01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

196. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Tryggingar eru með réttu taldar tákn menningar og mannfélagsþroska. Víðtækar almannatryggingar eyða ótta við fátækt og umkomuleysi. Þær eru bakhjarl manna, ef óhöpp steðja að, sem valda heilsutjóni, makar falla í valinn, og svo þegar ellin kemur til sögunnar. Menn, sem búa við víðtækar almannatryggingar, geta varla gert sér í hugarlund, hve blítt þeim lætur veröldin borið saman við þá, sem engar eða litlar tryggingar hafa. Við, sem nú lifum á Íslandi, megum í þessu efni sem fleirum minnast þess, hve hlutskipti okkar er miklu léttara en formæðra og forfeðra okkar var. Viðurkennt er, að almannatryggingar okkar Íslendinga eru eftir ástæðum vel sambærilegar við tryggingar nágrannaþjóða í flestum efnum, ekki sízt þegar á það er litið, hve til þess að gera er skammt síðan þær hófust fyrir alvöru.

Í tryggingamálum má segja, að sígandi lukkan sé bezt. Þess verður að mínu álíti að gæta að fara aldrei svo geyst, að reistur sé hurðarás um öxl, svo að hopa þurfi til baka og minnka tryggingabætur, af því að það er svo sársaukafullt, að það má helzt aldrei fyrir koma, nema þá samhliða komi annað til ávinnings fyrir bótaþegana í staðinn fyrir það, sem skert er.

Löggjöf um almannatryggingar, sem orðin er jafnvíðtæk og okkar, er flókin löggjöf og byggð í ýmsum atriðum á tölfræði, sem ekki er leikmönnum auðveld. Ekki má þó tölvísin ein ráða í þessari löggjöf. Löggjöf þessi verður líka í sumu að vera talsvert teygjanleg, ekki of óhnikanlegum bókstaf bundin. Þeir, sem framkvæma hana, verða að geta í þeim mörgu og fyrir fram óútreiknanlegu tilfellum, sem fyrir koma á vettvangi hennar, látið mannúðarsjónarmið ráða, en mannúðarsjónarmiðið er það fyrst og fremst, sem hún á að þjóna og er orðin til fyrir. Ég minni á þessi almennu sannindi, um leið og ég lýsi yfir því sem fjhn.-maður, að ég mæli með frv. því til l. um almannatryggingar, sem liggur hér fyrir, og einnig, að ég veiti meðmæli brtt. þeim, sem fjhn. leggur fram á þskj. 482.

Ég byggi meðmælin að verulegu leyti á þessum almennu sannindum. Enn fremur á því, að tryggingalöggjöfin verði fljótlega tekin til endurskoðunar á ný, því að slík löggjöf þarf helzt alltaf að vera í endurskoðun, ekki sízt hjá þjóð eins og okkar þjóð, sem atvinnulíf og starfshættir breytast ört hjá. Sú þjóð, sem þannig er í vexti, er gagnvart tryggingum eins og unglingur, sem vex árlega upp úr fötum sínum, enda getur látið meira og meira eftir sér í fataburði, jafnóðum og hann stækkar. Ég treysti því, að haldið verði áfram jafnt og þétt að betrumbæta tryggingalöggjöfina, nú séu engin síðustu forvöð í þeim efnum. Hins vegar er það vitað, að á þessu þingi hefur stjórnarandstaðan vonlitla aðstöðu í þessu máli sem öðrum til að koma fram sértill. Ég flyt þess vegna enga sértill.

Inn í þetta frv., sem er frv. til heildarlöggjafar, hafa, eins og sjálfsagt er, verið teknar þær breyt. allar, sem gerðar hafa verið smátt og smátt að undanförnu á tryggingalöggjöfinni. Afnám skerðingarákvæðanna, sem gekk í gildi 1. jan. 1961, er fellt inn í frv., eins og vera ber. Þetta afnám heyrir undir reglu hinnar sígandi lukku, sem ég kalla. Þá vil ég nefna annað þýðingarmikið ákvæði, sem gekk í gildi 1. jan. þ. á., að landið var gert að einu verðlagssvæði. Það var réttlætismál, sem ekki mátti seinna koma til framkvæmda, og er glöggt dæmi um það, að vaka þarf í þessum málum yfir því að fullnægja réttlæti, sem breyttir þjóðlífshættir eru stöðugt að skapa. Skipting landsins í v erðlagssvæði var á sínum tíma eðlileg vegna mismunandi lífskostnaðar á landinu, en hún var orðin óeðlileg sökum þess, að lífskostnaður var orðinn líkur um land allt. Unglingurinn hafði sem sagt vaxið upp úr stakknum, sem áður var rétt sniðinn.

Nokkrar bótahækkanir eru lagðar til í þessu frv., og þó einkum til samræmingar launahækkunum, sem orðið hafa. Vitanlega eru hækkunartill. langt frá því að geta mætt þeirri ofsalegu dýrtíðarhækkun, sem orðið hefur í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Sú dýrtíð vex daglega eins og ormur á gulli. Efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. hleyptu þeim ormi á gull þjóðarinnar. Gullið óx aldrei með orminum í þjóðsögunni, og sama gildir enn í reyndinni hér hjá okkur. Tryggingarnar gjalda þessa eins og önnur efnahagsstarfsemi almennings. Það er ekki hægt að þenja tryggingarnar út

til nægilegs mótvægis slíkri dýrtíð, því er miður. Hitt verður að leggja áherzlu á, að vinna á orminum sjálfum.

