07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

54. mál, lyfsölulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð um sérstakt atriði í þessum lögum. Ég ckal segja það fyrst, að ég er fyllilega sammála þeirri afstöðu, sem hv. 4. landsk. hefur tekið um þetta mál, og þeim till., sem hann hefur flutt fram.

Viðvíkjandi því atriði, sem deilt hefur verið um hérna, hvort það sé bráðnauðsynlegt, að það séu einstaklingar einvörðungu, sem eigi lyfjabúðir, vil ég leyfa mér að benda á eitt atriði frá öryggissjónarmiði, sem ætti að vera nokkur rök í því máli. Ég held, að það væri yfirleitt öruggara, að forstjóri einnar lyfjabúðar væri ekki eigandinn með tilliti til öryggis almennings, þannig að það væri víst, að sá maður, sem stjórnar lyfjabúðinni, hafi ekki fyrst og fremst hagsmuni af að koma út í almenning hvaða lyfjum sem vera skuli. Ég held, að það sé ekki þarna um að ræða mál, sem maður eigi fyrst og fremst að athuga frá verzlunarlegu ágóðasjónarmiði, heldur frá því sjónarmiði að tryggja almenning, og sá maður, sem þarna stendur fyrir, hafi fyrst og fremst hagsmuni af að hugsa um heilsufar og heilbrigði almennings í þessum efnum, en ekki um gróða. Ég held, að það sé alveg þveröfugt við það, sem talað er um hérna af sumum, og þá má alveg jafnt koma fram allri lögfræðilegri ábyrgð á hendur slíkum forstjórum, þó að þeir séu ekki eigendur. Þess vegna held ég, að það, að t.d. sjúkrasamlögin, jafnvel ríkið sjálft, samvinnufélögin og aðrir ættu svona búðir, það væri heppilegra en ef einstaklingar ættu þær. En það er annað mál.

Það, sem ég vildi minnast á hér, er í sambandi við bæði 51. gr. og fleira. Það er viðvíkjandi sannprófuninni á gæðum lyfja og því spursmáli, hvar ábyrgðin sé á afleiðingunum, sem lyf kunna að hafa. Þetta er að verða stórmál í heiminum. Við vitum, að það er búið til ákaflega mikið af lyfjum nú, jafnhliða því, sem orðið hafa alveg stórkostlegar framfarir í þessum efnum, þannig að við höfum nú til allrar hamingju lyf, sem bjarga mönnum frá dauða bókstaflega. Veiki, sem fyrir 30–40 árum var mjög líklegt að leiddi til bana, er nú læknuð með þeim lyfjum, sem við höfum. En samtímis því, sem þessar gífurlegu framfarir hafa orðið, hefur farið svo eins og víðar um vísindauppgötvanir okkar á þessurr. síðustu áratugum, að við verðum að prófa okkur áfram og vitum ekki, hvert við erum að fara. Það hefur sýnt sig og er nú kunnugast nýlega í sambandi við thalidomid-lyfið, að lyf, sem hafa haft ágæt áhrif í svipinn á sjúklinga og gera þeim margt gott, þau hafa sýnt sig, þegar afleiðingarnar komu fram, öðruvísi seinna meir, að vera hin stórhættulegustu. Og við stöndum þarna frammi fyrir vandamáli, sem er orðið alþjóðlegt vandamál og er auðséð að raunverulega er langt frá því, að hinir einstöku aðilar geti tekið þar ábyrgð á.

Nú stendur í 51. gr., næstsíðustu mgr.:

„Enn fremur getur ráðh. með reglugerð skyldað fyrirtæki til að sannprófa á eigin kostnað gæði og hreinleik hinna innfluttu lyfja og lyfjaefna.“

Þetta er út af fyrir sig máske gott. En hvernig verður þetta í reyndinni? Hafa þessar lyfjabúðir og lyfsalar, jafnvel þó að ráðh. sé mjög strangur og setji ábyrgðina yfir á lyfjabúðirnar, hafa þær nokkra minnstu möguleika til þess að prófa þetta? Þær hafa kannske sumar einhverja ofur litla möguleika, en ég er hræddur um, að almennt séð hafi þær svo að segja enga möguleika til þess. Það hefur verið rætt um það á þingum Norðurlandaráðs undanfarið og sérstaklega í félags- og heilbrigðismálanefnd þess að reyna að koma á sameigintegri stofnun fyrir Norðurlönd til þess að rannsaka lyf, vegna þess að þær tilraunir, sem þarf að gera í þessum efnum, og allar þær vísindalegu rannsóknir, sem standa í sambandi við þetta, eru svo margbrotnar og flóknar og erfiðar, að meira að segja lönd eins og Norðurlönd, sem reyna þó núna hvert um sig að gera nokkuð í þessum efnum, þau treysta sér vart til þess án þess að vinna þarna saman. Og þetta mái er þegar alllangt komið, og ég álít mjög nauðsynlegt og heppilegt, að Ísland taki þátt í því.

