09.04.1964
Neðri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

205. mál, sóknargjöld

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir þeim breytingum á gildandi lagaákvæðum um sóknargjöld, að í stað þess, að þar er ákveðið fast gjald, sem nú er 100 kr., verði það framvegis eftir ákvörðun safnaðarfunda í hverri sókn, að fengnu samþykki kirkjumrh. Það kemur fram í grg. frv., að talið er, að það þurfi að hækka sóknargjöldin í sambandi við margvíslegan rekstrarkostnað safnaðanna nú, og er þar talað um, að það þurfi að hækka þau í 200 kr. Hins vegar liggja fyrir óskir um það og það væri hentara og eðlilegra, að þetta væri ekki bundið í l., heldur eftir ákvörðun hinna einstöku safnaða á hverjum tíma og þá með samþykki ráðh.

Þetta er efni þessa frv. Að öðru leyti skýrir grg., vegna hvers það er fram komið, vegna óska bæði biskups og safnaðanna, safnaðarráðs Reykjavíkur og fleiri aðila, og vildi ég mega vænta þess, að málið gæti fengið góðar undirtektir og afgreiðslu hér í þinginu, og vildi mega leggja til, að að lokinni þessari umr. yrði málinu vísað til hv. fjhn.