01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

196. mál, almannatryggingar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja fundartíma hér með löngum ræðuhöldum, enda gerist þess naumast þörf, því að mér skilst, að allir hv. þm. séu mjög ánægðir og glaðir yfir því, að þetta mikla mál hafi hér komið fram, og ber því vissulega að fagna. Það er aðeins um eitt grundvallaratriði málsins, sem ég vildi segja örfá orð, en skv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hér eftir, eða frá næstu áramótum að telja, skuli allir fá bætur og ellilífeyri frá almannatryggingum, en lífeyrissjóðir allir verða viðbótarsjóðir við tryggingarnar. Ég skal taka það fram, að mín skoðun er sú, að þetta sé heilbrigð stefna, og það er ljóst, að með þeirri þróun, sem hefur verið nú síðustu ár, þá stefndi það mjög grundvelli almannatrygginganna í hættu, ef áfram hefði verið haldið á þeirri braut að veita sífellt fleiri lífeyrissjóðum viðurkenningu og þar með að skerða framlög manna til almannatrygginganna. Og það er vissulega til hagsbóta fyrir lífeyrisþega, ef sú skipan almennt kemst á, að lífeyrissjóðir verði viðbótarsjóðir við almannatryggingarnar.

Hitt er aftur á móti annað mál, að mjög vafasamt er, að það hafi verið skoðað alveg niður í kjölinn, hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir hina einstöku lífeyrissjóði, og hv. frsm. heilbr.- og félmn. vék lítillega að því í ræðu sinni hér áðan. Þetta hefur að vísu verið kannað varðandi lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og frv. um þann sjóð liggur hér fyrir í þessari hv. d. til afgreiðslu og verður væntanlega gengið frá því máli á þessu þingi. En hér hefur verið frá því skýrt, að borizt hafi andmæli til heilbr.- og félmn. frá ýmsum lífeyrissjóðum, vegna þess að þeir hafi talið, að athugun hafi leitt í ljós, að þeirra afkomu væri mjög stefnt í hættu með reglum þessa frv. Það hefur stundum verið sagt, bæði hér á þingi og utan þings, að bankavaldið í landinu væri mikils megnugt, en það virðist nú ekki vera meira megnugt en það, að það hefur ekki megnað að hafa áhrif á neinn meðlim heilbr.- og félmn. um að taka til greina þær aths. og ábendingar, sem komið hafa frá lífeyrissjóðum allra ríkisbankanna, en af hálfu þeirra hefur þetta mál verið athugað allrækilega í samráði við tryggingafræðing, og það hefur verið niðurstaðan af þeirri athugun, að með þeim ákvæðum, sem eru í þessu frv., og bráðabirgðaákvæðum þess væri mjög hætt við, að afkomu þessara lífeyrissjóða væri teflt í mikla hættu.

Nú skal ég ekkert um þetta fullyrða, og ég hygg, að útreikningar um þetta efni séu ekki nægilega ljósir til þess að draga af því ályktun nú í dag, hvort þetta hafi við rök að styðjast eða ekki, gegn andmælum, sem komið hafa fram um þetta Efni frá tryggingafræðingum Tryggingastofnunar ríkisins. En ég vildi ekki láta hjá liða samt við þessa umr., án þess að ég vilji flytja neina brtt. í samræmi við þær óskir, sem komið hafa fram frá þessum lífeyrissjóðum, sem margir eru gamlir sjóðir, þá vildi ég benda á það, að það hlýtur að sjálfsögðu að verða að hafa hliðsjón af því, hvort hér er verið að leggja á kvaðir, sem viðkomandi sjóðir geta ekki undir risið. Þetta kemur vafalaust í ljós, þegar þetta dæmi verðar nánar útreiknað, og hér er gefinn frestur í þessu frv. til næstu áramóta um það að koma þessum málum í lag. Að vísu er enginn frekari frestur gefinn, skilst mér, frá þeim tíma, annar en sá, að það er hægt að semja um það við Tryggingastofnun ríkisins, að lífeyrissjóðir skuli greiða það, sem þeir eiga að greiða, á 10 ára tímabili, og er það vissulega út af fyrir sig gott, vegna þess að það er, eins og allir vita og hv. 1. þm. Norðurl. e. enda kom hér inn á, að þá hefur fé lífeyrissjóða yfirleitt verið mjög notað til lánveitinga, sérstaklega í sambandi við húsabyggingar meðlima lífeyrissjóðanna, þannig að það má gera ráð fyrir, að verulegur hluti af fé lífeyrissjóðanna sé að þessu leyti bundinn.

Nú er það að vísu svo, að það er létt af sjóðunum vissum kvöðum, og eftir því sem útreikningar, sem hafa verið gerðir í sambandi við frv. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, benda til, þá eru þeir frádráttarliðir mjög vemlegir, sem koma lífeyrissjóðnum til hagsbóta. Og það kann vel að vera, að það verði einnig svo í þessu tilfelli. En ég vildi leyfa mér aðeins að vekja athygli á þessu máli vegna þess, að ef það kemur fram, að með þessu ákvæði sé verið að eyðileggja að verulegu leyti einhverja ákveðna lífeyrissjóði, er hætt við því, að það valdi mjög mikilli óánægju þeirra aðila, sem þar eiga hlut að máli. Og ég vildi mega vænta þess af hálfu hæstv. félmrh., að þegar það liggur nánar fyrir síðar á þessu árí og ef ástæða þykir til, þá verði hann til viðtals um það, hvort hægt væri að gera einhverjar breyt., sem gerðu það að verkum, að hægt væri að forða frá vandræðum á þessu sviði, án þess þó, eins og ég tek fram, að það verði horfið beint frá því grundvallaratriði þessa frv., að hér eftir verði lífeyrissjóðir almennt viðbótarsjóðir við Tryggingastofnunina eða greiðslur hennar, því að það álít ég í meginefnum að sé algerlega rétt stefna.