05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

214. mál, þátttaka síldarverksmiðja ríkisins í útgerðarfélagi

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, byggðist afkoma Siglfirðinga árum saman aðallega á síldveiðum, en eftir að síldveiðarnar brugðust upp úr 1944, skapaðist nýtt viðhorf í atvinnulífi staðarins, og var reynt að bæta upp atvinnuástandið með útgerð togara. Eignuðust Siglfirðingar fyrst botnvörpunginn Elliða 1947 og síðar Hafliða 1951. Eins og hjá annarri togaraútgerð hefur oltið á ýmsu með afkomu þessara skipa, en samt sem áður hygg ég, að það fari ekki á milli mála, að útgerð þeirra hafi orðið veruleg lyftistöng fyrir atvinnulífið í Siglufirði og orðið til þess að bæta Siglfirðingum að nokkru upp þann skaða, sem þeir urðu fyrir vegna síldarleysisins.

Það mun hafa verið árið 1953, sem bæjarútgerð Siglufjarðar var komin í verulega fjárhagsörðugleika og þurfti á fyrirgreiðslu ríkisins að halda, til þess að unnt væri að halda útgerðinni áfram, og var það gert með því, að útvegaðar voru 41/2 millj, kr. að láni til þess að skapa áframhaldandi rekstrargrundvöll undir starfsemina, og jafnframt var gerður samningur milli Siglufjarðarkaupstaðar og síldarverksmiðja ríkisins um rekstur skipanna tveggja, sem kaupstaðurinn átti þá, og tók stjórn síldarverksmiðjanna að sér að annast alla útgerðarstjórn og rekstur skipanna fyrir reikning og á ábyrgð bæjarsjóðs Siglufjarðar. Þessum samningi var sagt upp fyrir 2–3 árum, en samt sem áður hefur rekstrarfyrirkomulagið haldizt óbreytt. En nýtt viðhorf hefur nú skapazt í útgerðarmálum Siglfirðinga, eftir að síldin fór að glæðast á ný og eftir að Siglfirðingar urðu fyrir því óhappi að missa annan botnvörpunginn.

Um svipað leyti og þessi samstarfssamningur var gerður milli bæjarstjórnar Siglufjarðar og stjórnar síldarverksmiðja ríkisins komu síldarverksmiðjurnar sér upp hraðfrystihúsi, sem einnig hefur orðið til þess að lyfta undir atvinnulífið á staðnum, og hefur þetta stutt hvort annað, útgerðin og starfsemi hraðfrystihússins, eins og vikið er að í nál, sjútvn. á þskj. 524. Þannig hefur t.d. útgerðin greitt síldarverksmiðjunum talsverðar upphæðir vegna framkvæmdastjórnar og bókhalds, og hraðfrystihús síldarverksmiðjanna hefur á hinn bóginn greitt verulegar verðbætur á afla togaranna, sem unninn hefur verið í hraðfrystihúsi SR. Einnig hefur vélaverkstæði síldarverksmiðja ríkisins mikil viðskipti við bæjarútgerðina, og verkamiðjurnar hafa unnið úr þeim fiskúrgangi, sem til hefur fallið frá hraðfrystihúsinu. Þetta hefur skapað verkefni fyrir hóp manna allt árið um kring á vegum síldarverksmiðja ríkisins, en sá hópur hefur verið kjarninn í því starfsliði, sem verksmiðjurnar hafa þurft að sumrinu til, meðan vinnsla síldarinnar hefur staðið yfir. En sem kunnugt er, hafa síldarverlamiðjur ríkisins aðalbækistöð sína í Siglufirði. Þar hafa þær aðalskrifstofu sína og fjöldann allan af föstu starfsliði, og hefur útgerðin og starfræksla hraðfrystihússins skapað þessu fólki veruleg verkefni á þeim tímum, sem það hefði annars staðið uppi verkefnalítið vegna síldarleysisins.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að heimila síldarverksmiðjum ríkisins með samþykki ríkisstj. að leggja fram allt að 2 millj. kr. sem hlutafé í útgerðarfélagi, er verksmiðjurnar stofni í samráði við Siglufjarðarkaupstað, og eiga eignarhlutföllin að vera þau, að verksmiðjurnar eigi 55% af hlutafénu. Er með þessu stefnt að því að binda það samstarf, sem ég hef nú að nokkru lýst, fastari böndum, og mælir sjútvn. eindregið með, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.