30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Lúðvík Jósefssen:

Herra forseti. Með þessu frv. hyggst ríkisstj. afla byggingarsjóði ríkisins um 20 millj. kr. tekna með því að setja lög um reglur um ávöxtun fjár tryggingafélaga í landinu. Þetta er annað frv., sem ríkisstj. flytur nú í því skyni að afla byggingarlánakerfinu tekna. Hitt frv., sem enn liggur hér fyrir til afgreiðslu, er um hækkun á skyldusparnaði unglinga. En gert hefur verið ráð fyrir, að það —frv. gæti aflað byggingarsjóði aukinna tekna, sem nema í kringum 30 millj. kr. á ári.

Þessi tvö frv., sem eru þd þetta seint á ferðinni á árinu, ná því harla skammt í raun og veru til þess að leysa þann mikla vanda, sem við er að glíma í sambandi við íbúðarhúsalánveitingar. Þó að áætlanir þessara tveggja frv. stæðust með möguleika á fjáröflun, þá getur varla orðið um að ræða meiri tekjuöflun en sem nemur í kringum 15 millj. kr. á þessu ári vegna hækkunarinnar á skyldusparnaði og varla um meiri tekjuöflun að ræðs af þessu frv, en sem nemur 10 millj. kr. nú á þessu ári. Auk þess sýnist mér, að ákvæði þessa frv. séu þannig, að það verði að teljast mjög hæpið, að það takist að ná þeim auknu tekjum, sem gert er ráð fyrir í grg. frv., með ákvæðum frv., eins og þau eru. Ég sé, að það er gert ráð fyrir því, að sjóðir líftrygginga kaupi verðbréf af húsnæðismálakerfinu fyrir um 5 millj. kr. á ári. Það má vel vera, að það mundi takast að fá þá upphæð, þó að ákvæði frv. yrðu eins og þau eru nú í þessu frv., eins og það liggur fyrir. Þó sýnist mér, að þessar líftryggingar hafi alla möguleika til þess að binda sitt fé í öðru en verðbréfum íbúðalánakerfisins. Skv. 2. gr. þessa frv. er slíkum sjóðum heimilt að ávaxta fé sitt með ýmsu öðru móti, og ég dreg þó nokkuð í efa, að að öllu öðru óbreyttu komi 5 millj. kr. til íbúðalánakerfisins frá líftryggingunum. En þó sýnist mér, að enn þá meiri vafi hljóti að leika á því, að hin önnur vátryggingarfélög í landinu, sem frv. nær til, leggi íbúðalánakerfinu það fé, sem gert er ráð fyrir í grg., því að skv. frv. hafa þau heimild til þess að ávaxta sitt fé eftir svo mörgum leiðum, að ég held, að það hljóti að vera mjög vafasamt, að ríkisstj. gangi nokkuð betur eftir en áður með að fá fé frá þessum tryggingafélögum til íbúðalánakerfisins, ef ekki er gengið öðruvísi frá þessum málum en gert er skv. þessu frv.

Ef maður t.d. virðir fyrir sér helztu vátryggingafélögin í landinu, við skulum segja t.d. eins og Brunabótafélag Íslands, þá er vitað mál, að þetta vátryggingafélag hefur lánað talsvert mikið á hverju ári, og megnið af því, sem það félag hefur lánað út, hefur gengið til sveitarfélaga. Það er beinlínis gert ráð fyrir í frv., að þetta vátryggingarfélag geti haldið áfram að verja lánum sínum á sama hátt og verið hefur, það er fullkomlega heimilt.

Sama er að segja um brunatryggingar Reykjavíkurborgar. Þar er vitanlega um allmikla tryggingastarfsemi að ræða. Ég sé ekki annað en að sú tryggingastarfsemi geti varið fjármunum sínum á sama hátt og hún hefur gert áður, þ.e.a.s. lánað þetta til sveitarfélags eða þá til að kaupa eitthvað af ríkistryggðum bréfum. Svipað er að segja um mörg önnur vátryggingafélög, þau hafa greinilega alla möguleika til þess, þrátt fyrir ákvæði þessa frv., að festa sitt fé eða verja sínu fé án þess að það komi byggingarsjóði ríkisins sérstaklega til góða.