Ljóst dæmi um máttlitla tilraun verðlagsbóta eru fjölskyldubæturnar svonefndu. Í frv. segir í 23. gr.: „Útgjöld vegna greiðslu fjölskyldubóta greiðast að fullu úr ríkissjóði.“ Fjölskyldubæturnar eru því og hafa verið hin síðustu ár ekki annað en tilraun til beinna verðlagsbóta úr ríkissjóði. En Tryggingastofnunin annast útborgunina fyrir ríkissjóðinn. Vitanlega hefði ríkisstj. eins vel getað látið útborgun þessara verðlagsbóta vera í höndum embættismanna ríkisins, svo sem kjötstyrkurinn var á sínum tíma. Í sjálfu sér er nokkuð villandi fyrir almenning að taka á móti fjölskyldubótum úr höndum trygginganna, eins og þær væru tryggingafé, en um það skal ég ekki frekar ræða. Hitt er nauðsynlegt, að allir geri sér ljósa grein fyrir, að sú viðbót fjölskyldubóta, sem orðið hefur síðan hin rangnefnda „Viðreisn“ hófst, er lítilfjörleg verðlagsbót miðað við dýrtíðarfarganið. Ákveðið er, að þessi verðlagsuppbót skuli nú verða 3000 kr. vegna hvers barns. Má því segja, að aðalviðreisnarhækkun verðlagshótanna sé í því fólgin að taka upp bætur vegna fyrsta og annars barns, því að með þeim var ekki áður greitt, en mun hafa verið greitt með 4. barni og þar fyrir ofan áður nálega 2400 kr., svo að þar er aðeins um 600 kr. viðbót að ræða, og með 3 barni hálf sú upphæð, eða um 1200 kr. Og þetta, hvernig þessi hækkun er látin koma niður, er dálítið öfugsnúið. Verðlagsbæturnar eru mestar hjá þeim, sem hafa eitt eða tvö börn, sem sé þeim, sem yfirleitt ættu sízt að öðru jöfnu að þurfa stuðninginn, en eru hlutfallslega miklu minni handa þeim, sem hafa þunga ómegð. Ég lít svo á, að ekki hefði veitt af að endurskoða sérstaklega þennan hátt á verðlagsbótum. Ég drep á þetta, þó að ég telji tilgangslaust að bera fram till. til breyt. í þessu sambandi og geri það ekki, enda þarf málið rækilegri og tímafrekari athugunar en við er hægt að koma á þessu þingi.

Út af bráðabirgðaákvæðum laganna hafa komið fram aths. frá fulltrúum lífeyrissjóða stærstu og elztu bankanna, Landsbankans, Útvegsbankans og Búnaðarbankans, um skyldu þá, sem á þá lífeyrissjóði er lögð, eins og aðra lífeyrissjóði, að breyta sér til samræmis við, að allir meðlimir þeirra verði fullgildir aðilar að Tryggingastofnun ríkisins og ljúki fyrir lok þessa árs samningum sínum við Tryggingastofnun ríkisins um skil vegna sinna manna á iðgjöldum fyrir liðinn tíma. Mér sýnist nauðsynlegt að koma sem fyrst áformaðri skipan á um alla lífeyrissjóðsstarfsemi, eins og gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæðunum, svo að hinir einstöku lífeyrissjóðir utan almannatrygginganna verði allir, ef þeir starfa áfram, viðbótartryggingasjóðir hjá þeim starfshópum, sem þá sjóði hafa. Þess vegna er ég bráðabirgðaákvæðunum samþykkur, þrátt fyrir þær aths., sem hafa komið fram við þau. En jafnframt vil ég fyrir mitt leyti ganga út frá því, að í samningum við lífeyríssjóðina verði Tryggingastofnunin liðleg, taki t.d. útlánaskuldabréf gild sem greiðslur af þeirra hendi, ef sýnt er, að skil verða þeim að öðrum kosti þung í skauti.

Ég sá áðan, þegar ég settist t sæti mitt, brtt. á þskj. 486, sem hv. 9. þm. Reykv. leggur fram. Við fljótan yfirlestur og við að hlusta á skýringar þær á þessum till., sem hv. flm. gaf hér áðan í framsöguræðu sinni, get ég lýst því yfir, að ég vil ekki fyrir mitt leyti bregða fæti fyrir 1. og 2. till. Um 1. till. vil ég þó segja það, sem ég held að sé í samræmi við það, sem nefndin tekur fram, sú sem endurskoðaði lögin, í aths. sínum, að það hefði þurft nokkuð rækilega athugun á því, hvernig bezt væri að ná því réttlæti, sem með þessari till. er leitað eftir. Um 3. till. vil ég segja það, að ég er henni fyrir mitt leyti alveg samþykkur og mun styðja hana. Um 4. till. vil ég aftur á móti segja það„ að þó að ég álíti, að það hefði átt að gera samninga af hálfu þeirra, sem fara með ríkisvald og vinnuveitendavald, við launþegasamtök um vísitölunotkun, sem væri heilbrigðari og raskaði minna en sú, sem hér gilti áður, þá tel ég nú, að ég fyrir mitt leyti geti ekki fylgt því, að tekin sé upp vísitölunotkun í þessu eina sambandi, sem hér er lagt til, og er ég þó ekki að segja, að grunnupphæðir þær, sem þar er um að ræða, væri ekki æskilegt að hafa hærri en þær eru og hreyfanlegri líka í sambandi við það, sem kallað er óðadýrtíð. En ég lít svo á, eins og ég sagði áðan, að þessi löggjöf eigi yfirleitt að vera í vakandi endurskoðun og þannig eigi að samræma hana sem mest hverri líðandi stund og þeim breyt., sem þjóðlífið tekur.