16.04.1963
Neðri deild: 71. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

196. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. hefur nú í allýtarlegri ræðu gert grein fyrir, var samkomulag um það í n. að stuðla að samþykkt frv., þar sem í því felast nokkrar umbætur á tryggingalöggjöfinni í landinu frá því, sem nú er í 1., og enn fremur samkomulag í n. um nokkrar ekki allsendis þýðingarlausar brtt. á frv. frá því, sem var, þegar það kom frá hv. Ed. Það var þó ekki þannig, að ýmsir nm. hefðu ekki kosið fyllri, veigameiri breytingar á frv. Það vildu ýmsir nm. vissulega fá fram, en ekki fékkst um slíkar brtt. fullt samkomulag í n. Eins og segir í nál. á þskj. 633, hafa einstakir nm. því áskilið sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja öðrum till., sem fram kynnu að koma við frv.

Það er rétt, sem hv. frsm. n. sagði, að tími var næsta naumur til athugana á frv., en þó hélt n. nokkra fundi um málið, athugaði frv. og þær breyt., sem á því höfðu orðið í Ed., athugaði einnig, eins og tími vannst til, þær umsagnir og aths., sem borizt höfðu frá ýmsum aðilum, einkum frá ýmsum lífeyrissjóðum, og ræddi við forstjóra almannatrygginga, Sverri Þorbjarnarson. En það skal játað, að tíminn var allt of naumur til þess, að nákvæm athugun, eins og efni hefðu staðið til, gæti farið fram á frv. Það kom í ljós í hv. heilbr.- og félmn., að nokkur vilji var til þess í n. að gera á frv. allmiklar og veigameiri breyt. til bóta en fram kemur í brtt. n. í heild á þskj. 635.

Í n. hafði orðið fullt samkomulag um að bera fram nokkuð miklar og viðtækar breyt. umfram það, sem í ljós kemur á þessu þskj. Ástæðan til þess, að þessar brtt., sem n. varð sammála um, koma ekki fram með þeim brtt., sem n. öll flytur, er sú, að hv. formaður heilbr.- og félmn. þessarar d., hv. 1. þm. Vestf., taldi rétt með tilliti til þess, að það er komið rétt að þinglokum, að fara með þær brtt., sem n. hafði orðið sammála um, á fund hæstv. félmrh. og kanna, hvort hann mundi vilja veita frv. stuðning á þessu þingi og greiða fyrir framgangi þess, ef þessar breyt. næðu fram að ganga á því. Einnig vildi formaður kanna af sömu ástæðu, hvort heilbr.- og félmn. hv. Ed. fengist til að fallast á nokkrar eða e.t.v. allar þær brtt., sem n. þessarar d. hafði orðið sammála um.

Niðurstaðan af hans erindi mun hafa orðið sú, að hæstv. félmrh, og heilbr.- og félmn. Ed. vildu fallast á nokkrar af þeim brtt., sem n. hafði orðið sammála um, en bæði ráðh., hygg ég, og n. Ed. fengust ekki til að heita stuðningi við einar 7 af þeim brtt., sem við höfðum orðið sammála um í n. Þessar till. vantar á það þskj., nr. 635, þar sem n. ber fram sínar sameiginlegu till. til breyt. við frv. Ég taldi hins vegar rétt að bera fram á sérstöku þskj. þær helztu brtt., sem ekki hafði fengizt samkomulag um í n., og enn fremur taldi ég einsætt, að rétt væri að prófa þingviljann hér í hv. d. gagnvart þeim till., sem heilbr.- og félmn. Nd. hafði orðið sammála um, en ekki fengízt fyrirheit um, að yrðu afgreiddar í Ed. Þær brtt., sem við höfðum orðið sammála um, en ekki fékkst stuðningur við hjá ráðh. eða n. Ed., eru á þskj. 636 sem nr. 5, 6, 7, 8, 9, 11 og 12. Að öðru leyti eru á því þskj. brtt., sem n. hafði ekki í heild tjáð sig samþykka, en ég taldi rétt að flytja eftir sem áður.

Hv. formaður heilbr.- og félmn. og frsm. n. gat allra þessara till. í framsöguræðu sinni áðan og skýrði frá 'wí, að n. hefði orðið sammála um þessar till., gerði grein fyrir efni þeirra og lýsti enn fremur þessum vinnubrögðum, að hann hefði farið á fund hæstv. félmrh. og rætt þessar till. við heilbr.- og félmn. Ed. og ekki fengið þar þær undirtektir við till., að hann teldi rétt með tilliti til þess, hve seint á þingi við erum staddir, að bera þær fram og eiga þannig kannske á hættu, að frv. fengist þá ekki fram, ef þessar breyt. væru á því gerðar hér í deildinni.

