11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

148. mál, tollskrá o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal í örfáum orðum svara þeirri fyrirspurn, sem hv. 6. þm. Sunnl. beindi til mín varðandi það, hver sé réttarstaða íslenzks sjónvarps, ef til verður stofnað.

Lögfræðingar, færustu lögfræðingar hafa skýrt gildandi lög um ríkisútvarpið þannig, að það taki einnig til sjónvarps, og er það hliðstæður skilningur og uppi hefur verið í öllum nálægum löndum og er uppi varðandi alþjóðasamninga og fjarskipti. Þannig hefur verið litið á, að á því sé enginn efi, að eins og lögum er nú háttað, taki gildandi útvarpslög bæði til hljóðvarps og sjónvarps. Með því móti verður ekki litið öðruvísi en svo á, að ríkisútvarpið hafi lögum samkvæmt heimild til að undirbúa sjónvarp og hefja starfrækslu, ef það hefur fjárhagslegt bolmagn til. Í ráðherrabréfi 1957, nánari dagsetningu man ég ekki, var þessi skilningur staðfestur af hálfu ráðuneytisins, hver væri raunveruleg þýðing gildandi útvarpslaga í þessum efnum. Á grundvelli þessara lagaskýringa og þessa ráðherrabréfs hefur ríkisútvarpið látið fara fram þann undirbúning, sem þegar hefur farið fram varðandi íslenzkt sjónvarp. Ég tel því, að útvarpinu væri tvímælaust heimilt, auðvitað að áskildu samþykki réttra stjórnarvalda, að hefja hér tilraunasjónvarp, ef það hefði fjárhagslegt bolmagn til af eigin rammleik. Lagalega séð væri ekkert því til fyrirstöðu. Á þessum grundvelli hefur sú braut verið mörkuð, sem haldið hefur verið í þessu máli. Hitt er svo annað mál, og það skal ég gjarnan staðfesta að gefnu tilefni frá hv. 6. þm. Sunnl., að stofnun varanlegs sjónvarps, sem ætlað væri að taka til verulegs hluta landsmanna, hvað þá til allra landsmanna, er svo mikilvægt fyrirtæki og fjárhagslega séð svo kostnaðarsamt, að ég fyrir mitt leyti tel vera eðlilegt og sjálfsagt, að Alþ. fái um það að fjalla. Það mundi því a.m.k. vera skoðun mín og ég geri ráð fyrir ríkisstj. í heild, að áður en lagt yrði í mjög veruleg útgjöld til stofnunar stórrar sjónvarpsstöðvar hér á Íslandi, þá væri eðlilegt, að málið væri rætt á Alþ. og Alþ. gefinn kostur á að segja sína skoðun á því máli, sérstaklega hversu hraðar framkvæmdir skyldu vera og hvernig þeim yrði hagað. Af þessum sökum er ekki um að ræða neinn skoðaramun á milli hv. 10. þm. Reykv. og mín. Ég hafði hugsað mér, að einmitt sá háttur yrði hafður á, sem hv. 10. þm. Reykv, lét getið í framsöguræðu sinni fyrir frv. áðan. Engu að síður er nauðsynlegt, að ríkisútvarpið hafi skilyrði til að hefja undirbúning og halda áfram þeim undirbúningi, sem undanfarið hefur verið í gangi, og í því skyni er nauðsynlegt, a.m.k. gagnlegt, að ríkisstj. hafi þá heimild, sem hún hefur farið fram á að fá í því frv., sem hér liggur fyrir. Með þessu vona ég, að telja megi fyrirspurn hv. 6. þm. Sunnl. fullsvarað.

Að síðustu vildi ég svo aðeins bæta því við, að mér var það til mikillar ánægju að heyra, að hv. 6. þm. Sunnl. virtist ekki vera sömu skoðunar og mér virtist hv. 5. þm. Reykn. vera varðandi það, hvort og hvenær æskilegt væri að efna til íslenzks sjónvarps. Hv. 6. þm. Sunnl. tók það skýrt fram og undirstrikaði það, að hann teldi, eins og öllum málum væri hér háttað, æskilegt, að framkvæmdum við íslenzkt sjónvarp væri hraðað eins og kostur væri á og eins og eðlileg fjárhagsgeta leyfði eða heimilaði, m.ö.o., að það væri æskilegt, að íslenzkt sjónvarp kæmist á sem allra fyrst, en auðvitað yrði að hafa þann hraða á framkvæmdum, sem samræmdist skynsamlegri hagnýtingu fjár og með fullum samanburði við aðrar fjárþarfir í landinu. Um þetta er ég honum nákvæmlega sammála. Þarna lét hann í ljós nákvæmlega þær skoðanir, sem ég persónulega hef á þessu máli.

Hins vegar fannst mér enn nokkurt hik á hv. 5. þm. Reykn. í málinu og raunar, án þess að ég vilji gera honum nokkrar getsakir, helzt mega skilja ummæli hans þannig, að hann sé íslenzku sjónvarpi frekar andsnúinn, a.m.k. telji sízt af öllu að þið liggi nokkuð á því, að íslenzkt sjónvarp komist á fót, hvorki fyrir Reykvíkinga né heldur fyrir Suðurlandsundirlendið, hvað þá landið allt. Um þetta er ekkert að segja. Ég get ekki sagt annað en það, að jafnvænt og mér þykir um, að hv. 6. þm. Sunnl. skuli hafa þá skoðun, sem hann hefur á þessu máli, þá harma ég það, að skoðun hv. 5. þm. Reykn. skuli vera jafníhaldssöm í þessu efni og hún virðist vera.