfsöluleyfi. Ég tel einnig eðlilegt, að sjúkrasamlög hafi slíka heimild. Og samvinnufélög, félagssamtök fólks í heilum byggðarlögum, eru e.t.v. líklegust allra aðila til þess að rækja þessa nauðsynlegu verzlun í almenningsþágu á ódýrari og hagkvæmari hátt og þó jafnöruggan og einstakur lyfsali gerði það, og gæti e.t.v. verið, að fámennt hérað risi ekki undir því, að sjálfstæð lyfjabúð væri þar. Mætti þá e.t.v. hugsa sér þetta sem deild í hinni almennu félagsverzlun viðkomandi sveitarfélags, gæti e.t.v. orðið til þess að tryggja ódýrari lyf en ef þetta skyldi vera lyfjabúð einstaklings, sem hefði ekki nema takmarkaða aðstöðu til annars verzlunarrekstrar.

Það eru þessir þrír aðilar: sveitarfélögin, sjúkrasamlögin og samvinnufélögin, sem ég legg til að fái heimild til lyfjasöluleyfis auk einstaklinga, og svo Háskóli Íslands. Háskóli Íslands hefur á hendi kennslu í lyfjafræði. Þar eiga lyfjafræðingarnir að fá sína menntun, og það er vitanlega hagkvæmt að hafa fullkomna lyfjabúð við höndina í sambandi við þessa kennslu lyfjafræðinganna. Og það heyrðist mér á sérfræðingunum, sem mættir voru á fundi heilbr: og félmn., að þeir féllust á. Þeir töldu, að það væri eðlilegt, að háskólinn hefði slíkan rétt, og þetta lyfjabúðarhald háskólans yrði þáttur í kennslu lyfsalanna, yrði eins konar kennsluapótek. Hins vegar tók rektor það fram, að þetta væri ekki aðkallandi mái fyrir háskólann eins og stæði, það væri naumast aðstaða til þess að koma þessu upp. En ég tel, að þegar verið er að setja ýtarlega löggjöf, sem markar tímamót um lagasetningu í þessu efni, þá sé ekki óeðlilegt, að háskólinn sé þarna tekinn með, þegar flutt er brtt. um, að fleiri en einstaklingum veitist lyfsöluleyfi.

Ég held, að ástæðulaust sé að fara mörgum orðum um þetta. Skoðanir kunna að vera skiptar um. það, hvort hinni gömlu aðalreglu eigi að halda að veita engum lyfsöluleyfi nema einstaklingum, þrátt fyrir þá góðu reynslu, sem fengin er bæði af félagsreknum lyfjabúðum og lyfjabúð, hverrar lyfsöluleyfi er ekki bundið við persónu eða nafn, og um þetta hefur margoft verið rætt á undanförnum árum, að sjúkrasamlög ættu að hafa rétt til lyfjasölu, og margir þeirrar skoðunar, að samvinnufélög ættu að hafa hana, — og því þá ekki sveitarfélög undir vissum kringumstæðum einnig?

A- og b-liðir 2, till. minnar eru bein afleiðing af því, að ég legg til með minni 1. brtt., að félagsreknar lyfjabúðir megi starfa hér á landi, og eru þannig viðbót við 9. gr., þannig að orðalagið sé allt miðað við, að lyfjabúðirnar séu ekki aðeins í höndum einstaklinga, heldur einnig félagsreknar lyfjabúðir.

Ég legg til í fyrsta lagi, að næstsíðasta mgr. 9. gr. orðist svo:

„Forstöðumaður félagsrekinna lyfjabúða skal fullnægja ákvæðum 1. mgr. (tölul. 1–6), og ber að auglýsa stöðu hans samkv. ákvæðum 7. gr., og skal ráðh. samþykkja ráðningu hans að fenginni umsögn samkv. 3. mgr. 7. gr.“ Umsókn hins ábyrga sérfræðings, sem félagsrekin lyfjabúð verður að hafa, skal sæta sömu meðferð og umsókn lyfsala, sem fengið hefur persónulegt leyfi eða er að sækja um persónulegt leyfi. Það er nefnd sérfræðinga, sem á að fjalla um þetta, og náttúrlega á svo ákvörðunin að hvíla i hendi ráðh.

