05.03.1963
Neðri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

54. mál, lyfsölulög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka góðar undirtektir við þetta frv., sem mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa, eins og fram hefur komið. Það má segja, að það sé nærri því nú í heilan mannsaldur verið búið að vinna að þessu máli. Það var um 1920, sem athuganir hófust fyrst á undirbúningi þessa máls, og a.m.k. frá því um 1940 hafa öðru hvoru verið frv. um málið fyrir Alþ. og margir menn þar hönd á lagt. Og lengst af hefur verið ágreiningur um ýmis höfuðatriði málsins. Nú orðið má segja, að tekizt hafi að útrýma flestum meiri háttar ágreiningsefnum, svo að það eru aðeins aukaatriði, sem menn deila um. Eins og fram hefur komið hjá þeim þremur nm., sem talað hafa, skilst mér, að þeir séu allir sammála um að leggja með samþykkt frv., hvað sem verður um einstakar brtt. Það er vitað mál, að bæði fyrrv. landlæknir, Vilmundur Jónsson, og núv. landlæknir, dr. Sigurður Sigurðsson, hafa lagt mikla vinnu í þetta mál, og það er ekki sízt þeirra forgöngu og þeirra aðstoðarmanna að þakka, að svo vel hefur tekizt að eyða ágreiningsefnum sem raun ber vitni.

Ég vildi aðeins gera aths. við það, sem hv. 4. landsk. þm. gat um, þar sem hann setti réttindi Reykjavíkur Apóteks að jöfnu við réttindi þeirra tveggja lyfjabúða, sem samvinnufélög reka. Ég skal ekki fara út í lögfræðilegt þvarg um það efni, en ég hygg þó, að réttur Reykjavíkur Apóteks sé alveg með sérstökum og einstæðum hætti hér á landi, þannig að það sé ljóst, að ekkí væri hægt að taka réttinn af þeirri lyfjabúð nema með fullum skaðabótum, þar sem slíkt hið sama gildir ekki um þessar tvær hinar lyfjabúðir, án þess að hægt sé að fara út í það mál frekar. En það er ljóst, að Reykjavíkur Apótek eitt hefur alveg sérstöðu meðal íslenzkra lyfjabúða. Það er einnig rétt, að það komi hér fram, að fyrir utan Reykjavíkur Apótek eru tvö lyfsöluleyfi tengd við ákveðna menn, þ.e. eiganda Laugavegs Apóteks og Akureyrar Apóteks, hygg ég, að það heiti. Þau leyfi, sem þessir tveir menn hafa, eru bundin nokkrum forréttindum þeim til handa, en þó hvergi nærri eins ríkum og Reykjavíkur Apótek, þannig að það er ekki ástæða til þess að gera um þau neinn fyrirvara í lögum. En þeir fengu með þeim leyfum, sem þeim voru veitt, um 1920 — fyrir eða eftir, annað var a.m.k. fyrir 1920, hvort hitt var alveg á sama tíma eða ekki, þori ég ekki um að segja, — heimild til þess að hafa ríkari áhrif á val sinna eftirmanna en öðrum lyfsölum á landinu. En það er ekki neitt hliðstæður réttur, sem þeim er veittur, eins og Reykjavíkur Apótek eitt hefur.

Varðandi þau leyfi, sem tvö samvinnufélög hafa fengið, þá get ég mjög tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að mér hafa a.m.k. aldrei borizt til eyrna neinar ásakanir á þær lyfjabúðir um, að þær væru reknar öðruvísi en með gáðum og hliðstæðum hætti við aðrar lyfjabúðir, en heldur hef ég aldrei heyrt talað um neina kosti þeirra lyfjabúða umfram aðrar lyfjabúðir, og ég tek undir það, sem hv. frsm. n., 1. þm. Vestf., sagði um ástæðuna til þess, að ekki séu rök fyrir því að halda slíkum lyfjabúðum í framtíðinni, eða a.m.k. veita fleiri lyfjabúðum hliðstæðan rétt. Fyrst og fremst er það, eins og hann vitnaði til, að það verður flóknara og erfiðara, gegn hverjum eigi að koma fram ábyrgð, ef eitthvað ber út af. Er það þá forstöðumaður lyfjabúðarinnar, eða er það stjórn fyrirtækisins? Og það sama á í raun og veru við um brtt. hv. 4. þm. Reykn., sem ætlast til þess, að þessi réttur sé ekki aðeins veittur samvinnufélögum, heldur öllum félögum. Vafamál hlýtur að vakna upp, hvenær sem eitthvað ber á milli.

