05.03.1963
Neðri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

54. mál, lyfsölulög

Jón Skaftason:

Herra forseti. Hv. tveir síðustu ræðumenn hafa rakið ýtarlega efni þess frv., sem hér er til umr., og skal ég litlu við það bæta, sem þeir hafa sagt um efni frv., enda stend ég að afgreiðslu þess ásamt meðnm. mínum í heilbr: og félmn. þessarar hv. d.

Ég held, að vart geti leikið á því vafi, að þörf sé fyrir lagasetningu sem þá, sem við erum nú að ræða hérna. Það hefur verið upplýst í hv. deild, að engin heildarlöggjöf er til á Íslandi um meðferð lyfja. Það getur því ekki verið ágreiningur um þörfina á þessu frv. Hins vegar kom það fram í n., að nm. voru ekki sammála um öll þau atriði, sem frv. felur í sér, og höfum við tveir hv. nm., ég og hv. 4. landsk., flutt brtt. um þau stærstu ágreiningsatriði, sem í n. voru um frv. Hv. 4. landsk. gerði grein fyrir tillöguflutningi sínum hér áðan, og vegna þess að málflutningur hans um þær getur að mjög vissulegu leyti gilt sem rökstuðningur fyrir tillöguflutningi mínum, af því að brtt. mínar og hans eru að mestu leyti samhljóða, þá get ég verið mjög stuttorður i því, sem ég segi hér á eftir um þær.

Sá ágreiningur, sem kom fram í hv. heilbr-.og félmn. um efni 7. gr. frv., er aðalágreiningsefnið. Í frv. er gert ráð fyrir því, að lyfsöluleyfi skuli vera bundið við persónur, vera veitt einstökum mönnum. Ég fæ ekki séð, hvaða rök mæla með því að binda þessa leyfisveitingu svo þröngum skilyrðum. Í 7. gr. er að finna ákvæði um það, hvernig með umsóknir um lyfsöluleyfi skuli fara, eftir að það hefur verið auglýst laust. Sú athugun, sem á að fara fram, áður en leyfi er veitt, á að vera mjög nákvæm. Þetta ætti að tryggja það, að lyfsöluleyfi gætu ekki aðrir fengið en þeir, er rækt gætu þennan starfa á viðunandi hátt. Enn fremur ráðgerir frv., að eftirlit með störfum lyfsala skuli vera strangt og hægt sé að svipta leyfishafa leyfinu, hvenær sem hann verður uppvís að brotum. Þetta hvort tveggja ætti að mínu viti að tryggja það, að meðferð þessara mála væri í góðu lagi. Og ég held, að almannahagsmunir væru betur tryggðir, ef leyfisveitingin væri ekki eingöngu bundin við einstaklinga.

Ég vildi í því sambandi aðeins taka fram, að ekki er ósennilegt, að í ýmsum héruðum þessa lands, sem einstaklingar hafa ekki áhuga á að setja upp lyfjabúðir í, vegna þess að fámenni sé þar of mikið og því ekki nægilega arðvænlegt að reka þar lyfjabúð, að á slíkum stöðum geti félagsreknar verzlanir, sem eru þar fyrir, séð sér fært að veita þessa nauðsynlegu þjónustu. Og ég fæ ekki séð, að nokkur rök mæli með því, að þeim skuli fyrirmunað að gera það. Ég hef því leyft mér, eins og hv. 4. landsk. þm., að flytja brtt. við ákvæði 7. gr. frv., er gengur út á það, að ekki einasta skuli heimilt að veita einstaklingum lyfsöluleyfi, heldur geti verið heimilt að veita sveitarfélögum, sjúkrasamlögum, hvers kyns félögum og svo Háskóla Íslands slík leyfi. Munurinn á brtt. hv. 4. landsk. þm. og minni er sá, að hann bindur leyfisveitinguna við samvinnufélög. Ég vil, að félög almennt, sem hafa skilyrði og aðstöðu til þess að reka lyfjabúðir, geti haft möguleika á að fá slíkt leyfi.

