09.12.1963
Efri deild: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

16. mál, fullnusta refsidóma

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í samræmi við samkomulag, sem um það hefur orðið milli dómsmrh. Norðurlanda að beita sér fyrir samræmingu á fullnustu refsidóma í þessum löndum á þann veg, að það yrði heimilt að framfylgja þessum refsidómum í hverju landi fyrir sig, þó að dómur sé upp kveðinn í öðru landi. Frv., eins og það liggur fyrir hér, er í samræmi við þau frv., sem nú liggja fyrir þjóðþingum hinna Norðurlandanna, og er hugmyndin, að löggjöfin í þeim löndum öllum verði endanlega afgreidd fyrir næstkomandi áramót og því að því stefnt, að einnig hér verði þessi löggjöf afgreidd fyrir þann tíma, þannig að lögin geti fylgzt að.

Frv. lá fyrir síðasta þingi, en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu, m. a. vegna þess, að málið var ekki komið á þann rekspöl í hinum Norðurlöndunum, og þótti því rétt að bíða með samþykkt málsins einnig. En nú er séð fyrir endann á því í öllum löndunum, að þessi löggjöf muni verða sett um svipað leyti alls staðar.

Það er einróma till. allshn. þessarar hv. d., að frv. verði samþ. óbreytt.