05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

214. mál, þátttaka síldarverksmiðja ríkisins í útgerðarfélagi

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að ég er í öllum aðalatriðum sammála því frv., sem hér liggur fyrir. Það eru þó einstök atriði í þessu frv., sem ég hefði óskað eftir að væru á annan veg, en þar sem ég tel málið ákaflega þýðingarmikið fyrir Siglufjarðarbæ og allt atvinnulif í Siglufirði, þá mun ég ekki flytja neinar brtt. við frv., eins og það hefur verið lagt fram.

Það kemur fram í nál., að ný viðhorf hafi að nokkru leyti skapazt í atvinnumálum bæjarins, og þá sérstaklega vegna þess að við urðum fyrir því óhappi að missa annan af tveimur togurum, og hefur ekkert skip enn þá komið, sem getur talizt að hafi komið í staðinn fyrir það skip. Eins og að líkum lætur, var það mikið áfall fyrir þetta byggðarlag, þegar togarinn Elliði fórst, og er það því ekki að ófyrirsynju, að þetta mál hefur verið tekið upp til viðræðna og athugunar við síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði, sem hafa að undanförnu séð um rekstur þessara skipa. Svo vel hefur þó tekizt til, að síldarverksmiðjurnar hafa tjáð sig vera fúsar til þess að mynda hlutafélag ásamt bæjarstjórn eða Siglufjarðarkaupstað um útgerðarfélag, þar sem verksmiðjurnar tjá sig vera fúsar til þess að leggja fram 3 millj. kr. hlutafé, þó með því skilyrði, að tryggt sé í upphafi, að þær ráði yfir 55% af hlutafénu. Það má deila um það, hvort þessi skilyrði séu hagstæð fyrir Siglufjarðarbæ, en eins og ég tók fram áðan, tel ég málið það þýðingarmikið, að ekki sé hægt að setja þetta fyrir sig, og er því sammála og mun greiða því atkv.

Ég vil svo jafnframt lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst hæstv. sjútvmrh., sem mál þetta heyrir undir, hefur séð sér fært að flytja þetta frv.