Ég mun svo í viðbót við það, sem hv. formaður og frsm, n. sagði um efni þessara till., sem þannig hafa verið felldar niður, þótt þær væru shlj. samþ. í heilbr.- og félmn. þessarar d., einnig gera nokkra lauslega grein fyrir efni þeirra, um leið og ég geri grein fyrir brtt. mínum að öðru leyti á þskj. 636, og að þeim brtt., sem ég þar flyt, skal ég nú víkja. Ég læt algerlega næg; a þær skýringar, sem hv. frsm. gerði fyrir hinum sameiginlegu brtt. okkar, sem eru á þskj. 635. Ég hygg, að það liggi alveg skýrt fyrir hv. d., hvers efnis þær eru og til hverra bóta þær mundu vera, ef samþ. verða, og það á sem sé að liggja fyrir vitneskja um það, að þær fáist einnig samþ. í hv. Ed. eða a.m.k. fái meðmæli heilbr: og félmn. þeirrar d. og einnig stuðning hæstv. ráðh. Það er því með öllu áhættulaust a.m.k. með tilliti til framgangs málsins að samþykkja þær, eins og hv. form. n. gat um áðan.

1. brtt. mín á þskj. 636 er við 12. gr.-frv. Á þeirri gr. hefur m. gert till. um tvær breyt., sem hvorar tveggja eru til bóta og form. hefur gert grein fyrir. en ég taldi rétt að gera till. um, að næstsíðasta mgr. 12. gr. orðaðist svo: „Lífeyrir hjóna, sem bæði fá lífeyri, skal vera jafnhár lífeyri tveggja einstaklinga.” En í frv., eins og það nú er, stendur, að lífeyrir hjóna, sem bæði fá lífeyri, skuli nema 90% af lífeyri tveggja einstaklinga. Það er með öllu óeðlilegt að stuðla að því, að gömul hjón verði helzt að skilja samvistum til þess að njóta sama réttar, sama bótaréttar og tveir einstaklingar, og þess vegna á þetta ákvæði í burtu að falla. Hjónin eiga tvímælalaust að njóta sömu bóta og tveir einstaklingar, og heyrði ég ekki betur en hv. form. væri mjög inni á því og svo aðrir nm. Það var nokkuð um það rætt við forstjóra trygginganna, hvort lagfæring á þessu væri algerlega háð því, að iðgjöld hjóna yrðu þá hækkuð, þannig að iðgjöld þeirra yrðu einnig eins og tveggja einstaklinga, og er mér óhætt að hafa það eftir forstjóranum, að hann taldi ekki með öllu rökrétt samband þar á milli og taldi ekki ástæðu til að binda þessa hækkun og lagfæringu eingöngu við, að iðgjöldin yrðu þá einnig jafnhá iðgjöldum tveggja einstaklinga. Þess vegna leyfi ég mér að bera þessa till. fram, einmitt með tilliti til umsagnar forstjórans, án þess að bera jafnframt fram till. um, að lífeyris- og iðgjaldagreiðslur hjónanna í þessum tilfellum, sem greinin tekur til, verði jafnframt hækkaðar í 100% miðað við einstakling.

Þá er önnur brtt. mín við 13. gr. Ég legg til, að gr. orðist svo: „Rétt til örorkulífeyris eiga þeir menn á aldrinum 16–67 ára, sem eru varanlegir öryrkjar á svo háu stigi, að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn helming þess, er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn við störf, sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.“ í gr., eins og hún er nú, er það tekið fram, að þeir eigi rétt til örorkulífeyris, ef þeir eru ekki færir um að vinna sér inn nema fjórða part þess, sem andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði og við störf, sem sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa. Þarna er við það miðað, að þeir séu færir um að vinna sér inn helming venjulegra vinnutekna undir sambærilegum kringumstæðum vinnandi manns og að það sé ekki bundið við tekjumöguleika þeirra í því sama héraði.