B-liðurinn er svo hljóðandi: „Áður en leyfisbréf er afhent, ber lyfsala að undirrita heit um, að hann muni rækja störf sín af kostgæfni og samvizkusemi og í samræmi við landslög.“ Þannig hljóðar gr. nú í frv. Svo kemur viðbótin: „Gildir þetta einnig um forstöðumann lyfjabúðar, sem rekin er af sveitarfélagi, sjúkrasamlagi, samvinnufélagi eða af Háskóla Íslands.“ Svo heldur greinin áfram eins og hún er: „Svo og um forstöðumann lyfjaútibús, sbr. 43. gr., og um forstöðumann lyfjagerðar, sbr. 13. gr. Ráðh. ákveður form ofangreindrar yfirlýsingar eða heitstafs.“

Það nýja í þessu er eingöngu ákvæðið um, að félagsreknu lyfjabúðirnar skuli allar lúta sömu kvöðum og öllum sömu lagaskyldum og einstaklingsreknu lyfjabúðirnar.

Þá er 3. brtt. mín um það, að 17.—19. gr. að báðum meðtöldum falli niður, þ.e.a.s. IV. kafli frv. Sá kafli fjallar að engu leyti um sölu lyfja og á því að mínu áliti ekki heima í lyfsölulöggjöf. Þessi kafli fjallar einungis um, hvernig með skuli fara, ef kjaradeila verði milli félags lyfsala annars vegar og félags lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga hins vegar, og skuli þá gerðardómur, sem báðir aðilar kosti og skipaður er með ákveðnum hætti, skera úr deilunni. Þar með er vikið frá þeirri málsmeðferð, sem nú er í gildandi vinnulöggjöf, að fyrsta stig deilu sé það að vísa henni til sáttasemjara ríkisins, og hefði ég talið það eðlilegra, að hér yrði einnig mál á deilustigi látið ganga til sáttasemjara ríkisins, en ekki til sérstaks gerðardóms. Efnisatriði kaflans að öðru leyti eru í ýmsum atriðum mjög áþekk núgildandi lögum eða lagaákvæðum í vinnulöggjöfinni, lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, og held ég, að allur þessi kafli, sem fjallar um kjaradeilur og hvernig með skuli fara og leysa, eigi ekki heima í lyfsölulöggjöf, heldur ef ástæða þykir til að setja vinnulöggjöf um þessa stétt, þá eigi að fella þann kafla inn í núgildandi vinnulöggjöf. Ég tel og óeðlilegt að taka lyfsölustéttina eingöngu og setja um hana sérstaka vinnulöggjöf. Því þá ekki um lækna, því þá ekki um hjúkrunarlið og aðrar hliðstæðar stéttir? En ég hef ekki séð neina tilburði í þá átt að setja sérstaka vinnulöggjöf um þær stéttir. Það er líka nokkuð misráðið að fara að setja vinnulöggjafarákvæði um hverja einstaka stétt. Þau mál á öll að leysa með almennri vinnulöggjöf. Af þessum ástæðum hef ég lagt til, að þessi kafli sé felldur út úr þessu frv., og sé ekki, að hann sé í neinum tengslum eiginlega við hin miklu lyfsöluvandamál, sem þessi lagabálkur á að koma í fast og lögbundið form.

Fleiri orð skal ég nú ekki hafa um málið né heldur um mínar brtt. Ég hef þegar gert grein fyrir þeim. Ég tek það að síðustu fram, að ég tel mikla nauðsyn á, að þessi löggjöf verði sett, og vil sem sé stuðla að því, að málið fái hér afgreiðslu, þá að svo kynni jafnvel að fara, að mínar brtt. yrðu felldar. En ég tel, að þær eigi þó að samþykkja. Þessi lagabálkur snertir unga og gamla í landinu, karla og konur, sem sé alla Íslendinga eða getur snert, og það er allt of illa um það búið í löggjöfinni eins og er, að þessi mál séu framkvæmd á öruggan og þó þann hátt, að öllum sé fyrir beztu. En ég held, að þessi löggjöf, þó að vafalaust kunni að finnast á henni við reynsluna ýmsir vankantar, þá sé hún mikilsvert lagasetningarverk, sem við séum stórum bættari að koma fram.