09.04.1963
Efri deild: 71. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

54. mál, lyfsölulög

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Við umr. um þetta mál hér í þessari hv. d., sem urðu í gær, komu fram óskir frá minni hl. í heilbr.- og félmn., þeim 9. þm. Reykv. og 1. þm. Norðurl. e., á þá leið, að n. tæki þær brtt., sem fram komu við 2. umr., til athugunar, áður en 3. umr. færi fram, og boðaði þá jafnframt landlækni á þann fund, svo að þeir minnihlutamenn gætu þar rætt við hann. Við þessum óskum var orðið, og fundur var haldinn í dag í n. og þar mætti landlæknir. Því miður hittist þannig á, að hv. 9. þm. Reykv. taldi sig ekki hafa tíma til að mæta vegna annríkis við önnur störf, og mætti hann því ekki á fundinum. Nú virðist hann vera það bundinn við störf sín úti í bæ, að hann geti ekki heldur komið hér á deildarfund, þar sem mál þetta er nú til umr. Ég vil taka fram, að ég lét hringja til hans fyrir u.þ.b. hálftíma og senda honum þau skilaboð að koma sem fyrst, vegna þess að lyfsölulögin væru að koma á dagskrá, en það virðist ekki hafa borið árangur.

Það er, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, liðið á þingtímann, það er mikið annríki í þinginu og þess vegna vissulega bezt að geta afgr. mál sem fyrst. Og ég sé ekki, að það séu frambærilegar ástæður til þess að fresta umr. um mál, þó að einhver þm., sem hefur brtt. fram að færa, geti vegna annarra starfa, sem eru þó, að ég hygg, hans venjulegu daglegu störf, ekki mætt hér. Það finnst mér ekki vera frambærilegt. Auk þess eru þeir minnihlutamenn að sjálfsögðu með sínum brtt. að berjast fyrir því, að frv. verði breytt, og ef eitthvað af þeim næði fram að ganga, þýddi það vitanlega, að málið þyrfti aftur að endursendast Nd.

Ég vil aðeins að lokum taka það fram, að ég tel, að meiri hl. heilbr.- og félmn. hafi sýnt þeim minnihlutamönnum fulla lipurð í meðferð þessa máls og tekið tillit til óska þeirra. En meiri hl. tekur ekki undir þá ósk, að umr. verði frestað að þessu sinni, þar sem hann telur ekki nægilega ríka ástæðu fyrir hendi.