Ég vek aðeins athygli á þessu, að ég tel, að eins og frv. er, sé hæpið, að byggingarlánakerfið fái skv. þessari leið þær tekjur, sem hér eru ráðgerðar, um 20 millj. kr. á ári. Ég tel það mjög hæpið og alveg augljóst mál, að á þessu ári getur lánakerfið ekki fengið nema í mesta lagi um helming þessarar fjárhæðar eða í kringum 10 millj. kr. í almesta lagi, því að vitanlega tekur það vátryggingafélögin nokkurn tíma að komast út úr þeim lánveitingum, sem þau hafa staðið í. Þeim lánum verður ekki sagt upp í skyndi eða um leið og þetta frv. væri orðið að lögum, svo að það fé, sem er bundið í þeim lánum, losnar ekki undireins.

Ég verð því að segja, að þó að tilgangurinn með þessari lagasetningu sé út af fyrir sig góður, þá dreg ég það nokkuð í efa, að mikið fé verði laust til íbúðarhúsalána skv. þessari leið. Og eins og ég sagði hér áður, þá get ég ekki séð, að út úr skyldusparnaðarfrv., sem hér liggur fyrir, geti komið öllu hærri fjárhæð til útlána á þessu ári en í kringum 15 millj. kr., ef rétt er áætlað, að árlegar tekjur, miðað við 12 mánuði, af þessum aukna skyldusparnaði séu í kringum 30 millj. kr.

Þessar fjárhæðir draga því harla skammt til þess að leysa þann mikla vanda, sem við er að glíma í húsnæðismálunum. Ég held því, að það þurfi að koma fram miklu stærri tillögur frá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, ef hún ætlar að leysa á nokkurn viðunandi hátt þetta vandamál. Og ég á ákaflega erfitt með að sjá, að hjá því verði komizt, að ríkissjóður taki á sig allverulega greiðslu til byggingarlánakerfisins nú þegar á þessu ári til þess að leysa nokkuð þetta mikla vandamál. Auk þess finnst mér, að til greina hefði átt að koma að skattleggja bankakerfið í landinu nokkuð til ágóða fyrir byggingarlánakerfið. Það hafa oft komið hér fram till. um það áður, að bankarnir í landinu yrðu látnir borga nokkurn skatt af sínum árlega hagnaði, og mér hefði fundizt, að sú leið væri vel fær. Margt annað kæmi hér til greina, og skal ég nú ekki vera að fara í það, því að ég hef nú gert stundum áður grein fyrir mínum skoðunum í þeim efnum.

En aðeins örfá orð í sambandi við stöðu~la í byggingarmálunum. Hæstv. félmrh. gat þess hér í umr. um þetta mál í gær, að áætlað væri, að það þyrfti að byggja í kringum 1500 íbúðir á ári í landinu. En reynslan hefur verið sú, að byggt hefur verið nokkru minna en þetta nú um nokkurra ára bil. Á tímabili tókst að byggja hér nokkru meira en þetta, en nú síðari árin hefur dregið aftur úr byggingum af skiljanlegum ástæðum, og byggingarnar hafa ekki náð þessu marki, sem talið er þó að sé það metfaltal, sem við þurfum að keppa að. Í skýrslum, sem Framkvæmdabankinn hefur gefið út, segir, að árið 1957 hafi fullgerðar íbúðir á landinu orðið 1618. Þá var farið yfir þetta mark. Og árið 1958 voru fullgerðar íbúðir á landinu taldar 1431. Árið 1959 voru fullgerðar íbúðir 1526 og árið 1960 1484. Á þessum árum má segja, að það hafi verið byggt um það bil þetta meðaltal, sem nú er áætlað að þurfi að byggja af íbúðum á hverju ári. En svo hefur farið að draga allverulega úr þessu, og á árinu 1961 voru ekki fullbyggðar nema 1209 íbúðir á öllu landinu, og árið 1962 1272, og á þessum árum hefur sem sagt skort allverulega á, að við náum því meðaltali í íbúðarhúsabyggingum, sem talið er að við þurfum að ná, og við vitum mætavel, hverjar hata verið orsakimar til þessa. Orsakirnar hafa verið þær, að það hefur orðið erfiðara og erfiðara fyrir fólk í landinu að ráðast í byggingar og fullgera sín íbúðarhús. Kostnaðurinn hefur stóraukizt, og aðstoð ríkisins hefur raunverulega minnkað stórlega með tilliti til byggingarkostnaðar.