Við 9. gr. flyt ég brtt., sem er nánast afleiðing þeirrar brtt., sem ég hef flutt við 7. gr. frv., og er því ástæðulaust að fara um hana mörgum orðum. En ég vil mótmæla því, að nokkur ástæða sé til þess um þau tvö samvinnufélög, sem nú hafa lyfsöluleyfi, að leyfi þeirra skuli tekin til endurskoðunar á 25 ára fresti og þurfi þá að endurnýja þau. Lyfsöluleyfi samvinnufélaganna tveggja hafa verið veitt á sínum tíma án slíkra skilyrða, og ekkert tilefni hefur gefizt til þess að æskja breytinga á því. Ég tel því óeðlilegt að setja ákvæði í lögum nú, mörgum árum eftir að leyfin hafa verið veitt, er breyti þessu. Það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að halda því fram, að þessi sjálfkrafa réttindamissir samvinnufélaganna sé nauðsynlegt aðhald vegna eftirlits og góðs rekstrar í lyfjabúðum þeirra, því að frv. gefur bæði landlækni og ráðh. fullnægjandi vald til aðhalds, eftirlits og réttindasviptingar, ef ástæður krefjast. Því hefur ekki heldur af nokkrum verið haldið fram, að lyfjabúðir þessara tveggja samvinnufélaga þurfi eða séu verr reknar en aðrar lyfjabúðir í landinu, sem eru í einkaeign, enda falla þær að öllu leyti undir ákvæði þessara laga, hvort félagsformið sem notað er. l grg. frv. er ekki heldur gerð nein tilraun til þess að leiða rök að því, að félagsreknar lyfjabúðir njóti síður tillitssemi til almenningsheilla en lyfjabúðir í einkarekstri. Væri og erfitt að heimfæra slíkt. Má jafnvel ætla, að þjónusta lyfjabúða samvinnufélaganna við almenning sé á ýmsan hátt meiri en annarra lyfjabúða í landinu, og þegar af þeirri ástæðu sízt ástæða til þess að láta þau búa við annan og verri rétt en aðrar lyfjabúðir.

Eins og ég sagði áðan, hafa tveir hv. síðustu ræðumenn rakið efni þessa frv. allýtarlega, og m.a. hefur frsm. hv. heilbr.- og félmn, getíð þeirra umsagna, sem borizt hafa um frv. Ég tel, að frv. þetta sé mjög nauðsynlegt og að undirbúningur þess hafi á margan hátt verið góður. Ég held líka, að í hv. d. sé ekki ágreiningur um að hraða afgreiðslu þessa máls, því að þörfin fyrir það er mikil. En ég fæ ekki skilið þær röksemdir, er leiða til þess, að lyfsöluleyfi skuli vera einstaklingsbundin. Ég tel jafnvel, að hagsmunir lyfsalastéttarinnar falli ekki allir á sama veg í þessu máli, þannig að allir lyfjafræðingar hafi ekki hagsmuni af því, að þessu fyrirkomulagi sé haldið. Í því sambandi vil ég upplýsa, að nú munu vera starfandi í landinu um 23 lyfjabúðir, en tala lyfjafræðinga mun vera a.m.k. 50, og sennilegt er, að í framtíðinni verði tala starfandi lyfjafræðinga miklu hærri en lyfjabúða, sem í gangi eru, þannig að það gefur auga leið, að ekki geta allir lyfjafræðingar verið eigendur og rekið lyfjabúðir.

Hv. 4. landsk. þm. flytur till. um það á þskj. 338, að IV. kafli frv., sem fjallar um vinnudeilur og kjarasamninga, falli niður. Ég er ekki sammála þessari brtt. hans af þeirri ástæðu, að fullt samkomulag er á milli lyfsala annars vegar og lyfjafræðinga hins vegar um efni IV. kafla frv., hvernig með skuli fara, ef til vinnudeilu dregur í þessari starfsgrein, og ég tel, að það samkomulag, sem ríkir milli þessara aðila, eigi í heiðri að hafa og þess vegna eigi IV. kaflinn að standa í frv. óbreyttur, eins og hann er þar nú.