Ég átti tal einmitt núna í Osló við einn af dönsku sérfræðingunum í þessum efnum, var að spyrja hann einmitt út frá thalidomidspursmálinu um þessi mál, og hann hafði þau orð við mig, að það væri svona, að menn mæltu með hinum og þessum lyfjum, sem sýndu sig hafa góð áhrif, en svo kemur seinna í ljós, að þau væru svona og svona. Og það gæti verið með svo og svo mikið af lyfjum, sem við værum með nú, sem kannske kæmu ekki fram afleiðingarnar á fyrr en eftir eina kynslóð. Sannleikurinn er sá, að með allt þetta, sem í dag er verið að setja í mat manna af þessum tilbúnu efnum, verið að setja í lyf, það er með þau rétt eins og kjarnorkuna og annað slíkt, við eigum e.t.v. eftir að uppgötva það löngu seinna, að með hinum ágætu áhrifum, sem þetta hefur á vissan máta og notað á vissan hátt, þá kann það að hafa svona og svona ægileg áhrif á hinn bóginn, og það að reyna að komast fyrir um þetta og rannsaka þessa hluti er náttúrlega fyrst og fremst verkefni stórra og góðra vísindastofnana. Og meðan ekki er búið að gera a.m.k. það, sem hægt er til þess að grafast fyrir um þetta, þá er nauðsynlegt að fara gætilega, og ég held, að hér heima hafi yfirvöldin verið mjög íhaldssöm, og ég segi það í lofsverðri merkingu, í því efni, að ég tel. Þau hafa verið mjög gætin yfirleitt.

En engu að síður er það svo, að þarna er um mál að ræða, þegar nú er verið að setja löggjöf, sem er eins mikið framfaraspor og þessi löggjöf er, þá er raunverulega nauðsynlegt, að það komi fram i lögunum, hvar er ábyrgðin. Við skulum segja, að það sýni sig, að einhver og einhver lyf hafi svona og svona slæm áhrif fyrir utan þau góðu áhrif, sem þau hafa. Hver ber ábyrgðina? Er það verksmiðjan erlendis, sem framleiðir þetta? Og hvaða ráðstafanir viljum við þá gera til þess, að sérhver fyrirtæki, sem flytja inn slíkar vörur, verði gerð ábyrg, að svo miklu leyti sem hægt er að framkvæma slíkt eftir íslenzkum lögum? Er það innflytjandinn, sem ber ábyrgðina? Er það lyfsalinn, sem selur þetta? Er það landlæknir eða ráðh., sem veitir leyfið til þess, að þetta sé flutt inn? Einhvers staðar í allri keðjunni verður raunverulega ábyrgðin að vera í þessum efnum, og þetta er mjög vandasamt mál. Víð vitum t.d., einmitt út af thalidomid-málinu, að bæði úti í Hollandi og annars staðar í Vestur-Evrópu er þegar í gangi mikil barátta um það að knýja fram málshöfðanir á móti þeim verksmiðjum, sem framleiða þau lyf.

Nú er það svo með þessi lyf, að mikið af þessum lyfjum, — og ekki gildir það sízt um öll þessi svokölluðu patentlyf, — þessi sérlyf mörg eru framleidd af ákaflega stórum fyrirtækjum, eins og t.d. þeim frægu þýzku fyrirtækjum, Beyers-fyrirtækjunum, fyrirtækjum, sem eru stundum liður í einhverjum stærstu auðhringum álfunnar, eins og Farbenindustri var t.d. liður í I.G.F. Og þessi fyrirtæki hafa í sinni þjónustu heilan her, þúsundir vísindamanna, sem vinna á þeirra laboratoría að því að framleiða þessa hluti, og það er náttúrlega fjöldi af vísindamönnum, sem er alveg ágætur. En um leið kemur annað til greina þarna, að þessi stóru fésýslufyrirtæki hafa mjög mikilla hagsmuna að gæta að koma út þessum lyfjum, sem venjulega kosta kannske árarannsóknir og tilraunir, þannig að þeirra fésýsluhagsmunir eru mjög miklir í því að auglýsa upp þessi lyf, auglýsa þau mikið, og jafnvel þá kannske ekki alltaf vandað eins og skyldi um rækilega prófun og allt slíkt.

A.m.k. er víst og það er alveg greinilegt, að stofnanir hins opinbera, annaðhvort alþjóðlegar eða samþjóðlegar, nokkurra þjóða eða þá einnar þjóðar, og það verður varla, nema um stórar þjóðir sé að ræða, þær þurfa raunverulega að sínu leyti álíka voldugar rannsóknastofnanir til þess að kontrolera að sínu leyti þessi lyf, eins og þeir stóru hringar, sem þetta hafa framleitt. Þess vegna er þarna um mjög þýðingarmikið atriði að ræða og nauðsynlegt, að þarna sé staðið vel á verði. Ég veit, að það er náttúrlega atriði, sem ekki verður neitt útkljáð með þessum lögum. En aðeins á hitt vildi ég benda, að það væri nauðsynlegt, að það væri kveðið nokkuð á um, hvar sú lögfræðilega ábyrgð sé í þessum efnum.