Þegar borinn er saman kostnaður við að koma upp meðalibúð nú í dag og t.d. í upphafi viðreisnartímabilsins, kemur í ljós, að samkvæmt byggingarvísitölu hefur kostnaðurinn á meðalibúð hækkað mjög verulega. Ef miðað er við 320 rúmmetra íbúð, sem er talsvert miklu minni íbúð en meðaltalið er nú í landinu, en mætti kannske teljast hófleg íbúð eigi að síður, þá kostaði slík íbúð skv. byggingarvísitölu í febrúarmánuði 7.960 eða alveg í upphafi viðreisnarinnar 409 þús. kr., en nú í febrúarmánuði 1964 kostar jafnstór íbúð skv. byggingarvísitölu 626 þús. kr., eða hækkunin er 217 þús. kr. Hækkunin á þessarf tiltölulega hóflegu íbúð er skv. byggingarvísitölu um 217 þús. kr., eða hækkunin er mun meiri en sem nemur hámarkslánum byggingarlánakerfisins á hverja íbúð, svo að það er auðvitað ekkert um það að villast, að sú aðstoð, sem veitt er af hálfu hins opinbera, hefur stórlega minnkað frá því, sem áður var. Það skiptir vitanlega engu máli að tala um það, hvort lánaðar hafi verið út aðeins fleiri krónur nú síðari árin en gert var fyrir fjórum eða fimm árum. Þær krónur hrökkva ekki einu sinni til til þess að vega upp aukinn byggingarkostnað.

Það er þessi þróun, sem héfur leitt til þess, að það hefur dregið úr byggingum, þannig að við erum komnir þó nokkuð niður fyrir það að byggja það, sem talið er, að við þurfum að byggja á hverju ári. Og þegar þannig tekst til, þá kemur hitt tímabilið fljótlega. Það hefur reynslan sýnt okkur, að þá þarf eftir svolítinn tíma að ráðast í miklum mun meiri byggingar en sem nemur meðaltalinu, sem út hefur verið reiknað, og þá má búast við því, að við þurfum að fara að byggja í nokkur ár 1800–2000 íbúðir á ári til þess að vega það upp, sem aftur úr hefur dregizt.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt í þessum efnum að gera sér grein fyrir því, að það er óhjákvæmilegt, ef á að ráða bót á þessum vanda, að halda áfram því verki, sem hafið var árið 1957, þegar lögin um byggingarsjóð ríkisins og húsnæðismálastjórn voru sett, þegar lagður var grundvöllur að því að afla byggingarlánakerfinu nokkurra fastra tekjustofna, þ.e.a.s. byggja upp sjálfstæðan byggingarsjóð með eigin tekjum, sem gæti staðið undir lánveitingum eftirleiðis. Það þarf að halda þessu verki áfram, ef á að vera hægt að ráða fram úr þessum málum. Það er alveg útilokað að halda áfram eins og nú hefur verið um hríð, að öll lán húsnæðismálastjórnar byggist á aðfengnum lánum frá öðrum lánastofnunum og þar sé aðeins um framlán að gera, vegna þess að þá eru menn í rauninni alltaf í sömu vandræðunum í þessum efnum, auk þess sem af því leiðir svo það, að lánin verða til íbúðabyggjenda bæði með óhagstæðum vaxtakjörum og lánstíminn verður einnig allt of skammur.

Það, sem þarf því virkilega að gera í þessum efnum, er að horfast í augu við þann vanda, að það þarf að auka við fasta tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins, þannig að fastir tekjustofnar byggingarlánakerfisins geti komizt upp í 150–200 millj. kr. á ári, af því að það þarf vitanlega að stórhækka lánveitingarnar til hvers lántakanda um sig. Og til þess að gera það þarf vitanlega miklu stærri tillögur en þær, sem hér eru á ferðinni. Þær ná svo grátlega skammt, þó að ríkisstj. tækist nú að fá 10–20 millj. kr. að láni hjá vátryggingafélögunum skv. þessu frv. á ári og þó að henni tækist að fá nokkur fyrstu árin 30 millj. kr. eða svo í auknum skyldusparnaði unglinga, en það er vitanlega ekki fastur tekjustofn, því að hann kemur til með að ganga út úr kerfinu fljótlega aftur. Það þarf að ganga miklu lengra en sem nemur þessum till., ef á að ráða við þennan vanda.

Ég ætla líka, að ríkisstj. sé ljóst, að það er vitanlega ekki hægt að una við það lengur, að hámarkslán íbúðarlánakerfisins séu 150 þús. kr. á íbúð. Þá upphæð verður að hækka og hækka mjög verulega með tilliti til hækkandi byggingarkostnaðar.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta frv. á þessu stigi málsins, en læt aðeins í ljós efa minn um það, að þetta frv. verði sú tekjulind fyrir íbúðakerfið, sem látið er í veðri vaka í grg. frv.