Síðan legg ég til, að áframhald gr. verði svo hljóðandi: „Ef örorkan er 50% eða meira, greiðist hálfur lífeyrir fyrir 50% örorku, hækkar síðan um 2% fyrir hvert örorkustig, sem við bætist, unz örorkan nemur 75%, þá greiðist fullur lífeyrir.“ Það væru verulegar breyt. til bóta fyrir hina tryggðu, ef þessi breyt. fengist fram, en ég hygg, að því verði varla móti mælt, að þessi breyt. væri sanngjörn. Þegar menn hafa misst helming orku sinnar, þá tel ég eðlilegt, að þeir fái hálf örorkulaun, en síðan komi hækkun á þetta hlutfallslega, þangað til 75% örorkustigi er náð, og þá fái þeir, eins og nú er, full örorkulaun.

3. brtt., sem ég flyt, er við 16. gr., og er lagt til, að næstseinasta mgr. þeirrar gr. orðist svo: „Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera helmingur af einstaklingslífeyri.“ Það er ætlazt til þess, að meðlag með barni komi til uppeldis barninu að hálfu, og þá finnst mér í raun og veru sjálfsagt, að það sé helmingur lífeyris, sem eigi á móti að koma frá tryggingunum. Nú vita allir, að meðalmeðlag, sem úrskurðað er jafnan, nær ekki því að standa undir framfæri barns að hálfu, og mun því þó nokkuð á vanta, að móðir hafi framfærslueyrt með barni sínu, þó að frá tryggingunum kæmi, eins og hér er lagt til, helmingur af einstaklingslífeyri.

4. brtt. mín er við 18. gr., og er lagt til, að gr. orðist svo: „Barnsfararkostnaður, eins og hann er á hverjum tíma á sjúkrahúsi eða fæðingarstofnun, greiðist af sjúkrasamlögunum.” En 18. gr. er nú í frv. þannig, að fæðingarstyrkur skuli vera 4 þús. kr. við hverja fæðingu. Það þykir óeðlilegt, að þarna sé talað um styrk til móðurinnar, þar sem þessi upphæð, 4 þús. kr., dugir nú rétt til þess að greiða kostnaðinn í opinberri fæðingarstofnun eða sjúkrahúsi við fæðinguna, og þykir því eðlilegra, að gr. sé bara við það miðuð, að þessi kostnaður sé greiddur af tryggingunum. Móðirin fær þar engan styrk, hún fær þennan kostnaðarlið greiddan. Búast má við með hraðvaxandi dýrtíð, eins og við lifum undir, þá dugi þessar 4000 kr., þó að styrkur sé kallaður til móðurinnar, ekki til að greiða þennan útgjaldalið, og er þá enn fjarstæðara að kalla þetta styrk. En með breyt. mundi verða ráð fyrir því gert, að þó að dýrtíð yxi og þessi kostnaðarliður hækkaði nokkuð, þyrfti móðirin ekki að taka á sig neinn hluta þessa útgjaldaliðar og tryggingarnar greiddu hann, en eins og er væri þarna ekki um neina hækkun að ræða.

Allar þessar till. ber ég fram, án þess að um þær hafi fengizt samkomulag í n., — þessar fjórar till., sem ég nú hef gert grein fyrir.

Þá er það 5. brtt. mín á þskj. 636. Hún er ein af þeim till., sem samkomulag varð um í n., en hefur verið felld niður á þskj., þar sem gerð er grein fyrir hinum sameiginlegu till. n.brtt. er við 27. gr., og er þar lagt til, að gr. orðist svo: „Verði vanskil af hálfu sveitarfélags á greiðslu framlags lengur en þrjá mánuði, skal það frá gjalddaga greiða af skuldinni hæstu útlánsvexti viðskiptabankanna, eins og þeir eru á hverjum tíma.“ Ég má segja, að hv. form. og frsm. n. gerði grein fyrir efni þessarar till., enda er hún ein af þeim, sem við vorum sammála um í n. Ég skal ekki fjölyrða frekar um hana, ég tel efni hennar og lagfæringu eðlilega, þótt það sé ekkert stórfellt.

Þá er 6. till., og hún er ein af þeim, sem samkomulag var um í hv. n. Hún er við 35. gr. og er um það, að 4. málsl. 35. gr. skuli niður falla. Þessi mgr. er svo hljóðandi: „Greiðslur skv. grein þessari mega ekki fara fram úr 3/4 af vinnutekjum bótaþega við þá atvinnu, er hann stundaði, er slysið varð, og mega ekki ásamt vinnutekjum nema meiru en upphæð dagpeninga að viðbættum þriðjungi. Í reglugerð skal ákveðið, hvernig meta skuli í þessu sambandi vinnutekjur maka og barna atvinnurekenda, sem tryggð eru skv. a-lið 1. mgr. eða 2. mgr. 32. gr.“ Takmörkunin þarna um það, að aldrei megi bæturnar þarna nema meiru en 3/4 af upphæð dagpeninga að viðbættum þriðjungi, tel ég að eigi niður að falla, og var n. sammála um það.