En til viðbótar þessum rökum, sem ég hygg raunar skera úr, vildi ég þó einnig benda á, að eftir þessu frv. er það ljóst, og um það er ekki ágreiningur, hvorki í frv. né í brtt., hvorki hv. 4. landsk. þm. né 4. þm. Reykn., að þá er veitingarvaldið á forstöðumanninum raunverulega hjá ráðh. Það er ráðh., sem hefur veitingarvaldið, jafnt hvort sem það er hjá einstaklingslyfjabúð eða félagsrekinni lyfjabúð, og orðalagið verður að skiljast þannig, bæði í frv. og í brtt., að það er ráðh., sem hafi innan þeirra marka, sem umsögn landlæknis og n. segir til um, úrskurðarvaldið, hverjum eigi að veita forstöðumannsembættið í þessum félagsreknu lyfjabúðum.

Ég er ekki óhræddur um, að í ýmsum tilfellum geti, þegar þannig stendur á, stofnazt til margháttaðs ágreinings milli þess, sem á að bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri lyfjabúðarinnar, og þess ráðh., sem á að veita forstöðumannsembætti á ábyrgð allt annarra aðila. Það er sök sér, að ráðh. velur úr hópi manna, sem sækja sjálfir um lyfjabúðarréttindi og vilja sjálfir reka lyfjabúð, bæði upp á sína fjárhagslegu ábyrgð og upp á sína persónulegu ábyrgð um rekstur lyfjabúðarinnar. En allt öðru máli gegnir, ef ráðh. á að fara að velja mann til þess að reka lyfjabúð upp á kostnað, hvort heldur samvinnufélags eða hlutafélags einhvers annarlegs hóps manna. Það er ekki einungis, — eigum við að segja, fræðileg forstaða, sem þarna veltur á, heldur skilst mér, að það hljóti ætíð að verða svo, að sá lyfjafræðingur, sem er forstjóri lyfjabúðar, sé þar ekkí einungis fræðimaður í sinni grein, hann er verkstjóri og hann er að vissu leyti verzlunarstjóri, sem á að reka fyrirtæki upp á annarra manna ábyrgð og kostnað fjárhagslega, ef till. hv. 4, landsk. þm. og 4. þm. Reykn. yrðu samþ. Það má segja, að þetta sé eftir frv. um þær tvær samvinnufélagslyfjabúðir, sem þegar eru fyrir hendi. Menn vilja sætta sig við það á báða bóga, vegna þess að enginn vill svipta samvinnufélögin þeim rétti, sem þau þegar hafa. En ég bið menn, án þess að við förum í ágreining um það, hvort sé heppilegri einstaklingsrekstur eða samvinnufélagsrekstur eða félagsrekstur, að hugleiða það, hvort þeir telji heppilegt, að misjafnir ráðherrar, eins og við hv. 4. landsk. þm. erum, eigi að tilnefna forstöðumenn fyrirtækja, sem einhverjir borgarar okkur meira eða minna geðfelldir eigi. Ég er hræddur um, að menn séu hér að efna til óvinafagnaðar og ágreinings, sem enginn vinningur sé við að efna til.

