11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

148. mál, tollskrá o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Mér kom þessi ræða hv. 5, þm. Reykn. (GilsG) nokkuð á óvart og veit satt að segja ekki gjörla, hvernig ber að skilja hana. Þó komst ég einna helzt að þeirri niðurstöðu, að hann mundi vera andvígur þeirri brtt., sem flutt hefur verið við tollskrárfrv. um það að heimila ríkisstj. að nota aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum til þess að greiða stofnkostnað við íslenzkt sjónvarp. Það kemur væntanlega í ljós við atkvgr., hvort sá skilningur er réttur. En varðandi hitt atriðið, að með þessu móti sé að einhverju leyti óeðlilega farið að, vildi ég aðeins undirstrika, að hér er um heimild að ræða eingöngu, og heimildarinnar hefur verið æskt vegna þess, að ríkisstj, gerir ráð fyrir því að taka einmitt alveg nú á næstunni þá prinsip-ákvörðun um stofnun íslenzks sjónvarps, sem hann gerði að umræðuefni í ræðu sinni, og ef niðurstaðan verður sú, að ríkisstj. tekur ákvörðun um það að hefja raunverulegan undirbúning að íslenzku sjónvarpi, þannig að það geti tekið til starfa á árinu 1966, eins og rætt hefur verið um, þá er nauðsynlegt að hafa þá heimild, sem hér er um að ræða.

Hitt er svo allt annað mál, sem athuga þarf rækilega, eins og ég tók greinilega fram í skýrslu minni til Sþ. fyrir nokkrum dögum, að höfuðvandi í sambandi við allt þetta mál er að sjálfsögðu að ákveða, hver hraði skuli vera hafður á framkvæmdunum, þ.e.a.s. á hversu löngum eða skömmum tíma sjónvarpskerfinu skuli ætlað að taka til landsins alls. Það upplýstist í skýrslu minni, að stofnkostnaður sjónvarps, sem eingöngu tæki til Reykjavíkur og næsta nágrennts, mundi ekki verða innan 24 millj. kr. Stofnkostnaður sjónvarps, sem tæki til alls Suðurlandsundirlendisins og til suðurhluta Snæfellsness, þ.e.a.s. til um það bil 60% þjóðarinnar, mundi þó ekki verða nema 33 millj, kr. Og bygging fjögurra annarra höfuðendurvarpsstöðva um land allt, ef því yrði bætt við, þá mundi heildarkostnaðurinn verða um 70–80 millj. kr. Ef hins vegar gera á ráð fyrir því, að sjónvarpið nái til svo að segja hvers heimilis á landinu, bætist þarna gífurlegur kostnaður við, eða tæpar hundrað millj. kr., þannig að sá heildarkostnaður mundi verða um 180 millj. kr. Í þessu er að sjálfsögðu fólginn mesti vandinn í sambandi við ákvarðanir varðandi sjónvarpið, og það er til þessa vanda, sem ríkisstj. á eftir að taka afstöðu.

En mér leikur mjög mikil forvitni á því að vita, hver er afstaða hv. 5. þm. Reykn. til þessa sem slíks, og einmitt leikur mér hugur á að vita það, áður en ríkisstj. fjallar endanlega um þetta mál, þar sem hann er einn af höfuðmálsvörum stjórnarandstöðunnar og hefur látið þetta mál sérstaklega til sín taka, og ég vildi biðja hann um að svara þeirri fyrirspurn minni: Er hann fylgjandi því, að nú þegar verði hafinn undirbúningur að íslenzku sjónvarpi og tekin verði ákvörðun um að koma á föt íslenzku sjónvarpi? Auðvitað án þess að ég ætlist til, að hann láti á þessu stigi í ljós nokkra skoðun um það, hver hraði eigi að vera á framkvæmdunum hvað það snertir, hvenær íslenzkt sjónvarp eigi að geta tekið til landsins alls.