01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

196. mál, almannatryggingar

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. sagði, að barnalífeyrir lækkaði. Í sambandi við það er rétt að benda á, að sú breyt. er gerð um leið, að þeir, sem fá barnalífeyri, fá nú til viðbótar fjölskyldubætur, 3000 kr. á ári, og hygg ég, að flestir kjósi það heldur en aura hv. 9. þm. Reykv. Sama máli gegnir um meðlag, sem lækkar um nokkrar krónur á mánuði, en þeir, sem þess njóta, fá í stað þess fjölskyldubætur. Sú regla hefur verið tekin upp að láta standa vel á upphæðum, sleppa fáum krónum eða aurum eða hækka upphæðina upp eftir ástæðum.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. talaði um það, að löggjöfin þyrfti að vera sveigjanleg og endurskoðun þurfi að fara fram stöðugt, eftir því sem þjóðfélagsástæður breytast. Ég er honum alveg sammála um það. Hann sagði, að tryggingarnar og endurbætur á þeim hefðu ekki við verðlagshækkunum. Mér er kunnugt um, að í ýmsum tilfellum er þetta ekki rétt hjá honum. Svo er t.d. um ellilífeyrinn. Með þeim hækkunarheimildum, sem honum hafa fylgt frá því 1956, og þeim hækkunum, sem á honum hafa v erið gerðar síðan, þá dugir ellilífeyririnn betur fyrir fólk, sem þarf að dveljast á elliheimilum, heldur en þá var. Það er mér kunnugt um.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði um barnalífeyri með fleiri börnum en tveimur, er þess að geta, að tryggingarnar eru við það miðaðar, að þær séu ekki hærri en verkamannakaup, en sú regla er almenn, ekki aðeins hér á landi, heldur líka í öðrum löndum, sem hafa svipaðar tryggingar og við höfum.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði, að athugun hefði leitt í ljós, að fjárhag viðurkenndra lífeyrissjóða væri stefnt í hættu með samþykkt frv. Þetta er ekki sú túlkun, sem fram kom á fundi fulltrúa bankanna með heilbr.- og félmn., heldur tóku þeir það sérstaklega fram, að alls ekki hefði gefizt tími til að athuga, hvernig þessi ákvæði verkuðu á fjárhag sjóðanna. En ég tel sjálfsagt, að samningar muni nást við Tryggingastofnun ríkisins um það, að Tryggingastofnunin eða almannatryggingarnar

taki við skuldabréfum sem greiðslu, því að það er ljóst, að með öðru móti gæti sjóðunum reynzt torvelt að greiða til almannatrygginganna það, sem ætlazt er til af þeim iðgjöldum, sem runnið hafa til sjóðanna, eftir að þeir hafa fengið viðurkenningu,í stað þess að renna til almannatrygginga, með þeim vöxtum, sem gert er ráð fyrir að greiddir verði til viðbótar.

Að öðru leyti held ég, að þær umræður, sem hér hafa farið fram, gefi ekki tilefni til athugasemda.