Ég játa, að ef menn fallast á það, að ráðh. eigi að hafa í þessu úrskurðarvaldið, þá megi segja, að frá heilbrigðissjónarmiði sé tryggilega frá þessu gengið. Ráðh. má ekki velja aðra en þá, sem búnir eru að ganga í gegnum hreinsunareld þessarar nefndar, sem lögskipuð verður, og landlæknis, en ráðh. hefur úrskurðarvaldið. En hvað verður þá um úrskurðarvald samvinnufélagsins eða félagsins, eftir því hvor brtt. er valin, yfir málefnum síns eigin félags, ef það er ráðh., sem raunverulega hefur valdið, eins og ég hygg að sé eftir öllum þeim till., sem hér fyrir liggja fyrir? Ég held, að hér sé verið að efna til vandræða, sem betra sé að komast hjá.

Hitt skal ég játa, að það getur vei farið svo, að eftir því sem lyfjabúðir verða dýrari og þörf verður á þeim víðar á landinu, þá kunni að vera ástæða til þess, að félagssamtök þurfi að leggja fé fram og beita sér fyrir, að þeim verði komið upp. Vel má vera, að sú verði reynslan. Ef það verður tryggilega frá því gengið, eins og í frv., um val forstöðumannsins, þá má segja, að frá því meginsjónarmiði, sem hér ræður, sé ekki við það neitt að athuga. En eigum við ekki að láta sjást, hvort þörf verður á því? Í þeim tveimur tilfellum, sem slíkar félagsreknar lyfjabúðir hingað til hafa verið stofnaðar, þori ég að fullyrða, að einstaklingar hefðu fengizt til að stofna þær lyfjabúðir, bæði á Akureyri og á Selfossi.

Það getur verið, að menn rekist á annað, t.d. nú í Dalvík, þar sem auglýst hefur verið lyfjabúð. Það getur verið, að enginn lyfsali vilji fara til Dalvíkur, og ef sú verður raunin, þá er ég fyllilega til viðtals um það, að opnaður verði möguleiki til félagsrekstrar. En ég trúi því vart, að sú verði raunin, og ég vil sjá, hver þróunin í þessu verður. Úr því að við erum búin að koma okkur saman um meginreglurnar, látum þetta þá þroskast. Meðan nógu mikils er krafizt af forstöðumanninum, þá er vei fyrir þessu séð, og þá er hitt einungis fjármálaatriði, hvort hann fær nógu mikið fé til þess að geta komið undir sig fótunum á einhverjum stað.

Mjög er eftirtektarvert við þessar umr., að fyrir 30–40 árum og þegar verið var að stofna þessar samvinnulyfjabúðir fyrst, hygg ég, að menn hafi hugsað, að gróðinn við rekstur lyfjabúða yrði svo mikill, að það yrði til hags fyrir samvinnufélögin, að fá þennan rekstur í sínar hendur. Nú er þeirri ástæðu alls ekki hreyft hér, heldur einungis hinni, að það geti orðið erfitt að fá lyfsala á tiltekna staði, nema félagssamtök efli hann. Við skulum bíða og sjá, hvort þróunin verður sú. Ef það kemur fram einn einasti staður, þar sem ekki fæst lyfsall til þess að setja sig niður, en rétt stjórnarvöld telja, að þörf sé þar á lyfsala, og félagssamtök, hvort heldur samvinnufélag, félag einstaklinga eða sveitarfélag eða sjúkrasamlag, vilja beita sér fyrir stofnun lyfjabúða, þá skal ég verða manna fyrstur til þess að veita því vinsamlega aðstoð.

Ég held, að ágreiningur okkar í þessu máll sé miklu minni, jafnvel í þessu aukaatriði, heldur en í fljótu bragði mætti ætla. Ég vil einungis endurtaka mínar þakkir fyrir vinsamlegar undirtektir við þetta frv., sem á mjög langa sögu. Og gleður mig mikið, að allir eru sammála um, að þörf sé á að fá þessa löggjöf setta, því að hvað sem þessu atriði liður, þá er vissulega þörf á því að fá ákveðnari, yfirgripsmeiri lyfsölulöggjöf fyrir Íslendinga en hingað til hefur gilt.