Í niðurlagi gr., í lokamálsgrein greinarinnar, legg ég til, að orðin „þó aldrei hærri greiðsla en sem nemur 3/4 hlutum launanna“ skuli falla niður. Form. gerði einnig grein fyrir þessari sameiginlegu till. okkar í n., sem hann viðurkenndi einnig, að hver nm. sem vildi gæti tekið upp, og hefði hann raunar mátt geta þess, að þessar till. höfðu allar verið teknar upp á þskj., sem þá lá fyrir, þegar hann flutti sitt mál. En hann tók það réttilega fram, að allir nm. þessarar hv. d. hljóta að hafa óbundið atkvæði um þessar till. og vera frjálsir að því að greiða þeim atkv., því að þeir höfðu allir tjáð sig skýrt og skorinort að vera þeim samþykkir.

7. brtt. mín, sem er ein af þeim, sem samkomulag var um í n., er við 48. gr., á þá lund, að sú gr. verði niður felld. Það er um réttindi manna, þegar þeir flytjast milli sjúkrasamlaga, sem getur eftir núv. ákvæðum l. valdið réttindamissi, sem engan veginn er réttmætt, og þarf því að brúa það bil, þannig að menn haldi réttindum óslitið, þegar þannig stendur á.

8. brtt. er við 50. gr. Þar er í fyrsta lagi lagt til, að 5. mgr. gr. falli niður, en þar segir, að sjúkradagpeningar megi ekki vera hærri en sem nemi 3/4 þeirra vinnutekna, er hlutaðeigandi hafi misst vegna veikindanna. Skal í þessu sambandi að jafnaði höfð hliðsjón af tekjum hans síðustu tvo mánuðina, áður en veikindin hófust. Tekjur húsmóður vegna fullrar vinnu á heimili skulu í þessu sambandi metnar jafnar lífeyrisupphæð skv. 13. gr. Þessi gr. þykir sérstaklega af öllum þeim, sem lægst eru launaðir, vera ranglát. Menn eiga að njóta sömu bótamöguleika samkv. tryggingunum, og þá ekki sízt þeir, sem minnstar hafa tekjurnar, en þarna eru bæturnar skornar í hlutfalli við hin lægstu laun, og þeir, sem lægst launin hafa, fá minnstar bætur. Konur, meðan þær njóta ekki launajafnréttis t.d., eru þar með allar skyldugar til þess að sætta sig við skorinn rétt, minni bætur, og laun húsmóðurinnar eru þarna metin mjög lágt, ósanngjarnlega lágt, og hefði því verið til stórkostlega mikilla bóta, séð frá mannréttindasjónarmiði, ef hv. Ed. og hæstv. ráðh. hefði fengizt til að fallast á, að þessi hluti 50. gr. mætti niður falla, og vildi ég vona, að einmitt þessi brtt., sem n. var hjartanlega sammála um að væri til stórra bóta, fáist samþ. hér í hv. deild.

Þá er 9. brtt., við 55. gr. Hún varðar ekki réttindi einstaklinganna beint. í þeirri brtt. er lagt til, að síðasti málsl. fyrri mgr. í gr. orðist svo: „Séu framlög ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga, skal greiða af skuldinni hæstu útlánsvexti viðskiptabankanna, eins og þeir eru á hverjum tíma.“ Um þessa brtt, fór form. nokkrum orðum, og sé ég ekki ástæðu til að bæta þar neinu við.

Þá er 10. brtt. Hana flyt ég, en hún er ekki ein af þeim, sem samkomulag varð um í n. Hún er um það, að á eftir 67. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: „Allar bótagreiðslufjárhæðir laga þessara eru grunnupphæðir, sem breytast í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar.“ Eins og kunnugt er, er það svo, að þær bætur, sem ákveðnar eru með hverri breyt. almannatryggingalaganna, minnka í hraðvaxandi dýrtið, frá því að lögin eru sett hverju sinni, og hafa þannig ekki þann sama kaupmátt og Alþ. ákveður, þegar afgreiðsla breyt. á þessum l. fer fram. Við þessu er einungis hægt að gera með því að lögfesta, að bótagreiðslufjárhæðir laganna hverju sinni séu grunnupphæðir, sem eigi að breytast í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar. Þá hefðu þær í aðalatriðum þann sama kaupmátt, það sama gildi fyrir bótaþegann og þær hafa á þeim degi, sem Alþ. samþykkir þær, gengur frá þeim. Þetta sýnist því vera till. til þess að ákveða bótunum varanlegt gildi í samræmi við ákvörðun Alþingis.

