17.04.1963
Efri deild: 74. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

54. mál, lyfsölulög

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. A síðasta degi þingsins fyrir páska var hér í hv. d. til 2. umr. frv. til lyfsölulaga. Ég fór þess á leit skriflega við hæstv. forseta, að 3. umr. yrði frestað þar til fram yfir páska. Ég átti annríkt þennan síðari hluta dags og gat ekki verið viðstaddur framhaldsmeðferð málsins, og þess vegna fór ég fram á þetta. Það má minna á, að þetta frv, er í síðari deild hér og ekki þurfti að tefja málið mikið, þótt orðið hefði verið við þessari málaleitan minni. Hæstv. forseti sá sér ekki fært að verða við bón minni. 2. umr. var lokið, málið tekið til 3. umr. sama dag og þeirri umr. lokið, en atkvgr. frestað þar til í dag. Þetta sýnir bezt, hversu auðvelt það hefði verið að fresta umr. í heild, 3. umr. Hér er um að ræða óvenjulegt atvik, að mínum dómi, hér í þessari hv. d., að verða ekki við slíkum tilmælum.

Þetta frv. til lyfsölulaga hefur valdið nokkrum ágreiningi hér í hv. d. Það hafa verið bornar fram brtt. Þær hafa verið ræddar. Ég stend upp nú til þess að láta í ljós fyrst og fremst mikla óánægju í garð forseta fyrir að hafa ekki orðið við tilmælum mínum, og ég geri það vegna þess, að hér er um mál að ræða, sem ekki aðeins hefur orðið deilumál hér í þessari hv. d., heldur varðar mjög öryggi alls almennings í landinu.

Ég benti á það við umr. um málið, að ég teldi ekki nógu tryggilega gengið frá vissum atriðum í þessu frv., og gerði brtt. um það efni. Ég tel sérstaklega ástæðu til og ég tel það réttlætanlegt, að ég segi það hér utan dagskrár, að 10. brtt. mín á þskj. 537 snertir mál, sem verður að teljast varða almannaheill.

Fyrir nokkrum missirum varð það uppskátt, að eitt sérlyf, sem sent var um öll lönd, hafði í notkun hræðilegar afleiðingar, enda þótt það aðeins væri tekið í venjulegum skömmtum. Ef konur á vissu stigi meðgöngu tóku þetta lyf, þótt í hófi væri, áttu þær á hættu að ala börn hræðilega vansköpuð. Hvað segir þessi saga? Hún segir: Framleiðendum lyfja er leyft að afhenda ný lyf allt of fljótt til ótakmarkaðrar sölu til almennings. Þetta er eitt ljósasta dæmi um, að það er ástæða fyrir heilbrigðisyfirvöld hvers lands að hafa hér gát á. Þetta er ekkert einsdæmi. Nýtt mál er nú á döfinni varðandi viss lyf, getnaðarvarnalyf, sem talið er að geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þá, sem þeirra neyta. Og öll svokölluð ávanalyf og nautnalyf síðustu ára eru með sama markinu brennd. Þeim hefur verið kastað út, leyfð á þeim ótakmörkuð sala, áður en reynsla var fengin fyrir verkan þeirra og áður en læknar eða almenningur gátu áttað sig á, að þau væru hættuleg. Við þessu sé ég sérstaka ástæðu til að vara, og þess vegna bendi ég á 10. brtt. mína, en með henni er sýnd viðleitni til þess að reyna að koma í veg fyrir slík mistök sem þessi hér á landi. Það á ekki að taka ný lyf á sérlyfjaskrá, fyrr en reynsla er fengin fyrir því, að þau, gefin inn í venjulegum skömmtum, hafi ekki skaðlegar aukaverkanir.

Þessa einu till. tel ég afsaka það, að ég stend upp nú og tala hér utan dagskrár. Og ég endurtek, að ég harma, að hæstv. forseti skyldi ekki vilja leyfa, að 3. umr. í heild bíði þar til nú eftir páska, enda er komið í ljós, að slíkt hefði ekki þurft að tefja málið um einn einasta dag.