Þær tvær brtt., sem nú eru eftir á þskj. 636, eru hins vegar í hópi þeirra tillagna, sem n. var sammála um. Sú fyrri þeirra er við 71. gr. og er um það, að 2. málsl. í 4. mgr. orðist svo: „Verði vanskil má innheimta gjöldin með lögtaki.“ Um þessa breyt., sem ekki er stórvægileg, fór form. nokkrum orðum, og tel ég ástæðulaust að bæta þar neinu við.

Síðasta brtt. á þskj. 636, sú 12., er við 74. gr., þess efnis, að gr. skuli falla niður. Það er rétt, sem hv. form. og frsm. n. gat hér um áðan, að með því fyrirkomulagi, sem nú hefur verið tekið upp hér í Reykjavik á vegum Gjaldheimtunnar svokölluðu, þá eru iðgjöldin, sjúkrasamlagsiðgjöldin, nú innheimt með öðrum opinberum gjöldum, og menn missa ekki samlagsréttindi með 6 mánaða vanskilum, en í þessari gr. er gert ráð fyrir, að menn haldi réttindum allt að 6 mánaða vanskilum, en missi réttindi, ef vanskil nema meiru en sex mánuðum. Þessi réttindaskerðing er því nú niður fallin hér í Reykjavík, menn missa hér ekki réttindi á þennan hátt, en allir utan Reykjavíkur munu gera það, ef breyt. fæst ekki á gr. eða réttar sagt hún felld niður. Það er einungis hægt að tryggja öllum í landinu sama rétt og Reykvíkingar koma nú til með að njóta og hafa þegar öðlazt, með því, að fallizt sé á að fellt. gr. niður, annars myndast tvenns konar réttur, og það er ekki geðfellt.

Þá hef ég lokið að gera grein fyrir brtt. þeim, sem ég flyt og sumar voru þess eðlis, að það fékkst ekki. samkomulag um þær í heilbr.- og félmn. þessarar d. En eins og ég hef nú rækilega skýrt, eru 5., 6., 7., 8., 9., 11. og 12. brtt. á þskj. 636 þess efnis, að um þær var fullt samkomulag í n., og n. þessarar d. var öll sammála u m að bera þær fram, en þær hafa ekki verið teknar með af ástæðum, sem þegar hefur rækilega verið gerð grein fyrir af hv. frsm. og form. n. og mér nú.

Því verður ekki neitað, að það eru ýmiss konar lagfæringar, sem felast í þessu frv., og einkanlega þá með þeim breyt., sem hér er lagt til að á frv. verði gerðar í viðbót við þær eina eða tvær breyt., sem hv. Ed. gerði á því. En eins og frv. kom frá hv. mþn., fól frv. í sér einnig nokkrar verulegar breyt. til bóta.

Það hefði, eins og ég sagði í upphafi míns máls, verið ástæða til að gera bæði fleiri og stórfelldari breyt. á frv. í sambandi við þessa endurskoðun. En eins og málið ber að rétt undir þinglok, má segja, að slíkur tillöguflutningur hefði e.t.v. verið líklegur til þess, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Sú höfuðbreyting, sem ég tel að hefði þurft að gera á frv., er hækkun á ellilífeyrinum. Ég lít alltaf á ellitryggingarnar sem einn gildasta þátt okkar tryggingakerfis og þann þátt, sem okkar þjóðfélag eftir sínum fyllstu efnum verði að gera eins góð skil og tök séu á. En ellilífeyririnn á nú að vera 18240 kr. á ári, eða rétt um 1500 kr. á mánuði, og það sjá allir, að það er engin upphæð til þess að framfleyta einstaklingi á, 1500 kr. á mánuði. Ég efast um, að ellilífeyririnn standist það próf að vera borinn saman við ellilífeyrinn eins og hann var, þegar tryggingarnar hófu göngu sína. Það verður a.m.k. ekki miklu betri útkoma fyrir einstaklinginn, sem nú á að framfleyta sér á 1500 kr. á mánuði, heldur en með ellilífeyrinum eins og hann var, þegar tryggingarnar hófu hér starf. Ég tel, að þessi upphæð sé allt of lág, og þegar á annað borð er verið að gera breyt. til bóta á tryggingunum, þá hefði þurft að athuga gaumgæfilega, hvort ekki væri unnt að gera betur við gamla fólkið.

Nú er það svo, að það hefði verið freistandi að bera fram brtt. um þetta og freista þess, hvort ekki fengist þingvilji fyrir því. En það er hins vegar gefið, að veruleg hækkun, sem eitthvað munar um á þessum lið, kæmi það víða við, að það þyrfti að sjá fyrir tekjuöflun til þess að standast hin auknu útgjöld, sem mundu verða veruleg. En fjárlög á þessu ári eru þegar afgr. og þess vegna mundu menn segja, að það kæmi fyrir ekki, þó að þessi upphæð væri hækkuð, ef ekki reyndist unnt að standa við það lagaákvæði. Þetta er meginástæðan fyrir því, að ég hef látið það undir höfuð leggjast að flytja brtt. um þetta meginatriði, sem ég tel vera í tryggingunum. Þó má segja bað um aðstöðu nú til að gera breyt. á þessu frv., að það væri enginn stórkostlegur skaði skeður, þrátt fyrir ýmislegt, sem til bóta er á tryggingum í landi okkar við samþykkt þess, þó að frv. tefðist á þessu þingi, því að í lokagrein frv, segir, að þetta frv. eigi ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1964, ekki fyrr en í byrjun næsta árs. Það væri því fyllilega hægt að ganga frá öllum þeim breyt. á frv. nú, sem æskilegar væru taldar, prófa þingfylgi fyrir þeim, jafnvel þó að afleiðingin yrði sú, að hv. Ed. brygði fæti fyrir það, þar sem það hefði komið frá þessari d., því að vitanlega væri þá hægt að taka málið upp í byrjun næsta þings og vera búið að koma því í gegnum Alþ. fyrir næstu áramót, eða fyrir þann dag, sem nú segir í frv. að það eigi að taka gildi, og þar með að afgreiða frv. einmitt á þeim tíma, sem Alþ. fjallar um fjárlög næsta árs, og þar með taka tillit til þeirra breyt. á útgjöldum, sem af æskilegum breyt, leiddi. Ég fyrir mitt leyti er frekar óánægður með það, að ekkert af þessum breyt. skuli geta fengið fram að ganga, þó að Alþ. samþykki breyt. nú, fyrr en í ársbyrjun 1964. Og ég sé í raun og veru ekki, hvaða nauðsyn ber til að kasta þessu stóra máli nú inn í þinglokin í algerri tímaþröng, þegar engin aðstaða var til að veita málinu sómasamlega afgreiðslu, úr því að það átti ekki að taka gildi nú t.d. á miðju þessu ári, alls ekki fyrr en í byrjun árs 1964. Þetta er þess vegna, þegar litið er á það frá sjónarmiði hæstv. félmrh., miklu fremur rauð rós í hnappagat en mál, sem hafi gildi, meðan hann er félmrh., fram að næstu áramótum a.m.k. En hvort hann verður það eftir þann tíma, veit enginn um. Svo mikið er víst, að ekki á þetta að koma neinum til góðs fyrir þessar kosningar. Breytingar þær, sem samþykktar verða, verða aðeins framtíðarfyrirheit frá og með byrjun ársins 1964, hverjir sem þá stjórna þessum málum.

Ég hygg, að þeim rökum verði ekki hægt að beita, að það hafi þurft að koma þessu á framfæri nú vegna hættu á því, að komandi Alþingi kynni kannske að verða verr stemmt í tryggingamálum, þannig að ef breyt. væru látnar bíða til næsta bings, þá væru þær í hættu. Ég tel miklu fremur, að betra tóm hefði gefizt til þess að athuga allar hliðar málsins og undirbyggja betur till. til bóta umfram þær till., sem í sjálfu frv. felast.

Ég skal nú láta máli mínu lokið og tek það fram, að ég veiti fullan stuðning öllum þeim brtt., sem birtar eru á þskj. 635 í nafni heilbr.- og félmn., og legg mikla áherzlu á, að brtt. mínar, ekki sízt þær, sem öll n. var sammála um, en einnig þær, sem ég hefði e.t.v. flutt einn og fluttar eru á þskj. 636, fáist samþykktar, því að með því væri frv. orðið mörgum bótaþeganum verðmætara en tryggingarnar eru, ef einungis verður samþ. frv., eins og það liggur fyrir, með brtt., sem n. flytur á þskj. 635.